Áslaug Jónsdóttir

Skrímsli við rétt hitastig

„Hver myndabók þarf að hafa rétt hitastig, réttu stemmninguna,“ segir Áslaug Jónsdóttir, höfundur Skrímslabókanna vinsælu. Ný bók komin á prent og skrímslin við það að hoppa upp á leiksvið.

Áslaug Jónsdóttir

Ljósmynd og viðtal: Þorsteinn J.

„Hver myndabók þarf að hafa rétt hitastig, réttu stemmninguna,“ segir Áslaug Jónsdóttir rithöfundur og myndlistarmaður.

Á borðstofuborðinu heima hjá henni vestur við Melhaga, liggja þrjár útgáfur af sömu bókinni. Þetta er nýjasta skrímslabókin, á íslensku, sænsku og færeysku, ilmandi beint úr prentsmiðjunni.

„Flott, bara komnar strax þýðingar af nýju bókinni,“ segi ég. „Nei, þetta eru ekki þýðingar, þær koma út á sama tíma á þremur tungumálum. Og þótt þetta sé sama sagan, þá eru textarnir í bókunum ekki nákvæmlega eins.“

Gott KvöldNýjasta skrímslabókin, Skrímsli á toppnum, er sú sjötta í röðinni eftir Áslaugu og hina höfundana tvo, Kalle Guettler frá Svíþjóð og Rakel Helmisdal frá Færeyjum. Sú fyrsta kom út árið 2004. Áslaug hefur svo sjálf skrifað og teiknað sínar eigin myndabækur síðustu tíu ár. Sagan Gott kvöld varð að vinsælu barnaleikriti í Þjóðleikhúsinu 2005. Nú er hún að skrifa nýtt leikrit uppúr þessum sex skrímslasögum.

„Það er erfitt að segja hvernig það gengur,“ svarar Áslaug dræmt, þegar ég spyr hana útí leikritið. „Skrímslin og það sem gerist í þeirra lífi er góður efniviður. Mér finnst ég gjörþekkja þessar persónur. En ég er enn að læra á leikhúsið. Það er erfitt að skrifa án þess að sjá myndina alveg fyrir sér, sjá bókstaflega hvernig þetta kemur út á sviði. Í huganum eru skrímslin núna að skoppa inn og út af leiksviði, hvort sem þau komast þangað á endanum eða ekki.“

Það er líka þannig að það er best að tala hóflega um það sem maður á eftir að skrifa. En þessi samvinna ykkar við að skrifa Skrímslabækurnar er forvitnileg. Það eru hvorki meira né minna en þrír höfundar að þessum bókum.

„Já, þetta samstarf við að skrifa gengur furðu vel myndi ég segja. Við skiptumst á skoðunum og ræðum hlutina, erum ekki alltaf sammála, en finnum leið útúr þeim aðstæðum. Alveg eins og stóra og litla skrímslið í sögunum. Þær eru um vináttu og það sem við tökumst á við í lífinu, hvort sem við erum börn eða fullorðin eiginlega. Við skrifum þessar bækur líka á þremur tungmálum og textarnir í þeim eru ekki nákvæmlega eins. Hver og einn fær að hafa sínar sérviskulegu útfærslur á sögunni ef hann vill.“

En þú færð að ráða teikningunum í bókunum, það er á hreinu?

„Ég geri allar myndirnar já. Þau hafa auðvitað sínar skoðanir á því sem ég geri, en myndræna hliðin er mitt verk. Hún er gjarnan byggð á okkar hugmyndum, grunnsagan í bókunum er á hreinu, og ég vinn útfrá þeim frumhugmyndum sem við höfum. Strax eftir fyrstu frumdrög að sögu koma skissurnar inn í myndina og þá getur framvindan tekið ýmsum breytingum. Þannig er það í öllu vinnuferlinu: myndirnar verka á textann og öfugt.“

Skoða lífið gegnum myndir

Hér er brot úr texta sem þú skrifaðir í pistli fyrir fjórum árum, svolítið manifesto/stefnuskrá, er það ekki, fyrir það sem þú gerir:

Ég skrifa texta af því ég teikna. Ég teikna af sömu ástæðu og aðrir skrifa. Það sækja að mér sögur og ég skoða lífið í gegnum myndir og orð...“

Það hljóta að vera forréttindi að gera þetta alltsaman í myndabókum; skrifa, teikna, og brjóta um bókina sjálfa. Já og svo fá að vinna textann með tveimur öðrum höfundum?

