Auður Ava Ólafsdóttir

Það er hlutverk skálda að misskilja tungumálið

„Skáld er útlendingur í eigin tungumáli, það er hlutverk skálda að misskilja tungumálið,“ segir rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir í viðtali við Sagenhaftes Island. Skáldsaga hennar Afleggjarinn kemur út í Frakklandi í næsta mánuði.

Auður Ólafsdóttir

„Skáld er útlendingur í eigin tungumáli, það er hlutverk skálda að misskilja tungumálið,“ segir rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir í viðtali við Sagenhaftes Island. Skáldsaga hennar Afleggjarinn kemur út í Frakklandi í næsta mánuði.

Auður gaf út sitt fyrsta skáldverk, Upphækkuð jörð, árið 1998. Síðan hafa frá henni komið tvær aðrar skáldsögur og söguljóðið Sálmurinn um glimmer, sem kom út fyrr á þessu ári. Auður hefur í gegnum árin hlotið talsverða athygli fyrir að nálgast hversdagsleikann á sérstæðan hátt í verkum sínum. Í ritdómi Morgunblaðsins um Upphækkaða jörð sagði að fagurfræði verksins væri „að brytja smátt, nánast niður í það ósýnilega,“ og segja má að þetta sé línan sem liggi í gegnum allar skáldsögur hennar. Bækur hennar eru ekki frásagnir stórra atburða, heldur er brennidepill þeirra hið smáa í tilverunni; þar sem fagurfræði hins hversdagslega ríkir. Næstu tvö verk hennar, Rigning í nóvember og Afleggjarinn, hlutu almennt lof gagnrýnenda. Gagnrýnandi Morgunblaðsins æpti „Meira! Meira!“ eftir að hafa lesið þá fyrrnefndu, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, og gat ekki beðið eftir þeirri næstu. Fyrir Afleggjarann hlaut hún svo Menningarverðlaun DV auk Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Dómnefnd DV sagði bókina rífa sig úr viðjum hins hefðbundna: „Hér er sleginn nýr tónn í íslensku samhengi.“ Og gagnrýnandi Morgunblaðsins sagði bókina vera tvímælalaust eina af sterkustu skáldsögum ársins 2007.

Sérhvert tungumál opnar nýja möguleika

Það var áhugi fyrir tungumálinu sjálfu sem leiddi Auði inn á braut skáldskaparins.

Ég varð snemma meðvituð um að tala tungumál sem fáir skilja og tala og finnst það mikil forréttindi sem rithöfundur í dag. Það eru beygingarnar sem gera okkur kleift að takast á við veruleikann. Yfirleitt skrifa ég bækur aðeins fyrir einn tiltekinn lesanda og það hversu óaðgengilegar íslenskar bækur eru heimsbyggðinni, gefur þeim forskot í dulúð. Ég hef alltaf haft sýn á heiminn sem er dálítið á ská. Síðan kemur þessi löngun upp úr engu sérstöku að búa til uppspunna heima sem lúta eigin lögmálum. Það kann að tengjast ríkri frelsisþörf. Mig langaði til að nálgast hið órökrétta í sálarlífi mannsins á músíkalskan hátt og gera svokallaðan hversdagsleika svolítið upphafinn, gefa honum jafnvel trúarlega merkingu, eins og í Afleggjaranum. Ég hef alveg snert af þeim komplex rithöfunda að vilja hafa heiminn öðruvísi en hann er. Áður en ég fór að skrifa skáldsögur var ég einhvern tímann að þvælast uppi í Pýrenafjöllum og kom þá í þorp þar sem stóð yfir þing ástarsagnahöfunda. Ég hafði aldrei séð hóp fólks sem var ólíkari rithöfundum að yfirbragði, ekki svo að skilja að rithöfundar hafi staðlað útlit. Það virtist vera eitthvert litaþema í gangi í klæðnaði, mikið fjólublátt. Og þá fór ég að hugsa um að það væri gaman að vera kannski einhvern tímann boðin á svona þing. Síðan þá hefur ástin verið þrástef í mínum bókum.

