Gyrðir Elíasson

„Í nútímanum mega höfundar ekki gleyma „innra lífi“ einstaklingsins, sem er enn í fullu gildi þrátt fyrir allt sem sækir að ytra. Það líf má ekki vanmeta,“ segir Gyrðir Elíasson, einn virtasti rithöfundur þjóðarinnar. Þrjár bækur eftir hann eru væntanlegar á þýsku á árinu.

Gyrðir Elíasson

Viðtal: Davíð K. Gestsson. Ljósmynd: Einar Falur Ingólfsson     


„Í nútímanum mega höfundar ekki gleyma „innra lífi“ einstaklingsins, sem er enn í fullu gildi þrátt fyrir allt sem sækir að ytra. Það líf má ekki vanmeta,“ segir Gyrðir Elíasson, einn virtasti rithöfundur þjóðarinnar, í viðtali við Sagenhaftes Island.

Knöpp verk hans, sem dansa á línunni milli hins röklega og fantastíska, hafa heillað lesendur jafnt sem gagnrýnendur þau tuttugu og átta ár sem liðið hafa frá útgáfu fyrstu ljóðabókar hans. Gyrðir verður áberandi á hinu þýska málsvæði á árinu, en heil þrjú verk eftir hann eru væntanleg í þýskum þýðingum á komandi mánuðum.

Fyrsta skáldsaga hans, Gangandi íkorni, kemur út á vegum svissneska forlagsins Walde + Graf í febrúar næstkomandi, en sama forlag mun að auki gefa út Sandárbókina síðar á þessu ári. Þýsk þýðing ljóðabókarinnar Nokkur almenn orð um kulnun sólar, sem bókaforlagið Kleinheinrich gefur út, mun svo líta dagsins ljós á vormánuðum ársins 2011.

Umhverfissinni í tvöföldum skilningi

Útsendari Sagenhaftes Island  spjallaði við Gyrði á dögunum um tilurð verka hans, yfir kaffibolla á heimili hans í Grafarvoginum. Tengsl manns og umhverfis hafa ávallt verið áberandi í verkum hans, sem leiðir okkur að fyrstu spurningunni: Hvernig er að skrifa hér í Grafarvoginum?

„Það venst nú,“ svarar Gyrðir og hlær. „Ég ólst upp utan við borgina og hef stundum átt erfitt með að finna tengslin við að skrifa hér, en smátt og smátt þá gerist það nú einhvern veginn. Þetta er, jú, bara ágætt held ég. Að vísu hitti ég oft fólk sem spyr mig hvernig ég geti búið og skrifað í þessu úthverfi; þetta þykir víst ekki mjög skáldlegur staður að vera á í augum þeirra  sem búa í grónu hverfunum. En það er nú svo merkilegt með það að hér búa margir höfundar samt sem áður. Fyrst þegar ég flutti hingað var stofnaður hópur rithöfunda hérna, en flest rákumst við heldur illa í flokki, einsog rithöfundar gera almennt til lengdar, og kannski má segja um þennan hóp líkt og það sem Steinn Steinarr sagði um Baudelaire: „Nú er hann löngu dauður, sem betur fer.“

Það ríkir svo mikil einsemd og einangrun í ljóðum þínum og sögum. Maður á erfitt með að sjá það fyrir sér að hægt sé að skrifa þær í borgarþys. Skiptir umhverfið máli við skrifin?

„Já, það hefur nú gert það. Yfirleitt er kveikjan eða frumhugmyndin komin til annars staðar frá, utan borgarmarka. Grunnhugmynd að sögu eða ljóði getur orðið til að sumarlagi í náttúrunni eða einhvers staðar fjarri, þó maður svo fullvinni hlutina heima hjá sér í borginni. Það hefur einhvern veginn alltaf verið þannig með mig að umhverfið hefur skipt mig máli á þennan hátt. Ég sæki oftast bein áhrif út fyrir þéttbýlið. Þó að vísu það gerist að ég skrifi um borgarlandslagið, þá er það annars eðlis, önnur nálgun. En vissulega er það svo að þó ég hafi oft verið tengdur við landsbyggðina í því sem skrifað er um mig, þá hef ég nú samt sem áður búið í höfuðborginni uppundir hálfa ævina, það mótar mann auðvitað á einhvern hátt. Hvort sem það telst nú vera jákvætt eða neikvætt, verð ég að segja að umhverfið skiptir mig máli, já. Ég man að einn gagnrýnandi orðaði það þannig að ég væri „mjög háður umhverfi mínu“. Líklega hefur hann haft hárrétt fyrir sér þarna, þó allur gangur sé nú á því hjá krítíkerum að jafnaði. Kannski mætti segja að ég sé „umhverfissinni“ í tvöföldum skilningi.

