Gerður Kristný

„Það hefur alltaf verið ákaflega ströng landamæravarsla í ljóðheimi mínum. Óttinn hreiðraði hins vegar snemma um sig í innstu kimum hans og heldur þar enn til,“ segir Gerður Kristný í viðtali við Sagenhaftes Island þar sem hún ræðir meðal annars um um ferð sína til Afríku og nýjustu bókina.

Gerður KristnýGerður Kristný er fjölbrögðóttur rithöfundur. Á þeim sextán árum sem liðið hafa frá útgáfu fyrstu ljóðabókar hennar hafa komið út átján ritverk úr öllum mögulegum áttum; ljóð, skáldsögur, smásögur, barnabækur, ævisaga og ferðabók.

Árið sem senn er liðið hefur verið gjöfult fyrir hana. Í upphafi þess hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör, henni voru að auki veitt Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar og fyrr í þessum mánuði vann bók hennar Garðurinn Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin.

 Í haust kom svo út ný ljóðabók frá henni. Hún ber titilinn Blóðhófnir og er byggð á fornu Eddukvæði. Óhætt er að segja að móttökurnar hafi verið blíðar. Gagnrýnandinn Úlfhildur Dagsdóttir vildi hafa sem fæst orð gæði bókarinnar: „Það er best að koma því frá strax:  bók Gerðar Kristnýjar um nöfnu hennar jötnameyna sem Skírnir þvingar til fylgilags við frjósemisguðinn Frey er einfaldlega snilld [...] Í raun ekkert meira um það að segja og hægt að hætta hér.“ Og hið mikilsvirta skáld Þorsteinn frá Hamri sagði hana vera „þungaviktarbók“.

Ljóðheimur Gerðar getur átt von á óvæntum gesti eftir nýlegt ferðalag hennar til Afríku. Við höfðum fyrst samband við hana þar sem hún var stödd í Úganda, á vegum Barnaheilla – Save the Children. Hún sagði okkur frá ferð sinni þangað:

Ég fór með Helga Ágústssyni, formanni Barnaheilla, og Petrínu Ágeirsdóttur framkvæmdastjóra til Norður-Úganda til að sjá skólastarfið þar. Á þessu svæði hafa Barnaheill m.a. styrkt byggingu skólastofa, menntun kennara og hjálpað til við að koma upp salernisaðstöðu. Með í för var einnig Jakob Halldórsson kvikmyndagerðarmaður því til stendur að gera stuttmynd um ferðina. Ég var fengin með til að blogga um ferðina á Eyjunni þar sem enn má lesa pistlana mína. Það var magnað að kynnast Úganda á þennan hátt, spjalla við fólkið og lesa upp fyrir börnin. Í norðurhluta landsins geisaði styrjöld í tvo áratugi sem lauk fyrir aðeins tveimur árum. Uppreisnarher Josephs Kony réði þá lögum og lofum og þegar hermönnunum fór að fækka tók herinn að ræna börnum á aldrinum 8-14 ára. Drengirnir voru neyddir til að gerast hermenn en stúlkurnar voru notaðar sem kynlífsþrælar. Mörg þeirra hafa dáið en sem betur fer tókst öðrum að flýja. Nú er her Konys talinn vera kominn til Súdan og hefur enn börn í haldi.

Gerður í AfríkuRúm fyrir allan tilfinningaskalann

Kuldinn er svo mikill í ljóðum þínum. „Kuldinn býr mér / hýði úr kvíða“ segir í einu ljóði þínu og í þeirri nýjustu, Blóðhófnir, er landslagið „steypt í stálkaldan ís“. Hvernig fór afrískt loftslag með svo hélað skáld?

Afríska loftslagið fór ákaflega vel í mig. Hins vegar bý ég við öllu kaldara loftslag á Íslandi og hef aldrei mætt hér bavíana á göngu eins og henti í einni ferðinni um uppsveitir Úganda. Mér er því eðlilegra að lýsa kulda. Ef api skyldi hins vegar slæðast inn í ljóðin mín á næstunni verður það alveg örugglega þessi bavíani.

Í nýjustu ljóðabókinni vinnurðu með fornbókmenntirnar; „Skírnismál“ Eddukvæða. Þú hefur áður tekist á við þennan hluta Eddukvæða, samanber ljóðið „Til Skírnis“ í fyrstu bókinni þinni Ísfrétt sem kom út fyrir 16 árum. Gekkstu með efniviðinn að Blóðhófni allan þennan tíma?

