Óskar Árni Óskarsson

Skuggamyndir úr ferðalagi eftir Óskar Árna, sem gjarnan er nefndur meistari smáprósans í íslenskum bókmenntum, kom út á þýsku fyrr á þessu ári. „Ég vildi halda þessu til haga svo það gleymdist ekki,“ segir hann um hógværa tilurð verksins.

Óskar Árni ÓskarssonÓskar Árni Óskarsson, gjarnan nefndur meistari smáprósans og hvunndagsins í íslenskum bókmenntum, hefur á rúmlega tuttugu ára löngum ritferli markað sér stöðu sem eitt athyglisverðasta skáld íslenskra samtímabókmennta. Í smáprósum og ljóðum sínum hefur Óskar Árni brugðið ljósi á hið kynlega í hinum hversdagslegustu fyrirbærum, en samhliða frumsömdum verkum hefur hann einnig lagt stund á þýðingar. Þar má einkum nefna þýðingar hans á hækum japönsku meistaranna Kobayashi Issa, Yosa Buson og Matsuo Basho, og ekki er laust við að greina megi ákveðinn skyldleika á milli kveðskaps þeirra og Óskars Árna.

Bók hans Skuggamyndir úr ferðalagi, sem kom út árið 2008, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, og kom út fyrr á þessu ári hjá bókaforlaginu Transit í þýskri þýðingu Betty Wahl. Bókin mætti miklu lofi gagnrýnenda á sínum tíma en í henni er að finna smáprósa og stuttar frásagnir sem sprottnar eru af ferðalagi Óskars um landið og liðna tíma. Þetta er stór saga, sögð með fáum orðum – ljóðræn minningabók skáldsins og ættarsaga í senn. „Ég vildi halda þessu til haga svo það gleymdist ekki,“ segir Óskar Árni um hógværa tilurð verksins.

Útsendari Sögueyjunnar mælti sér mót við Óskar Árna á heimili hans í Vesturbænum og ræddi við hann um flandur og ímynduð hótel.

Hugarferðalög um Ísland

Skuggamyndir úr ferðalagi kom út í þýskri þýðingu á árinu. Þó bókin sjálf láti ekki mikið fyrir sér fara þá er þetta „skáldskapur með stóru essi“, líkt og gagnrýnandi Víðsjár sagði um hana á sínum tíma. Átti verkið langan aðdraganda?

Skuggamyndir-ur-ferdalagi„Já, hún á sér nokkuð langan aðdraganda, sennilega meira en tuttugu ár. Þetta byrjaði með því að ég hripaði niður í dagbók ýmsar sögur af fjölskyldu minni, aðallega eftir foreldrum mínum. Einnig skrifaði ég niður ýmsar myndir úr eigin bernsku. Ég vildi halda þessu til haga svo það gleymdist ekki en svo fór ég að vinna með þessi dagbókarskrif mín svo úr urðu stuttar sögur og stundum ljóð. Fyrir nokkrum árum datt mér svo í hug að kannski væri ég þarna með efni í bók sem væri allt í senn ferðabók, minningabók og jafnvel ljóðabók líka.

Meðal annars segi ég sögur af föðurömmu minni Stefaníu Stefánsdóttur á Siglufirði, en hún var systir Magnúsar Stefánssonar sem tók sér skáldanafnið Örn Arnarson. Þetta var fátækt fólk og þurfti flest að heyja mjög harða lífsbaráttu, en lét sjaldnast bugast þótt dauðinn tæki marga til sín.“

Það hefur þótt erfitt að festa Skuggamyndir við eina þægilega bókmenntagrein. Þarna eru samankomnir ólíkir þræðir, ekki satt?

„Bókin byggir meira eða minna á raunverulegum atburðum, en þetta er ekki raunsætt verk þannig séð, því það er ýmislegt sem fellur inn í þessa ferð sem er hreinn skáldskapur. Hún er á mörkum þess að vera skáldskapur og eitthvað annað. Í bókinni eru einnig textar sem koma ekki beint frá mér; bréf sem ég gróf upp úr handritadeild Landsbókasafnsins og bútar úr bókum annara sem ég skeyti inn í – sem hleypir öðrum röddum inn í bókina. Ég ákvað svo að hafa dálítið af ljósmyndum í henni líka, sem ég gróf upp eða tók sjálfur. Ef til vill var ég undir áhrifum frá þýska rithöfundinum W.G. Sebald, sem skeytti gjarnan ljósmyndum og póstkortum inn í bækur sínar.

Bókasöfn hafa átt í erfiðleikum með að flokka hana; hvort þetta sé ævisaga, skáldsaga, ferðasaga eða minningabók. Ég er mjög hrifinn af slíku bókmenntaformi – sem er ekki alveg hægt að negla niður.“

Flakk um borg og bý virðist vera mikilvægur þáttur í skáldskap þínum.

„Já, það hefur verið það alveg frá fyrstu bók minni, Handklæði í gluggakistunni. Þetta er þema sem kemur oft fyrir í verkum mínum og er líklegast komið til af því að ég er svolítill flandrari sjálfur. Alveg frá því að ég var krakki þá týndist ég gjarnan í borginni, fór í löng ferðalög og rataði ekki heim. Þetta tengist jafnvel líka því að ég hef þýtt dálítið af japönskum hækum, sem eru gjarnan ferðaljóð, svo þetta vefur sig inn í hvort annað.“

Skuggamyndir úr ferðalagi, eins og titillinn ber með sér, er sprottin af ferðalögum.

„Skuggamyndirnar segja frá rútuferð sem ég fór sumarið 2005, fyrst norður í land til Siglufjarðar og Akureyrar, og svo austur á Lauganesströnd á ættarslóðir föðurfólks míns og fléttast saga þess, móður minnar og fleiri inn í ferðalagið.

Þetta rútuferðalag er reyndar sett saman úr mörgum svona ferðum um landið og ná yfir nokkur ár, en ég bý til úr því eina ferð. Ég skrifa gjarnan dagbók á ferðalögum og fer oft með rútum þar sem ég hef aldrei tekið bílpróf. Þegar ég var strákur fór ég oft um landið með foreldrum mínum á gömlum bílskrjóð sem pabbi átti og mjög gjarnan til Siglufjarðar. Þetta ýtti undir þessa ferðaáráttu mína og líka það að ég byrjaði snemma að liggja yfir landakortum og fór í einskonar hugarferðalög um Ísland, stoppaði í vegasjoppum og fékk mér pylsu, gisti á ímynduðum hótelum og lenti í margs konar ævintýrum.“

Hvar finnurðu svo helst yrkisefnin, hvar eru gjöfulustu miðin á flandrinu?

„Ég hef skrifað svolítið um úthverfin í Reykjavík. Meðal annars iðnaðarhverfi eins og Skemmuveginn í Kópavoginum. Ég hef gaman af jaðarsvæðum, útjöðrum borgarinnar, þar sem sveitin tekur við af borginni; lönd með gömlum niðurníddum sumarbústöðum, það eru svæði sem ég hef gaman af að ganga um. Þar liggur eitthvað í loftinu, eftir eitthvað sem er alveg horfið.

Af og til er gott að fara út úr borginni. Nú sit ég í Hveragerði og vinn í ljóðahandriti. Þar er ég einn, sem veitir manni aðhald. Þá er ekki um annað að ræða en að skrifa. Það er ekki hægt að vera á eintómum göngutúrum, þó það sé reyndar vissulega hluti af vinnunni líka.“


Viðtal: Davíð K. Gestsson

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson