Pétur Gunnarsson

„Sambandi höfundar við fyrri verk má helst líkja við samband okkar við drauma. Þau hreinlega hverfa yfir í einhverja aðra vídd.“

„Sambandi höfundar við fyrri verk má helst líkja við samband okkar við drauma. Þau hreinlega hverfa yfir í einhverja aðra vídd,“ segir rithöfundurinn Pétur Gunnarsson í samtali við Sögueyjuna. Punktur, punktur, komma, strik er komin út á þýsku og bókmenntaleg leiðsögubók um Reykjavík að auki.

Pétur Gunnarsson

Fyrsta skáldsaga Péturs Gunnarssonar, Punktur, punktur, komma, strik,mætti fádæma góðum móttökum lesenda og gagnrýnenda þegar hún kom út árið 1976, ári seinna var hún tekin til kennslu í skólum víða um landið – og með því snarlega innlimuð í kanónu íslenskra bókmennta. Í bókinni var Andri Haraldsson kynntur til sögunnar og uppvexti hans og þroska fylgt eftir í bókumsem urðu að lokum fjórar talsins. Bækurnar um Andra ollu straumhvörfum í íslenskum bókmenntum, en þar öðlaðist hið íslenska borgarbarn mikilvæga rödd í íslenskum bókmenntaheimi. Á þeim þrjátíu og fimm árum sem liðið hafa frá útgáfu Punktsinshefur Pétur Gunnarsson steypt sig kyrfilega meðal virtustu og ástsælustu rithöfunda þjóðarinnar, og nú, í fyrsta sinn, fá þýskumælandi tækifæri til að njóta bókarinnar, en hún kom fyrir skömmu út hjá þýska forlaginu Weidle.

Sögueyjan átti fáein orð við Pétur vegna útgáfu bókarinnar í Þýskalandi. Fyrst er spurt hvernig verkið horfir við honum, þessum 35 árum sem liðið hafa frá útgáfu þess hér á Íslandi. „Sambandi höfundar við fyrri verk má helst líkja við samband okkar við drauma. Þau hreinlega hverfa yfir í einhverja aðra vídd,“ svarar Pétur. „Svipað og draumarnir sem voru svo raunverulegir á meðan á þeim stóð – en gufuðu upp um leið og við fórum í sokkana. Þannig er aðkoma mín að Punktinum í dag, ég nálgast hann eins og hver annar lesandi.“

Punktur, punkturÍ bókunum um Andra kvað sér hljóðs ný rödd íslenskum skáldskap – rödd ungra Íslendinga sem ólust upp á „mölinni“ svokölluðu, með borgarlífið sem miðpunkt tilveru sinnar. Skemmtileg sýn Péturs á reykvískan hversdagsleika og lipurt tungutakið, frjótt og myndríkt, fangaði hinn nýja íslenska veruleika sem tók við eftir seinna stríð á einstakan hátt. Í greinasafninu Af jarðarinnar hálfu, sem var helgað Pétri í tilefni af sextugsafmæli hans, sagði skáldið Sigurður Pálsson að díalektík víðmyndar og nærmyndar væri eitt sterkasta einkennið í hugsun og ritun Péturs: „Innsæi Péturs byggist á díalektískum samslætti yfirsýnar og nærsýnar í góðri merkingu, ofurvíðmyndar og ofurnærmyndar. Til dæmis jörðin séð utan úr geimnum versus karamellubréf.“ Skilgreiningin lýsir einkar vel sérstakri sýn og úrvinnslu Péturs á hversdaginn, sem hann hefur orðið þekktur fyrir í verkum sínum.

Í Vasabók, safni hugleiðinga í vasabroti sem kom út árið 1989, ímyndaði Pétur sér ef allir gætu haldið minniskompur, til skráningar á hversdeginum. Hversdagurinn hefur líklegast aldrei verið jafn fyrirferðarmikill á opinberum vettvangi og nú – með tilkomu ýmissa nútímasamskiptamiðla – og stóðst útsendari Sögueyjunnar ekki mátið um að spyrja hvað honum þætti um þá þróun, tuttugu árum eftir ritunartíma bókanna. „Mér fannst ég alltaf vera að upplifa eitthvað merkilegt og jafnvel stórkostlegt í miðjum klíðum, eitthvað sem mig langaði til að miðla eða gera skil,“ segir Pétur um bókina. „En þurfti endilega að klæða það í búning skáldsögu? Af hverju ekki umbúðalaust eins og “það kom fyrir af skepnunni”? Bloggið aftur á móti – án þess að ég sé vel heima í bloggheimum – finnst mér of mjög skorta þessa upplifun, kannski það sé “of hversdagslegt”?