Ég heillaðist af norrænni goðafræði þegar ég var barn. Mér fannst þetta svo skemmtilegar sögur. Frásögnin af nöfnu minni Gerði Gymisdóttur varð snemma ein af mínum uppáhalds og ég gaf henni mál strax í fyrstu bókinni minni, ljóðabókinni Ísfrétt (1994). Þegar ég skilaði inni handritinu af fyrstu skáldsögunni minni Regnboga í póstinum (1996) ákvað ég að fá mér tattú til að halda upp á það. Fyrir valinu var sverð Freys á hægri fótinn og fékk ég vin minn, Helga tattú heitinn, til að annast verkið. Síðan hef ég gengið vopnuð. Síðar átti ég eftir að yrkja um Helga tattú og birta í Höggstað.

blóðhófnirÍ bókinni snýrðu á hefðbundna túlkun Skírnismála sem ástarljóð og undirstrikar valdbeitinguna gegn nöfnu þinni í upprunalega kvæðinu, enda hafa kvenréttindi ávallt verið ofarlega á baugi í skrifum þínum.

Kvenréttindi hefur oft borið á góma í pistlunum sem ég hef skrifað í Fréttablaðið undanfarin fimm ár en ekki í skáldskapnum sem hér er til umræðu. Fræðimenn hafa sinnt Skírnismálum mjög vel á síðustu árum, enda er ljóðið mjög heillandi og opið til túlkunar. Mér finnst valdbeitingin mjög greinileg í Skírnismálum. Gerður Gymisdóttir á engra kosta völ, frekar en stúlkurnar sem ég hitti á dögunum í Úganda. Rétt eins og jötunmærin var þeim rænt heimanað frá sér og fluttar burt til að þjóna körlum. Skírnir hótar Gerði öllu illu og alvarlegust finnst mér hótunin um að hún verði alltaf ein og eigi aðeins eftir að horfa heljar til. Það er skiljanlegt að hún skuli þá gefa eftir. Þegar ég var krakki las ég að eftir að Gerður kæmi til Goðheima væri hún talin ein af ásynjum. Mér fannst það hljóta að vera mikil upphefð fyrir hana en þegar rýnt er í kvæðið sést vel að hana langar ekki að yfirgefa heimkynni sín og gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Síðan enda Skírnismál þegar Skírnir tilkynnir Frey að Gerður sé á leiðinni. Mig langaði til að halda áfram með ljóðið og segja frá því hvað gerist eftir að þau Freyr og Gerður hittast. Og það geri ég í Blóðhófni.

Svo er það óhugnaðurinn. Hann er svo sterkur þáttur í ljóðum þínum. Heillar óttinn þig?

Það hefur alltaf verið ákaflega ströng landamæravarsla í ljóðheimi mínum. Óttinn hreiðraði hins vegar snemma um sig í innstu kimum hans og heldur þar enn til. Ég fer ekki að vísa honum úr landi úr þessu, enda verður að vera rúm fyrir  allan tilfinningaskalann.

Svig á milli bókmenntagreina

Nú hefurðu einnig notið velgengni undanfarinn áratug sem höfundur barnabóka. Þar hljóta forsendurnar að vera annars eðlis. Hvað hefurðu í huga þegar þú semur fyrir börn og unglinga?

Þegar ég skrifa fyrir börn og unglinga finnst mér mikilvægt að ég skemmti mér sjálf við skrifin. Ég hef alltaf verið áhugasöm um gott barnaefni og uppáhaldsbækurnar mínar teljast til barnabóka, s.s. bækur Astridar Lindgren og Tove Jansson. Ég hóf ferilinn með því að skrifa fullorðinsbækur en átti mér þann draum að geta skrifað líka fyrir börn. Ég er ánægð með að ég skuli hafa komist upp með að gera hvoru tveggja en ekki þurft að velja á milli. Það hentar mér vel að svissa á milli.

18 verk á 16 árum. Er meira á leiðinni?

Heldur betur! Í lok janúar verður söngleikurinn Ballið á Bessastöðum frumsýndur eftir mig á stóra sviði Þjóðleikhússins en hann er saminn upp úr bókunum Ballinu á Bessastöðum (2007) og Prinsessunni á Bessastöðum (2009). Síðan bíða að minnsta kosti tvær skáldsögur eftir að ég ljúki við þær. Ég á líka orðið talsvert af óbirtum ljóðum. Nú í desember held ég á ljóðahátíð í Bangladesh og vafalaust verður eitthvað af því sem þar ber fyrir augu mér að ljóði. Ég hef með mér skrifblokk, krota hjá mér hugmyndir og sé eftir að heim er komið hvort eitthvað vit sé í þessu. Þetta hefur allt sinn gang.