Sigurbjörg Þrastardóttir

Sigurbjörg Þrastardóttir er á meðal þeirra fjölmörgu rithöfunda sem þýddir verða á þýsku á þessu ári. Sögueyjan spjallaði við hana um ljóðlistina og möguleika þess að lauma henni að grunlausum lesendum glæpasagna.

Sigurbjörg ÞrastardóttirViðtal: Davíð K. Gestsson. Ljósmynd: Silvestar Vrljić

Sigurbjörg Þrastardóttir, eitt af fremstu skáldum sinnar kynslóðar á Íslandi, er á meðal þeirra fjölmörgu rithöfunda sem þýddir verða á þýsku á þessu ári. Sigurbjörg vakti fyrst verulega athygli á sér við útgáfu annarrar ljóðabókar sinnar Hnattflug, lýrískrar heimsreisu sem var kosin ljóðabók ársins 2000 af starfsfólki bókaverslana. Fjórða ljóðabók hennar, Blysfarir, vakti mikla aðdáun gagnrýnenda og var bók sem fólk „gat ekki lagt frá sér“ og las „í einum rykk“, frasar sem yfirleitt hanga utan á kápum reyfara – ekki ljóðabóka – eins og skáldið sjálft bendir á í samtali við Sögueyjuna.

Blysfarir er prósaljóð, ástarsaga blönduð með eitri, sem teygir sig yfir tæpar 150 síður. Guðni Elísson, bókmenntafræðingur, sagði um bókina að ekki hafi „birst jafn áhrifamikil lýsing í íslenskum bókmenntum á tortímandi ástarsambandi frá því að Tímaþjófur Steinunnar Sigurðardóttur kom fyrst út á prenti fyrir rúmum tuttugu árum.“ Fyrir Blysfarir hlaut Sigurbjörg tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og er hún væntanleg í þýskri þýðingu síðar í sumar hjá bókaforlaginu Blumenbar.

Við spjölluðum við Sigurbjörgu um ljóðlistina, möguleika þess að lauma henni að grunlausum lesendum glæpasagna, og gerðum heiðarlega tilraun til að ræða um stóru viðfangsefnin tvö: Ástina og dauðann, í sem stystu máli.

Mýturnar mölva sig sjálfar

Bent hefur verið á að ákveðið leiðarþema gangi í gegnum verk þín: ferðalög og viðleitni til að staðsetja sig í heiminum. Hvar ertu stödd núna? Landfræðilega fyrst, og svo í framhaldi af því, sem rithöfundur.

Já, ég var spurð að því af Þjóðverjum um daginn hvar ég ætti heima og þá lýsti ég ferðatöskunni minni, hún er svört með gulri rönd. Ég hef gert þetta ansi lengi, farið um og dvalið í nokkra mánuði á nýjum stað og tók raunar upp á því þegar ég dvaldi á Ítalíu, sitthvorum megin við tvítugt, að segjast vera "letteraturista". Það myndi vera litteratúristi í okkar slangri, kannski sá sem spókar sig og bókar; ég veit samt ekki hvort kemur á undan, skráningarþörfin eða farandeðlið. Um þessar mundir er ég þó stödd til ívið lengri tíma á sama stað, í fallegu húsi í Bæjaralandi og mynstrið hefur breyst þannig að húsakynnin eru stærri og ég get tekið á móti gestum, ég get tekið á móti mínu fólki, sem er gott. Sem höfundur er ég kannski stödd á svipuðum stað, ég er farin að dvelja lengur í einu við skrif og út úr því koma hugsanlega lengri verk – ég er samt alltaf að taka á móti gestum, ljóðum og leikþáttum.

Mér finnst eiginlega glatað / að hafa aldrei þjáðst af þunglyndi / ég meina svona alvöru / svartnætti“ segir í einu ljóði eftir þig. Var það snúið að öðlast viðurkenningu sem ljóðskáld laust við þunglyndi?

Ætli ég hafi ekki helst verið að sparka í gömlu mýtuna, í þessu ljóði, lífseigu mýtuna um að hörmulegustu lífshlaupin geti af sér lífvænlegasta skáldskapinn. Mér finnst yfirleitt ekki koma fólki mikið við hvernig höfundar, tónskáld, myndhöggvarar eða aðrir lifa lífi sínu – það ætti í það minnsta ekki að trufla upplifun verkanna eða viðtökur. Það er líka margsannað að fyrirfram gefnar mannlýsingar dekka ekki allt, ég meina, geta menn ekki orðið atvinnumenn í knattspyrnu beint úr 2. deildar liði Tindastóls, geta menn ekki lent í steininum þótt þeir vinni í banka? Mýturnar mölva sig sjálfar. Hitt er annað mál að sortinn finnur flesta – fólk ber það bara ekki endilega á torg og tekur ekkert endilega við því.

Í framhaldi af því mætti spyrja: Hvað hefur einna helst mótað þið sem skáld?

Tungumálið og lífsreynslan. Það er hægt að gera margt með orðunum einum saman, en það verður marktækara þegar tilfinningarnar eru fastfléttaðar inn. Það er margt sem situr í mér, aðstæður sem ég hef lent í eða skapað, ákveðin líðan, misheyrnir, vonir, mistök, möguleikar, um þetta hef ég svo kannski smíðað sögur með svipaðan kjarna. Annars eru skrautlegir karakterar farnir að inspírera mig æ meira í seinni tíð, sumt fólk er svo merkilegt að það kveikir sögur án þess að vera að gera neitt.

Er lesandinn þér ofarlega í huga þegar þú semur?