„Fyrir mér er Reykjavík fyrst og fremst bókmenntaleg afurð.“

Mein ReykjavíkMiðlæg í fyrstu skáldverkum Péturs er borgin. Í þeim er borgin ekki mínusinn í andstæðuparinu borg/sveit, heldur sjálfgefinn útgangspunktur – sjálfsögð miðja frásagnanna. Auk Punktsins kom nýlega út á þýsku bókin Reykjavík, hjá bókaforlaginu Insel, en þar leiðir Pétur þýska lesendur um stræti Reykjavíkur, bókmenntir og menningu. „Ég var beðinn um að skrifa „persónulega bók“ um Reykjavík, Reykjavík eins og hún horfði við mér,“ segir Pétur um hvernig bókin kom til. „Fyrir mér er Reykjavík fyrst og fremst bókmenntaleg afurð. Hún varð til í Fögru veröldTómasar Guðmundssonar, ljóðum og borgartextum Steins Steinarr, Ofvita Þórbergs, Smásögum Ástu Sigurðar, ljóðum Dags og þannig áfram til höfunda okkar daga. Það er nefnilega ekki nóg að raða saman húsum, hugblærinn er það sem ræður úrslitum.“

Pétur hefur ávallt verið óhræddur við að feta nýjar slóðir í verkum sínum. Árið 2000 kom út bókin Myndin af heiminum, fyrsta bindið í Skáldsögu Íslands, metnaðarfullum sagnabálki sem nú telur þrjár bækur. Verkin eru óvenjuleg hvað það varðar að aðalpersóna þeirra er ekki manneskja, heldur Ísland sjálft. Saga landsins, upphaf og verðandi, stendur í miðpunkti frásagnarinnar, en um leið eru tengslin við umheiminn könnuð og undirstrikuð, þar sem hinu hversdagslega og hinu heimssögulega er stefnt saman. „Heimsmynd nútímans skautast um hið stærsta (afstæðiskenningin) og það smæsta (skammtakenningin),“ segir Pétur, spurður um verkin. „Báðar kenningarnar ganga fullkomlega upp á eigin forsendum, en virðast útiloka hvor aðra. Yfirstandandi viðfangsefni er að finna allsherjarkenningu sem rúmi þær báðar. Án þess að ég vilji líkja minni viðleitni við svo stórkostleg tilþrif, leyfi ég mér að ýja að hliðstæðunni. Fyrir nú utan að kosmólógía eða alheimsfræði hafa um langt skeið verið mín uppáhaldslesning.“

Síðustu ár hafa komið frá Pétri ævisöguleg verk um rithöfundinn Þórberg Þórðarsson – ÞÞ í fátæktarlandiog ÞÞ í forheimskunarlandi– og hafa þau reynst ómetanlegt framlag til aukins skilnings á ævi og skrifum þess merka rithöfundar. En ný skáldsaga er á leiðinni, og fengu gestir nýafstaðinnar Bókmenntahátíðar forsmekk af henni, þar sem Pétur las nokkra kafla úr handriti sem gengur undir nafninu Íslendingablokk.

Að lokum er spurt: hvað knýr skrifin áfram?

„Byrjandi höfundur einblínir á yrkisefnið, að finna nógu stórkostlegt yrkisefni, þá sé eftirleikurinn auðveldur. En með stöðugri iðkun og eftir því sem fram í sækir er hann eins og námumaður sem hittir á æð. Yrkisefnin þyrpast að honum og vandinn er að finna tíma, næði og form til að gera þeim skil. Ég er staddur á þeim stað um þessar mundir að ég má teljast heppinn ef mér endist aldur til að ganga frá öllu sem stríðir á mig.“

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.