Eitt af megineinkennum skáldverka Auðar er rík meðvitund um takmörk tungumálsins sem og möguleika þess; í sérhverju tungumáli býr sérstök hugsun. Nú hefur skáldsaga hennar Afleggjarinn verið þýdd yfir á dönsku og frönsku. Hvernig upplifir hún verkið þegar það er komið í þennan nýjan búning?

Þótt beygingarnar tapist í þýðingum, opnar sérhvert tungumál líka nýja möguleika! Ég trúi því að það sé hægt að þjást og þrá á svotil öllum tungumálum. Ég hef líka verið gríðarlega heppin með þýðendur sem hafa náð hrynjandinni sem er líklega það erfiðasta við þýðingar. Afleggjarinn kemur í bókabúðir í Frakklandi í ágúst. Frakkar völdu bókinni nýjan titil, nafnið á rósartegundinni sem söguhetjan mín ræktar, Rosa candida sem er líka heiti sem var notað um Maríu guðsmóður í gömlum bókum. Í umfjöllun um bókina heimfæra  Frakkar hugtakið „candide“ upp á sakleysi og hreinleika unga föðurins í bókinni og byggja um leið brú yfir í Candide eftir Voltaire. Dönum aftur á móti þótti merkilegt að sögupersóna bókar skyldi treysta ókunnugum líka útlendingum og byggðu sína brú yfir í hinn fölskvalausa Muskin eftir Dostovjevskí. Síðan má ekki gleyma því að skáld er útlendingur í eigin tungumáli, það er hlutverk skálda að misskilja tungumálið.

Íslensk systir Da Vinci lykilsins?

Audur_AfleggjarinnAfleggjarinn hlaut góðar viðtökur þegar hún kom út í danskri þýðingu snemma á síðasta ári. Gagnrýnandi dagblaðsins Politiken var afar hrifinn af verkinu, en lýsti því sem íslenskri systur Da Vincilykilsins. Spurð að því af hverju þessi óvænti samanburður gæti hafa sprottið segist Auður ekki hafa lesið bækur Dan Brown. „En ég hef séð hálfan Da Vincilykil á dvd. Það var engin planta í fyrri hlutanum, og munkinum sem brá fyrir var hvorki tungumálaséní né bíóaðdáandi eins og minn munkur. Kannski er klaustur svona framandi hugmyndaheimi Dana eða áhrif Snæbjörns útgefanda Dan Brown  í Kaupmannhöfn svona víðtæk, sem er auðvitað frábært.“

Auður hefur í gegnum árin starfað sem listfræðingur við Háskóla Íslands. Hefur sá bakgrunnur haft einhver áhrif á nálgun hennar við skáldskapinn?

Ég hallast að því að sú staðreynd að ég vinn fulla vinnu við kennslu í HÍ, hafi helst þau áhrif að lengra verði á milli skáldverka. Það er svolítið flókið þetta með myndirnar. Þær eru hluti af mínum menningarlega farangri, þúsundir mynda af öllum toga. Það liggur oft mynd djúpt undir textalögum en ekkert endilega úr listasögunni. Mig minnir að það hafi verið sami danski gagnrýnandinn sem sagði Afleggjarann vera „smuk som et guldaldermaleri“. Ég fór strax að velta fyrir mér hvort hann ætti við málverk frá 16. eða 17. öld? Og þá hvaða tiltekna málverk? Það olli mér nokkrum heilabrotum.

Auður er þessa dagana að leggja lokahönd á sitt fyrsta leikrit, sem ber titilinn Svartur hundur prestsins, en hún hlaut nýverið styrk úr leikritunarsjóði Prologos. Verkið verður svo væntanlega sett á svið í Þjóðleikhúsinu haustið 2011. En það er ekki auðvelt að vera í fullu starfi sem listfræðingur samhliða ritstörfum. „Ég er hins vegar búin að fresta nýrri skáldsögu sem átti að koma út í haust og ég er komin langt með. Ég er búin að vera lengur með hana af því að það hefur verið svo mikið að gera í vinnunni.“