Nei, ekki á meðan textinn spinnst. En mögulega færist hann skör ofar þegar maður les yfir, þegar maður vill kanna hvort allt sé eins skiljanlegt, eða óskiljanlegt, og maður vill að það sé. Umberto Eco stundaði það í háskólanum í Bologna í gamla daga – ég vil fá að segja gamla daga, það gerir söguna smartari – að útskýra muninn á il lettore modello og il lettore empirico, sumsé hinum ímyndaða lesanda og alvöru lesandanum. Sá fyrrnefndi er hinn fullkomni viðtakandi, sem skilur allar vísanir, hefur ákveðinn bakgrunn, kann að lesa milli línanna, hann er að vissu leyti tvífari höfundarins. Alvöru lesandinn er hins vegar maður af holdi og blóði úti í bæ sem tekur sér bókina í hönd og heitir kannski Giacomo og er þjónn. Þessi kenning gerir svo sem ekkert annað en að draga fram „kommon sens“. En prófessor Eco lék sér að því í munnlegum prófum að spyrja stressaða nemendur fyrirvaralaust; Hver er il lettore modello? – og þá fipuðust nemendur og reyndu að grafa upp ártal, nafn, eitthvað, til að bjarga sér, eins og hann væri að spyrja um sögufræga persónu.

Logandi þræðir í gegnum lagerinn

Sterk heildarhugsun er áberandi einkenni ljóðabóka þinna. Einkum í bókunum Hnattflug, Blysfarirog svo síðustu ljóðabók þinni Brúður, þar sem þú tekst á við hið oft kynlega menningarfyrirbæri sem brúðkaup eru með lýríkina að vopni. Leggurðu upp með ákveðið þema eða frásögn þegar þú hefst handa við að setja saman ljóðabók?

Það er nú misjafnt – yfirleitt verða bækurnar þannig til að rauður þráður fer að loga í gegnum lagerinn og heimtar að dregið verði í bók. Það var þannig með Hnattflug, ég var alltaf að skrifa ljóð á flakki, minningar um borgir, ljóð um staði – það hlaut að verða að einhverju. Ætli það hafi ekki verið þannig með Brúði líka, þótt ég muni ómögulega hvernig hún varð til. Samt er styst síðan hún kom út. Ég man ekkert hvernig það atvikaðist, þó man ég að á tímabili var mig alltaf að dreyma brúðkaup – undarleg og mislukkuð brúðkaup, aðallega. Blysfarir eru annars eðlis, þar er á ferðinni ein heildstæð frásögn.

Hvernig kviknaði hugmyndin að þeirri bók?

Blysfarir voru ekki hugmynd sem kviknaði, heldur saga sem stækkaði. Það var ekkert við því að gera, fyrst hélt ég að þetta yrði eitt ljóð, kannski tvö, á fáeinum síðum, en sagan komst ekki til skila fyrr en öll A4 blöðin í húsinu voru á þrotum. Upphaflega ljóðið er inni í bókinni en það hefði ekki klárað sig eitt síns liðs, mig langaði að hjálpa mér og öðrum að skilja það betur, þetta tengist því sem ég sagði áður um lífsreynsluna.

Nú koma Blysfarirút á þýsku bráðlega. Í gömlu viðtali reifaðir þú þá hugmynd að markaðssetja hana í samstarfi við Arnald Indriðason – ljóðabókin þín yrði kynnt sem glæpasaga og glæpasaga Arnaldar kynnt sem ljóðabók – en hugmyndin kom of seint. Nú er ef til vill komið annað tækifæri til að hrinda því í verk?

Þetta hljómar sem „devious plan“. Veit hann af þessu? Þetta er kannski tengt því sem við ræddum í byrjun um mýtur og kategóríur, ég tók sumsé eftir því í samtölum eftir að Blysfarir komu út að sumir höfðu „lesið hana í einum rykk“ og „gátu ekki lagt hana frá sér“ og fleira. Þeir notuðu orðrétt línur sem eru einkum notaðar til að auglýsa glæpa- og spennusögur. Ég var dálítið ánægð með að bókin skyldi vekja svona viðbrögð, því klassíska umsögnin um ljóðabók er að það sé „gott að hafa hana á náttborðinu og glugga í fyrir svefninn“. Ég myndi seint gera alvöru úr því að kynna Blysfarir sem glæpasögu, þótt hún fjalli að vissu leyti um glæpsamleg efni, en þetta var heiðarleg tilraun til að koma fólki upp úr hjólförunum. Og væri ekki líka tímabært að einhver leitaði að lýríkinni í Arnaldi – það er eflaust úr nógu að moða.

Að lokum – ein óvarleg ályktun: Mætti halda því fram að ástin og dauðinn séu tvær hliðar sama peningsins í ljóðum þínum?

Það held ég alls ekki, nei, guð hjálpi mér. Auðvitað eru þetta tvö mögnuð viðfangsefni og stór, og slungin tengslum. Þau eru á sálinni á mörgum í sömu andrá, félagi minn gaf eitt sinn út plötu sem hét Ást, dauði og djöfull, og hvað hét Ske-platan, Life, Death, Happiness & Stuff. Þetta segir ýmislegt. Allt er bókstaflega undir. En það er erfitt að fara út í þessi tengsl í stuttu máli, langbest reyndar að gera það í lýrík, stutta svarið snýst kannski um að ástin molni í nærveru dauðans, krafan er víða sterk um að ást sé eilíf, hún skal ná út fyrir gröf og dauða, svo kemur kosmíska bölsýnin og segir: sorrí. Allir sem elska lifa við þann hljóða ótta að þeir gætu misst ástvininn. Það er átakanlegt en gefur nærverunni samt meira inntak. Á sama hátt er erfitt að umbera dauðann án þess að sjá í honum einhverja fegurð. Það eru margir kontrapunktar, eða útsýnisskífur, milli ástar og dauða. Allt lífið er samt á milli.