„Já, þetta er kjörin staða,“ svarar Áslaug. Það er oft litið á myndabækur sem bækur með of litlum texta. Ég botna ekkert í því. Ef einhver vill halda því fram að myndirnar séu of stórar, of áberandi, þær skyggi á textann eða séu til óþurftar, þá svara ég því gjarna til að textanum sé kannski frekar ofaukið. Auðvitað er til mikið af vondum bókum þar sem myndirnar eru klúður eða öfugt: textinn hörmulegur. En það er ekkert að forminu. Mér finnst gaman að fallegum myndabókum, sem gefa frá sér spennandi andrúmsloft og stemningu. Hver myndabók er heimur út af fyrir sig með sínu sérstaka myndmáli. Það að lesa saman myndir og orð gefur lesendanum sterkari upplifun en ef texti og mynd stæðu án hins. Ef vel hefur tekist til á annað borð.“ 

Skrimsli

Svarti liturinn er sterkur

Það sem einkennir verk Áslaugar er fyrst og fremst magnað andrúmsloft, sem hún skapar úr litlum, teikningum og svo orðum. Bækurnar hennar fara ekki á milli mála, draga mann til sín, eru næstum því dáleiðandi. Jafnvel þótt drengurinn í sögunni Gott kvöld sé aleinn heima með bangsann sinn, er allt í kringum hann meira spennandi en skuggalegt.

„Ég er ekki hrædd við svarta litinn,“ segir Áslaug, „Ég veit um fólk sem tekur upp bækurnar mínar og flettir þeim og finnst full mikið af svörtum lit og dimmu í þeim. Börn eru klár sjáðu til og kunna að hrífast án þess að vera með fyrirfram mótaðar hugmyndir. Svarti liturinn er grafískt sterkur og hjálpar mér að tala skýrt með myndunum. Í myndabókunum er ég ekki að teikna bakgrunn eða spila undirleik við texta. Myndirnar og textinn eiga að syngja saman. Stundum hástöfum!“

Kosturinn við bækurnar þínar er líka sá að þær eru í mörgum lögum; hægt að skoða myndirnar og textann og uppgötva sífellt eitthvað nýtt.

„Já, ég held að góðar myndabækur hafi þennan eiginleika. Kannski allar góðar bækur, en í myndabókunum bætist önnur vídd við, heimur myndanna. Ég las grein um daginn í New York Times um að myndabækur væru að deyja út. Ég hef aldrei lesið aðra eins vitleysu. Enda er fréttin della þegar betur er að gáð, einhver gróf upp þá fráleitu hugmynd að börn verði ekki læs á texta ef þau horfa á myndir. Menn þóttust merkja skjálfta í útgefendum en bókasöfnin hafa ekki undan að lána út myndabækur! Myndabækur og myndasögur lifa áfram góðu lífi. Þetta er sérstök listgrein sem lifir af allt Disney-kúlutyggjódótið sem hellist yfir okkur.“

Þetta er líka algjör klassík, alltaf verið að spá einhverju listformi dauða. Þegar raunin er sú að ný tækni eða form, bætist bara við það sem fyrir er.

„Nákvæmlega. Margboðaður dauði bókarinnar hefur reynst stórlega ýktur. Ljóðið var búið að jarða. Allt saman bull. Þar að auki er myndasagan, sögur í myndum, eitt elsta listformið, kannski ásamt leiklistinni. Það hefur verið stuð í hellinum þegar einn málaði myndir af ævintýralegum veiðum, annar söng og dansaði og þriðji sagði frá við eldinn. Ég tel mig heppna að mega fást við svona ævaforna listgrein. En þó er ég stundum spurð að því, hvernær ég ætli að fara að skrifa fyrir fullorðna.“

Einsog það sé að færast upp um deild áttu við? Fara að skrifa af alvöru? Hætta þessu barnastússi?

„Já, en ég sé þetta ekki svona. Barnabækur sér og svo bækur fyrir fullorðna sér. Þetta er einn heimur og fullorðnir verða að geta hrifst af bókunum alveg eins og börn. Það er kannski stærsti galdurinn.“