Myrkur tónn hefur verið áberandi í nýjustu bókum þínum,  eins og titillinn á síðustu ljóðabókinn bendir til. En þrátt fyrir drungann sem einkennir stundum verk þín þá hlaust þú á sínum tíma Bjartsýnisverðlaun Bröstes. Hvernig kom það eiginlega til?

„Ég var nú mjög undrandi þegar ég fékk þau! Ég hafði ekki talið mig vera líklegan kandídat fyrir þau fram að því. Ég geri ráð fyrir að hugmyndin á bak við þessi bjartsýnisverðlaun sé ekki endilega sú að þeir sem vinni til þeirra séu svo bjartsýnir heldur að þeir sem veita þau séu sæmilega bjartsýnir á að menn standi undir þessum verðlaunum, og haldi sínu striki. En sjálfur hef ég ekki talið mig til sérstakra bjartsýnismanna. Hvorki fyrr eða eftir, það væri vafasamt ef ég ætlaði að stimpla mig inn í þá deild. Svo má reyndar deila um í hverju raunveruleg bjartsýni felst, og hún felst að minnsta kosti ekki í því að stinga hausnum í sandinn, einsog stundum hefur nú verið gert hérna finnst mér, og ekki síst þegar „hressa“ samfélagið var upp á sitt versta. Annars er varla hægt að nefna orðið bjartsýni nú um stundir án þess að fara í grennd við pólitík. Það er umræðuefni sem HC  Andersen sagði réttilega að skáld ættu að sniðganga sem allra mest.“

En það er óneitanlega húmor í verkum þínum.

„Ég held að það hafi alltaf verið mér eiginlegt. Þetta blandast saman náttúrulega, eins og í lífinu sjálfu. Gaman og alvara. Það er eitthvað sem komið hefur sjálfkrafa, held ég. Húmor dregur ekkert niður alvöru í verki, nema síður sé, hann getur jafnvel aukið á hana eða vakið enn meiri athygli á henni. Það er eins og færeyski rithöfundurinn William Heinesen sagði: „Allur sannur húmor verður að hafa tragíska sökku.“ Mér finnst þetta ekki vera andstæður í texta, heldur vinnur þetta saman. Margir af þeim höfundum sem ég held upp á, Knut Hamsun eða Richard Brautigan og fleiri, þeir blanda þessu saman á þann hátt sem höfðar til mín. Hitt er svo annað mál að kímni er alltaf skilgreiningaratriði einsog annað, og ég geri mér vel grein fyrir því að margir sjá engan húmor í bókum mínum, heldur bara einhvern drungalegan og niðurdrepandi texta. Við því er ekkert að gera.“

Það getur alltaf gerst að bók taki af manni völdin

Fyrsta skáldsaga þín, Gangandi Íkorni, er nú væntanleg á þýsku. Þú hefur sjálfur verið mikilvirkur þýðandi. Hefur það áhrif á þín eigin skrif?

