Kristín Marja Baldursdóttir

Skáldskapurinn opnar víddir

Fyrir tæpum tíu árum rataði fyrsta skáldsaga hennar inn á þýskan bókamarkað fyrir slysni. Nú á hún dyggan aðdáendahóp þar í landi og hafa bækur hennar selst þar í tugum þúsundum eintaka. Viðtal við Kristínu Marju Baldursdóttur.

Kristín Marja (viðtal)

Viðtal: Davíð K. Gestsson. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

„Jafnrétti var hugsjón mín þegar ég hóf ritun skáldsagna,“ segir rithöfundurinn Kristín Marja Baldursdóttir. Skáldverk hennar eiga það sammerkt að í þeim er brugðið ljósi á oft afskiptan hluta Íslands- og mannkynssögunnar; störf og líf kvenna, átökin milli drauma og tilætlaðra hlutverka.

Bækur hennar um ytri og innri veruleika íslenskra kvenna hafa vissulega opnað nýjar víddir í íslenskum bókmenntum og hafa þær öðlast miklar vinsældir hér heima og erlendis. Í Þýskalandi á Kristín dyggan hóp aðdáenda, þar sem verk hennar hafa selst í tugum þúsundum eintaka, en fyrsta bók hennar, Mávahlátur, kom út á þýsku fyrir slysni að sögn Kristínar. Til marks um áhuga Þjóðverja á skáldverkum hennar má nefna að þýðingarrétturinn að stórvirkinu Karitas án titils var keyptur áður en bókin kom út á íslensku, sem er afar fátítt. Allar skáldsögur Kristínar hafa nú verið þýddar á þýsku en bækur hennar hafa auk þess komið út  í Svíþjóð, Danmörku, Hollandi og Frakklandi.

Ég kemst lítið út af kontórnum

Allar skáldsögur þínar hafa verið þýddar yfir á erlend mál og hafa þær náð vinsældum víða um Evrópu, einkum í Þýskalandi. Hvernig tilfinning er það fyrir rithöfund sem í upphafi skrifar fyrir þröngan hóp eyjarskeggja á hjara veraldar, en sér svo lesendahópinn margfaldast eftir þýðingu verkanna yfir á önnur tungumál?

„Það er mjög góð tilfinning, en það fylgir því mikil vinna að vera lesin, meiri en ég gerði ráð fyrir. Maður kemst voða lítið út af kontórnum. Góðum bréfum verður að svara. Eitt sinn dreymdi mig um ráðskonu, nú dreymir mig um ritara. En það getur tekið höfund langan  tíma að hasla sér völl á erlendri grundu, ég hef verið að harka þetta  síðustu tólf árin. Það vildi enginn bókina mína í fyrstu. En fyrir slysni nánast komst hún í hendur þýskrar blaðakonu sem mælti með henni og þar með komst aðeins hreyfing á hlutina.“

Ein bóka þinna hefur að auki verið „þýdd“ yfir á aðra frásagnarmiðla. Mávahlátur var sett upp sem leikrit og síðar kvikmynduð. Hvernig upplifðirðu þessa yfirfærslu sögunnar?

„Ég var náttúrlega á nálum meðan á því stóð, en á eftir fannst mér þetta hafa verið óskaplega skemmtilegur tími. Ég kynntist nýjum og forvitnilegum heimi þar sem leikarar og kvikmyndagerðamenn eru. Það var líka áhugavert að sjá hvernig eigin myndir urðu að myndum sem aðrir fengu séð. Mér fannst þau fara vel með söguna mína, Þórhildur Þorleifsdóttir sem setti hana á svið, og Ágúst Guðmundsson sem kvikmyndaði hana. Ég er þeim ævinlega þakklát fyrir. Það er mikilvægt að eiga góðar minningar.“

Það þarf að greina meinið

Myndlist er nokkuð áberandi í bókunum þínum.

