Arnaldur Indriðason

„Það á ekki að vera hægt að skrifa glæpasögur á Íslandi, af því að hér gerist ekki neitt. Og það er gríðarlega erfitt að sannfæra lesendur um annað. Það er ögrunin sem maður stendur frammi fyrir,“ segir Arnaldur Indriðason.

Arnaldur indriðason

Viðtal: Pétur Blöndal
Ljósmyndir: Kristinn Ingvarsson


Í setustofunni á Hótel Holti hefur rithöfundurinn Arnaldur Indriðason hreiðrað um sig í notalegum hægindastól.

Á veggjunum hanga málverk eftir marga af helstu listmálurum þjóðarinnar. Þetta var fínasti staðurinn í Reykjavík áður en tengsl þjóðarinnar rofnuðu við menningararfinn og kapphlaupið hófst um glópagullið. Þá skaut framúrstefnulegum stöðum upp eins og gorkúlum, en eins og oft vill verða, um leið fóru rithöfundar og listamenn í meira mæli að venja komur sínar á Holtið.

Það kemur ekki á óvart að Arnaldur vilji að samtalið eigi sér fremur stað hér en á heimili sínu; það er friðhelgt eins og maðurinn sjálfur, sem veitir nánast aldrei viðtöl.

„Mér finnst þægilegt að sitja hérna,” segir hann.

Rólegt fasið eins og flestir ímynda sér Arnald. Í New York Times var talað um að í verkum sínum kæmist hann næst hinni þunglyndislegu viðkvæmni sem búast mætti við á Íslandi. En í eigin persónu reynist alveg laus við dramb eða yfirlæti, sem stundum einkennir metsöluhöfunda, þvert á móti er hann hlýr og einlægur í viðmóti.

„Hér er aldrei nokkur maður. Mér finnst ágætt að eiga fundi hérna og svo vinn ég hérna stundum. Það var hér sem ég og Óskar Jónasson [kvikmyndaleikstjóri] skrifuðum handritið að Reykjavík Rotterdam. Ég naut þess að vinna með Óskari; hann er faglegur og hugmyndaríkur. Og það var hvíld frá bókunum, sérstaklega seríunni. Ég hef tekið mér slíka hvíld í þremur bókum. En það þarf allt aðra hugsun og framsetningu í kvikmynd. Þá kom samvinnan sér vel við Óskar, sem er þaulvanur kvikmyndagerð.”

– Hvernig unnuð þið saman?

„Sumir skipta með sér köflum, atriðum eða fyrri og síðari hluta verksins. En við Óskar gerðum ekkert nema við sætum saman á fundi og ræddum það í þaula, öll samtöl voru unnin ofan í kjölinn – það átti vel við okkur. Þessi vinna var gefandi og það var gaman að skjóta á milli sín hugmyndum.”

– Tilbreyting í starfi sem á það til að vera einmanalegt?

„Já, þetta getur verið einmanalegt djobb, sérstaklega þegar maður skrifar mikið. Ég þarf að fá starfsfrið og það má ekki rjúfa þá einangrun. Það var léttir að því leyti, að taka þátt í samstarfsverkefni. Annars er ég þannig, að ég hef alltaf unnið heima. Ég er fjölskyldumaður með þrjú börn, en það truflar mig ekki að hafa fólk í kringum mig. Ég kem úr blaðamennsku þar sem er stöðugur erill, læti og kapphlaup við deadline, og það sem maður tekur með sér úr þeim reynsluheimi, er að geta unnið í algjörum friði, þó að allt sé að ganga af göflunum. Manni tekst einhvern veginn að loka sig af, frá öllu því sem er að gerast á ritstjórninni eða heimilinu. Það truflar mig ekkert ef vinir krakkanna eru í heimsókn eða iðnaðarmenn. Ég hef alltaf unnið í opnu rými, ekki á skrifstofu, og það hefur tekist furðuvel. “

Að treysta lesandanum

– Hafði það mótandi áhrif á þig að alast upp á heimili rithöfundar?

„Já, bæði meðvitað og ómeðvitað. Fyrstu hljóðin sem ég man eftir að hafa heyrt eru úr ritvélinni hans pabba. Hann var ritstjóri á [dagblaðinu] Tímanum og blaðamaður, en vann mikið heima. Það var ákaflega geðþekkt hljóð, þetta tikk á eftir setningum, málsgreinum, greinum og sögum. Þetta er sköpunartikkið, hljóðið í sköpuninni, sem hefur fylgt mér alla tíð. Þetta...“ segir hann og bendir á lyklaborðið á tölvu spyrilsins, þar sem orðin eru hömruð inn jafnóðum.