Gangandi Íkorni (þýsk)„Já, það hefur gert það, á margan hátt. Í fyrsta lagi hef ég valið að þýða höfunda sem hafa verið mér hugfólgnir og hafa jafnvel haft áhrif á mig. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að sökkva sér í verk annarra höfunda, með þessum hætti hafi einhvers konar áhrif á mann. Óbeint hefur það áhrif á stíl manns hvernig maður tekst á við erlent tungumál og annan huga. Þetta eru býsna margþætt og flókin áhrif. Þetta er mjög góður skóli fyrir höfunda og er ekki tímasóun eins og ég tel að ýmsir aðrir höfundar haldi. Það getur verið mjög gott að hvíla sig á sjálfum sér og maður lærir eitthvað annað dýrmætt um leið. En af því þú nefnir þýsku útgáfuna af Gangandi íkorna, þá er það gleðileg útgáfa fyrir mig, enginn hefur áður sýnt áhuga á því kveri fyrir utan landsteinana. Útgáfan er svissnesk, og telst smá í sniðum. Sumir telja lítil forlög ekki merkileg, en ég held að þau séu mikilvæg hvar sem er, jafnt hér heima og annars staðar. Þau gefa út öðruvísi bækur en stóru forlögin, hugsa minna um vinsældir og sölu, en gera hlutina oft mjög vel, ekki síst hvað varðar útlit og gerð bókanna, sem skiptir enn máli, hvað sem menn segja. Þessi útgáfa á Íkornanum verður skemmtilega myndskreytt, sem á vel við, því vissulega var bókin á sínum tíma innblásin af barnabókum að hluta, þó sjálf teljist hún ekki til þeirra.“

Gyrðir segist vera með nokkur handrit í pípunum, spurður að því hvort það sé ný bók væntanleg.

„Það getur alltaf gerst að bók taki hreinlega af manni völdin; að maður hnjóti hreinlega um bók. Allt í einu verður eitthvað á vegi manns og þá tekur maður það upp. Sandárbókin var dæmi um slíkt. Ég kann ekki að plana bækur en ég nota alltaf minnisbækur, stundum líða mörg ár, en það kemur oft að því að ég noti eitthvað sem liggur þar; að minnispunktur falli allt í einu saman að einhverju sem maður er að hugsa um nokkrum árum seinna. Það eru mörg hundruð síður af laustengdum brotum sem liggja bak við Sandárbókina , þessa stuttu sögu, þó það skipti kannski ekki máli. En það varð ekki mikið afgangs af beinum texta, ekki margir kaflar sem duttu út, einn eða tveir kannski. „Ég er nýtinn í listinni“, eins og málarinn Gunnlaugur Scheving sagði, og held flestu til haga.

En hvað væntanlegar bækur varðar, þá  er ég að vinna að ljóðaþýðingahandriti sem kemur út í vor, og svo er ég með handrit „á óljósu stigi“ að smásögum, ljóðum, og einhverskonar smáprósum kannski. En það er allavega vafamál eins og er hvort eitthvað af því kemur út með haustinu.“

Þú hefur nú ekki verið þekktur fyrir að láta frá þér doðranta.

„Nei, ég las Hótelsumar upp í útvarpi fyrir skömmu og fannst þá að hún hefði nú kannski mátt vera aðeins lengri! Einhver kallaði mig Anorexíuhöfund Íslands, það er kannski nærri lagi...Ég er yfirleitt hrifinn af þessu nóvelluformi, oft finnst mér að það megi trimma niður bækur, en stundum getur það líka gengið of langt. Bæði hjá sjálfum mér og öðrum. Ég get ekki með nokkrum rétti talið mig vera skáldsagnahöfund, þó ég hafi skrifað fáeinar nóvellur.  Ég hef hvorki tækni né „úthald“ til að skrifa stórar skáldsögur, og læt það hæfari mönnum eftir.

Eru skáldsögur þínar þá nærri ljóðforminu?

„Já, ég lít þannig á það. Ég hef unnið þær þannig og eflaust sést það á þeim, hvort sem það er kostur eða löstur. Ég er ekkert pirraður á þeim sem vilja ekki viðurkenna að þetta séu skáldsögur, það er eðlilegt, því þær lúta ekki öllum þeim lögmálum sem skáldsögur venjulega gera. Þær falla sæmilega undir það sem við höfum kallað nóvellur, eða stuttsögur eins og Guðbergur Bergsson vill nefna þær núna og er ágætt heiti, en um leið held ég að þær hafi líka mikið af eigindum úr ljóðagerðinni. 

