Eldgos Sigurgeirs

„Ísland er óþrjótandi myndefni, land í sífelldri mótun í orðsins fyllstu merkingu'' segir Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndari. Hann er með tvær bækur í vinnslu núna. Aðra um gosið í Eyjafjallajökli og svo bókina Earthward með loftmyndum af Íslandi.

volcano-textiSigurgeir Sigurjónsson er löngu landskunnur fyrir landslagsljósmyndir sínar. Hann er með tvær bækur í vinnslu núna. Aðra um gosið í Eyjafjallajökli sem kemur út á þremur tungumálum, þýsku, ensku og frönsku í lok júní. Svo er það bók með loftmyndum af Íslandi, sem heitir einfaldlega Earthward.

Ég hitti Sigurgeir fyrir á vinnustofu hans við Hverfisgötuna í Reykjavík, sem vondir menn segja að sé einhver minnst listrænasta gata í Vestur-Evrópu. Það kann að vera rétt. Það er hinsvegar á hreinu að í stóru timburhúsi, þar sem Sigurgeir hefur komið sér upp snyrtilegri og fallegri vinnuaðstöðu, er umhverfi ljómandi gott fyrir ljósmyndara: Ljósaborð frammá gangi, sófasett í stofu, hillur fullar af bókum, og svo liggur Leica vél kæruleysislega fram á lappir sínar í anddyrinu. Hasselblad myndavél í kallfæri líka. Sigurgeir sest fyrst niður í sófann, en stendur svo upp, vekur tölvuna, og byrjar að fletta og segja frá bókunum tveimur sem eru í vinnslu. Þær verða hinsvegar komnar í bók fyrr en varir.

,,Það er ekki alveg ákveðið hvað bókin um gosið í Eyjafjallajökli á að heita'' segir Sigurgeir.

Skyndilega og fyrirvaralaust varð orðið: Eyjafjallajökull, á hvers manns vörum útum allan heim vegna áhrifa þess á flugumferð. Þetta varð vinsælasta og um leið óskiljanlegasta orðið í CNN heimsfréttunum. Varla að Íslendingar sjálfir geti sagt það skammlaust.

,,Já, ég er ennþá að velta fyrir mér nafninu á bókinni'' segir Sigurgeir, og bætir við: ,,Nafnið Eyjafjallajökull segir í sjálfu sér alla söguna. Þetta er bók um gosið sem er ennþá í fullum gangi þar eystra.  Það veit enginn ennþá hvernig þetta endar allt saman.  Bókin sjálf er tilbúin, í fjórum köflum, upphaf gossins og svo er þróun þess, áhrif á íbúa á svæðinu ekki síst.''

Þetta eru orð að sönnu. Það eru margar feykilega sterkar myndir í kaflanum um öskufallið, hvernig heimurinn undir Eyjafjöllum varð grár í einu vetfangi, myrkur um hábjartan daginn! Forsíðumynd bókarinnar er afar sterk, þar sem eldur logar í tveimur gígum og askan hefur myndað einskonar skál í hálfhring um gíginn. Svo sé ég líka mynd frá þeirra fallegu Seljavallalaug, sundlaug sem var byggð af bændum undir Eyjafjöllum snemma á tuttugustu öld. Myndin er tekin yfir baðhúsið, í suðurátt, laugin sægræn en allt annað öskugrátt, meira að segja himinninn er litaður vægum gráum lit.


Volcano-5Volcano-1


 - Það hlýtur að vera spennandi fyrir þig sem ljósmyndara að vinna þessar myndir í bók, af eldgosi sem er ennþá í fullum gangi?

,,Já, þetta eru sterkar myndir'' segir Sigurgeir, ,,ég held að það bæti líka miklu við myndirnar að fá sögu gossins í tenglsum við jarðsögu Íslands. Það er Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur sem skrifar textann í bókinni og hann útskýrir vel hvað er að eiga sér stað í Eyjafjallajökli. Ég er einnig með nokkrar frábærar myndir eftir aðra ljósmyndara í bókinni sem vega þungt.''

Earthward

Earthward-1Earthward-2Earthward-6

Hugmyndin að bókinni Earthward, sem kemur út á haustmánuðum, kviknaði fyrir um fjórum árum. ,,Ég ætlaði fyrst að gefa þessu verkefni um mánaðartíma. Ég fór að taka ljósmyndir úr þyrlu sem ég hafði ekki gert áður. Þannig kom í ljós nýtt landslag fyrir mér, svona án sjóndeildarhrings ef svo má segja. Smám saman fann ég að þetta yrði stærra verkefni. Ég fór að fara nær landinu, og í ljós komu allskonar form og hlutir sem ég hafði ekki séð áður.''

Svo flettir Sigurgeir í gegnum fáeinar Earthward myndir. Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru þessi ólíku form og litir sem Ísland hefur. Svolítið einsog bland af abstrakt málverki þar sem olíulistum og vatnslitum hefur verið blandað að saman, óhlutbundin verk sem stafar af tilfinning fyrir litum og ljósi.

 - Hvenær dagsins eru þessar myndir teknar?

,,Seinnipart dags'' segir Sigurgeir, ,,það gefur auga leið. Um hábjartan daginn er allt einsog yfirlýst. Þegar fer að skyggja, koma þessir litir í ljós, og landið, jöklar og vatn, teiknar sig á svona heillandi og dularfullan hátt.''

- Það er kannski klisjuspurning, en ég læt hana fara; afhverju er Ísland svona óþrjótandi uppspretta hugmynda og mótífa fyrir þig sem ljósmyndara?

,,Ég vona að myndirnar svari því best sjálfar. Ísland er óþrjótandi myndefni, land í mótun. Það er fullt af fegurð og andstæðum og er alger gullkista fyrir ljósmyndara.''


Um Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndara


Sigurgeir SigurjónssonSigurgeir Sigurjónsson fæddist í Reykjavík árið 1948. Hann lærði ljósmyndun árin 1965-1969 og var síðan við framhaldsnám í ljósmyndaskóla Christer Strömholm í Stokkhólmi 1970-1971 og í San Diego, Kaliforníu, 1980-1981.

Verk hans hafa birst í fjölda bóka. Sú fyrsta, Svip-myndir, kom út árið 1982, og 1992 kom út fyrsta bók hans með landslagsmyndum, Íslandslag. Í kjölfar hennar komu út nokkrar vinsælustu ljósmyndabækur um Ísland og Íslendinga sem gefnar hafa verið út: Ísland – landið hlýja í norðri, árið 1994, Amazing Iceland 1998 og Where nature shines 1999, auk bókanna Reykjavík – A city for all seasons 1999 og The world of moving water 1999. Árið 2002 kom svo út bókin Íslandssýn eða Lost in Iceland, árið 2006 landið okkar eða Found in Iceland og síðan Made in Iceland árið 2007. Með Unni Jökulsdóttur vann Sigurgeir bókina Íslendingar sem kom út árið 2004.