„Þetta er einstaklega skemmtilegt hljóð. Það var engin tilviljun að ég fór í sagnfræði eftir Menntaskólann í Hamrahlíð og leiddist út í blaðamennsku og kvikmyndaskrif. Ég held það sé bara framhald af því sem karlinn var að gera. Maður festi sig aldrei í neinu ákveðnu, réð sig aldrei á skrifstofu, var laus við fyrir utan tvö ár sem fastamaður á [dagblaðinu] Morgunblaðinu. Eftir á hyggja hafði maður það sennilega alltaf í bakhöndinni að búa eitthvað til – gera eitthvað annað. Það blundaði auðvitað í manni að skrifa bækur, en það er þannig um börn og foreldra, að börnin vilja ekki alltaf gera það sama og foreldrarnir. Ég hikaði við það, kannski af því að karlinn var svo frægur. Hann var mjög áberandi, oft af góðu einu og oft af slæmu einu, og það freistaði manns ekki að takast á við það.“

– En svo varð ekki við neitt ráðið?

„Já, það bara gerðist þegar ég var 34 ára. Mér finnst það ansi gamalt fyrir rithöfund. En þá fór ég að fá þessar hugmyndir, allar sakamálalegs eðlis.

En fyrst þurfti ég að svara tveim spurningum. Sú fyrri laut að því, hvort ég gæti gert þetta. Er hægt að búa til 300 síðna handrit úr einni lítilli hugmynd? Hin spurningin var sú, hvað þyrfti til að gera það – hvernig maður bæri sig að. Ég fór að setjast niður meðfram annarri vinnu, byrjaði á byrjuninni, og það kom á daginn að þetta var auðveldara en ég hafði gert mér í hugarlund. Bókin bara skrifaði sig sjálf.

– Hvernig verður sagan til?

„Það er mjög gaman að vera rithöfundur, sérstaklega að skrifa spennusögur. Á meðan á því stendur veit ég ekkert hvað gerist eða hver er morðinginn, ekki einu sinni hver er myrtur. Það kemur ekki í ljós hver deyr fyrr en sagan opnar það sjálf, eins og í Grafarþögn. Margt fleira kemur á óvart, líka mér, og ég veit ekki allt. Ég veit kannski að þemað er heimilisofbeldi, að Erlendur verður þar og þetta lögreglulið, og nokkurn veginn hvaða persónur koma við sögu, alls ekki allar, og svo bara byrjar maður. Og við það að skrifa, slá á lyklaborðið, verða til milljón litlar hugmyndir. Þess vegna er þetta skemmtilegt starf. Maður er alltaf að finna eitthvað nýtt, nýjar lausnir sem koma jafnvel manni sjálfum á óvart. Ég veit um höfunda, sem eru með allt niðurnjörvað, kafla fyrir kafla, hver framdi glæpinn og hvernig sagan endar, en þetta geri ég alls ekki. Ég er með fáar mjög laust mótaðar hugmyndir – og svo byrjar sköpunin. Hún er öll inni í þessu verkferli.“

–Þú hefur knappan stíl!

„Mér leiðist kjaftæði. Á allan hátt. Ekki síst í bíómyndum og bókum. Það stoppar svo frásögnina. Þess vegna eru Íslendingasögurnar skemmtilegar; þær halda sig við efnið, eru skrifaðar á stórkostlegu máli, en ekkert verið að tvínóna við hlutina. Ef þú vilt læra hvernig á að skrifa sögu, þá skaltu lesa þær. Mín regla er sú að segja sem mest í sem allra fæstum orðum. Í stað þess að skrifa andrúmsloftið eða hugmyndina sem byggt er á alveg ofan í drep, þá gef ég því eigið líf og læt lesandann um að klára það – lesandinn er skilinn eftir með sína eigin útgáfu. Það er hægt að búa til allskonar fallegar lýsingar og drepa þær með orðgnótt, en það má líka gera vel í fáum vel völdum orðum. Fyrir mér hefur það miklu meiri áhrif.“

– Svo það þarf ekki alltaf að segja allt?

„Lesandinn er þarna, treystu honum. Það eru svo margir sem vantreysta lesandanum, tyggja allt ofan í hann. Lesandinn er að minnsta kosti helmingurinn af þessu öllu saman. Það er hann sem færir textann til lífs. Og mér leiðast útúrsnúningar. Erlendur hefur einu sinni sofið hjá í þessum bókaflokki og Erik minn franski þýðandi, þú veist hvernig ástarsögurnar eru í Frakklandi, hann þýddi kynlífssenuna með Erlendi, og hún var eitt orð, alveg fumlaus. Svona finnst mér þetta eigi að vera. Frakkinn var í öngum sínum!“

Hann hlær.