„Áhuginn á myndlist vaknaði þegar ég var barn og sat hjá föður mínum sem málaði, og fræddi mig í leiðinni um myndlist. Hann tók mig með á listsýningar, í gamla listamannaskálann líka, meðal annars, ræddi við mig um liti og tækni eins og ég væri útlærð í faginu. Síðar, þegar ég fór að fara til útlanda hafði ég ekki áhuga á neinu nema listasöfnunum. Ég held ég hafi heimsótt yfir áttatíu listasöfn í Evrópu síðustu þrjátíu árin. Ég hlýt að hafa verið mjög leiðinlegur ferðafélagi, ég sé það núna. En ástæðan fyrir þessari fíkn minni var kannski sú, að ég fékk oft góðar hugmyndir þegar ég horfði á myndlist. Þótt myndflöturinn væri bara svartur. Eftir að ég lauk við bækurnar um listakonuna [Karitas] hefur aðeins dregið úr þessari áráttu, eins og ég hafi fengið útrás fyrir ákveðnar tilfinningar. Hins vegar held ég enn fast við konserta og óperur, fæ engar hugmyndir á tónleikum, þannig lagað séð, en tónlistin opnar ákveðnar víddir. Sem og góður skáldskapur gerir. Enda lít ég á bókmenntir sem listgrein.“

Staða kvenna er að auki rauður þráður í höfundarverki þínu. Nefna má í því samhengi „stóru“ bækurnar Óreiðu á striga og Karitas án titils. Í þessum sögum er varpað ljósi á hlutskipti kvenna í upphafi 20. aldar. Ertu meðvituð um að verk þín þjóni sem innlegg í nútímakvenréttindabaráttu þegar þú skrifar?

„Jafnrétti var hugsjón mín þegar ég hóf ritun skáldsagna. Ég reyndi þó að forðast prédikanir, færa heldur boðskapinn í listrænan búning, en er eftir á að hyggja efins um að viðleitni mín til að frelsa heiminn hafi einhvern árangur borið. Ég held að konur hafi haft áhuga á öðru en jafnrétti á tíunda áratugnum þegar ég skrifaði fyrstu bækurnar, útlitið var meira aðkallandi. Það var einhver undarleg ósjálfstæðisbylgja í gangi. Kannski einmitt þess vegna sem ég fann mig knúna til að skrifa bækurnar um listakonuna Karitas, sem þurfti nú að hafa svolítið fyrir lífinu.  Samstaða kvenna hefur oft verið mér umhugsunarefni. Á yfirborðinu lítur það út sem samstaða sé mikil, en þegar á reynir er hún það ekki, nema í fáum tilvikum.  Sem verður kannski skiljanlegt þegar orð áðurnefndrar listakonu eru höfð í huga, en hún sagði: „Í feðraveldinu hampa karlar hver öðrum og það versta er að konurnar hampa þeim líka, því ef þær færu nú að hampa hver annarri hver ætti þá að sjá um þvotta þjóðarinnar?“ En ef verk mín hafa verið innlegg í jafnréttisbaráttu, fagna ég því. Í mínum huga er jafnrétti það sama og mannréttindi.“

Síðasta bók þín, Karlsvagninn, hefur verið túlkuð sem sálgreining á íslensku þjóðinni í kjölfar efnahagshrunsins. Hvaða hlutverk gegnir skáldskapur og önnur listsköpun eftir hrunið að þínu mati?

„Hrunið markaði tímamót í sögu þjóðarinnar, það afhjúpaði ekki einungis fjársvik og siðspillingu, heldur einnig veikleika íslenska samfélagsins. Sem vel má líkja við langvinnan sjúkdóm.  Það þarf að greina meinið og meðhöndla til að þjóðin finni einhvern tilgang með lífinu í þessu landi. Tala þennan fjanda út í horn.  Skáldskapurinn gegnir stóru hlutverki í því sambandi, fáir eru betur til þess fallnir að greina, túlka og skapa en rithöfundar. Ég efast ekki um að við eigum eftir að sjá verk um andlegt ástand þjóðarinnar á næstu árum, og sennilega í öllum tónum, myndum og litum.“