Ég vinn frekar á grunni ljóðskálds, bæði af því ég hreinlega get ekki annað, og líka af því ég hef einfaldlega meiri áhuga á því sviði, og þeim sviðum sem liggja þar í grennd. Smásöguskrifin koma þar inn í má segja. Kannski get ég ekki einusinni talist vera smásagnahöfundur heldur, ég hef alltaf talið sjálfur að ég sé meira að vinna í því formi sem í enskumælandi löndum hefur verið kallað „skissur“ fremur en klassískar smásögur. Ég ber mikla virðingu fyrir smásagnahöfundum einsog Alice Munro til dæmis, en langar samt ekki til að gera það sem hægt væri að kalla niðursoðnar skáldsögur. Svo enginn misskilji mig, þá er ég annars ekki að bera mig saman við heimsnúmer á nokkurn einasta hátt. Fyrst og síðast held ég líka að höfundar verði að skrifa út frá sjálfum sér, bera sig ekki of mikið saman við aðra, og leiða samkeppni sem mest hjá sér, beina metnaðinum að stórum hluta inn á við, þannig að þeir keppi helst við sjálfa sig. Listir eru ekki íþróttakeppni, og það er fánýtt að reyna að skrifa aðra undir borðið, og reyndar andstætt eðli listarinnar mundi ég halda. En vissulega búum við íslensku höfundarnir við dálítið einkennilega stöðu, vegna fámennis þjóðarinnar og legu landsins og allt það. Þetta gerir okkur oft nokkuð erfitt fyrir held ég að meta okkur í sanngjörnu samhengi við aðra höfunda, annars staðar á hnettinum. Oft grunar mig að við ýkjum þær takmarkanir sem þetta býður upp á, og hugum ekki nægilega að þeim kostum sem mögulega fylgja. William Heinesen hafði ekki miklar áhyggjur af bókmenntalegri einangrun Færeyja og benti á að miðpunktar jarðkúlunnar væru að eigin vali. Annar Færeyingur, fjölkúnstnerinn Tóroddur Poulsen, sagði einhverntíma að hann nennti ekki að skrifa á ensku eða öðru slíku máli sem allir væru að skrifa, það væri ekkert fútt í því! Þetta er ekki þjóðremba hjá Tóroddi, heldur skemmtilega sérstök sýn á gildi tungumála óháð útbreiðslu.

Hvað er það við þetta styttra frásagnarform sem heillar þig?

Nóvellan er ólík skáldsögunni á ýmsan hátt, ekki bara að lengd heldur er nálgunin einnig frábrugðin. Hún stendur nærri ljóðinu að því leytinu til. Þetta skemmra form, sem stundum nær einhverjum leifturmyndum sem geta setið lengi í huganum, hefur alltaf höfðað meira til mín. Það getur verið vegna þess að ég hef ekkert síður orðið fyrir miklum áhrifum af myndlist en ritlist. Ég ólst upp við myndlist ef svo má segja og ætlaði að verða myndlistarmaður en komst að því að ég hafði ekki hæfileika í þá átt. Ég hef samt hugsanlega yfirfært eitthvað þaðan í skrifin, en samt ekki meðvitað, maður sér það frekar eftir á. Afi minn stundaði trésmíði, mér finnst stundum að það hafi haft  eitthvað að segja fyrir mig líka, og allavega er ljóst að mörgum finnst ég „tálga“ of mikið!

Það er þannig með alla að ýmislegt hefur áhrif. Bókmenntir eru ekki aflokaðar, þó stundum sé reynt að girða þær af. Þær eru alltaf hluti af því umhverfi sem þær spretta úr. Jafnvel þó þær virðist vera lokaðar og innhverfar, þá er það samt sem áður þannig að allt er sprottið úr einhverju. Það að skrifa ekki fyrst og fremst um pólitík eða samfélagsatburði getur verið samfélagsleg afstaða í sjálfu sér, þó það virðist mótsagnakennt. Í nútímanum mega höfundar heldur ekki alveg gleyma „innra lífi“ einstaklingsins, sem er enn í fullu gildi þrátt fyrir allt sem sækir að ytra. Það líf má ekki vanmeta.“