„Og bara get on with it. Martin Scorsese þolir ekki ástarsenur í bíómyndum. Um leið og leikararnir eru komnir upp í rúm, þá er ég búinn að henda myndinni. Nema það sé gert eins og í Don't Look Now; Nicolas Roeg með Julie Christie og Donald Sutherland í Feneyjum, besta glæpamynd sem gerð hefur verið.“

Það vantaði eitthvað inn í flóruna

– Leitaðirðu í smiðju föður þíns þegar þú fórst að skrifa?

Arnaldur Indriðason„Ég sagði honum ekkert frá því að ég væri að skrifa Syni duftsins. Ég lét hann ekki vita af því, fyrr en ég færði honum handritið, 300 síður. Þá var bókin til í handriti og ég fór með það heim til hans. Hann varð afar undrandi og gríðarlega glaður, las það með áfergju og var mjög ánægður, aðallega með að ég skyldi vera að bisa við að verða rithöfundur. Hann las öll handrit eftir það, Dauðarósir, Napóleónsskjölin, sem hann var gríðarlega hrifinn af – við kokkuðum upp nafnið saman, og Mýrina, sem var síðasta handritið sem hann las. Hann lést árið 2000. Ég man að hann kom heim og sagði með sinni djúpu röddu: „Arnaldur, ég held þetta sé besta sagan þín.“ Hann var alltaf mjög hvetjandi og hafði gaman af því að ég skyldi feta þessa braut. Pabbi hans var mikill hagyrðingur, afi minn Þorsteinn Magnússon í Gilhaga í Skagafirði, svo þetta hélst í blóðinu.“  

– Hvenær fékkstu áhuga á glæpasögum?

„Ég hef ekkert legið í þeim. Ég sökkti mér bara ofan í bækur sem börn og unglingar lesa og svo uppfærði ég það með árunum. Fyrsta bíómynd sem ég man eftir að hafa séð, þá hef ég verið þriggja ára, var Little Caesar með [Edward G.] Robinson. Hann leikur bófa í Chicago og ég man eftir einu eða öðru þar. Það gæti verið upphafið að þessu. Síðan skrifaði ég ritgerð í skóla, sem nefndist Leiðin í skólann. Hugmyndin var sú að krakkar gengu hjá, þar sem verið væri að fremja ofbeldisglæp. Þegar ég velti því fyrir mér að skrifa bók, þá er það yfirleitt í þessu sakamálaformi og ég veit í sjálfu sér ekkert af hverju.

Hin augljósa skýring er sú, að Íslendingum hafði ekki tekist að búa til neina glæpasagnahefð. Það komu út bækur á tíu ára fresti og varla var litið við þeim – þær þóttu skrítnar. Rithöfundar litu ekki á sakamálaformið sem ögrandi listform, heldur horfðu til [Halldórs Kiljans] Laxness, sem var stór og mikill rithöfundur. Hitt viðhorfið var að ekki væri nógu mikið um glæpi á Íslandi til að standa undir heilli bók, þannig að það gæti talist raunsætt og trúverðugt. Ísland væri ekki þannig land. En það var algjör misskilningur, eins og komið hefur á daginn.

Þetta tvennt var mjög hamlandi, það vantaði eitthvað inn í flóruna, en það örvaði jafnframt áhugann að þessar bækur voru ekki til. Þá var maður að búa til eitthvað nýtt, með upphafi, miðju og endi – og plotti. Það þurfti að vera sterk bygging, sem skildi ekki eftir neina lausa enda, og skipulögð frásögn. Ég var ekkert farinn að hugsa um seríu um Erlend, en vildi búa til áhugaverða persónu sem fólk léti sig varða, og setja hana í óvenjulegar og hættulegar kringumstæður. Þetta eru ekki ofurhetjur eða ofurmannlegt fólk sem ræður við allt, heldur venjulegt fólk, eins og ég og þú, sem því miður lendir í óskapnaði.

Þetta var það sem ég lagði upp með. Í annarri bókinni, Dauðarósum, var Erlendur orðinn mjög áhugaverð persóna og þá hafði ég ákveðið að búa til seríu í kringum hann.“

– Það eru alla jafna framin á bilinu núll til eitt morð á ári á Íslandi. Hvernig tókst þér að skapa trúverðuga umgjörð um glæpasögur í þessu litla landi? 

„Það er mjög gefandi að skrifa fyrir íslenskan lesendahóp, sem út af smæðinni er sennilega sá erfiðasti sem til er í heiminum fyrir glæpasögur. Það á ekki að vera hægt að skrifa glæpasögur á Íslandi, af því að hér gerist ekki neitt. Og það er gríðarlega erfitt að sannfæra lesendur um annað. Það er ögrunin sem maður stendur frammi fyrir, að verða að vera raunsær og trúverðugur, annars gengur dæmið ekki upp. Fólk verður að fást til að trúa því sem ég segi því. Þess vegna er aldrei hægt að koma með auðveldar lausnir, leysa málið í byssubardaga eða bílaeltingaleik, sem þykir sjálfsagt úti í heimi. Það þarf að kafa ofan í persónurnar, leita að sálrænni innri lausn frekar en ytri sprengjulausn. Það getur verið mjög erfitt, en það gerir mann að betri höfundi, að hafa þennan íslenska lesendahóp í huga. Ég þakka þeim það, bækurnar verða helmingi betri fyrir vikið.

En svo varð Erlendur til og hugmyndin var strax sú, að gera hann einhvern veginn rótgróinn í íslenskt samfélag, þjóðfélagið sem við þekkjum frá stríðslokum. Hann er fæddur eftir stríðið og upplifir mikla þjóðflutninga úr sveitum í þéttbýli. Eins og alltaf í slíkum þjóðfélagsbreytingum sitja einhverjir einstaklingar eftir og Erlendur er einn þeirra. Hann fylgir ekki þróuninni, hatar nútímann og hatar Reykjavík. Hann lifir mikið í fortíðinni, sögunum og á sínum heimaslóðum fyrir austan. Svo sekkur hann sér ofan í hrakningasögur, Íslendingar eiga heilu bókaflokkana af þeim, skriðuföll og snjóflóð, hrakningar á heiðarvegum, frásagnir af fólki sem verður úti, heilu hópunum sem finnast jafnvel ekki fyrr en eftir hálfa öld. Fyrir mér var þetta eina leiðin til að gera hann að trúverðugum lögreglumanni. Við erum með Morse, Beck, Taggart, svo hetjurnar frá Ameríku, Bruce Willis og hvað þær heita allar. Ef maður ætlar að búa sér til lögreglumann, sinn eigin, þá þarf hann að vera staðbundinn, bundinn umhverfinu sem hann kemur úr. Það var alltaf mest áhersla á að hafa hann rótgróinn og ég held að það sé lykillinn að velgengninni, ekki bara heima, heldur einnig erlendis.“

Þetta snýst ekki um að vera alltaf á útopnu

Tödliche Intrige– Íslenski sveitabærinn prýðir margar bækur þínar í Þýskalandi?

„Þeir nota helst torfbæi. Ég reifst nú svolítið við þá, en þeir sögðu að það kæmu út milljón titlar á ári, allir rötuðu upp í hillu og týndust, en ef við hefðum útgáfuna íslenska og þjóðlega í Þýskalandi, úr þessari paradís fyrir norðan, hreinu lofti og vatni og fallegu landslagi, þá kannski næðum við að grípa kaupendur. Og það gekk! Maður á alltaf að láta hverja þjóð um sitt – ekki skipta sér of mikið af. En maður finnur það á ferðalögum erlendis, af því að útgefendur vilja fá mann til að kynna þessar bækur, að það ríkir talsvert sakleysi í huga fólks gagnvart Íslandi. Ég er spurður hvort glæpir séu yfirleitt framdir á Íslandi. Hér heima eru þetta raunsæisverk, en úti stuða bækurnar marga – þær draga upp allt aðra mynd af Íslandi en fólk hafði gert sér í hugarlund.“

– Þú ferð ekki oft í viðtöl – hvernig stendur á því?

„Ég hef gert það að beiðni útgefanda, þegar fyrstu bækurnar koma út í einhverju landi, að fara og kynna þær. En ég geri sem minnst af því, hafna gríðarlega miklu, allskonar ferðum og viðtölum. Hér heima hef ég eiginlega algjörlega dregið mig í hlé, bara til að hafa vinnufrið. Ég vil ekki vera partur af fjölmiðlasirkus eða fjölmiðlaumræðu – það er  bara truflandi. Ég held líka, að þegar allir trana sér fram með hvað sem er, ekkert þarf til að komast í sjónvarp eða dægurlagaþætti, þá sé ágætt að einhver haldi sig til hlés og geri eitthvað annað. Ég er mjög sáttur við það. Ég hef aldrei haft gaman af því að tala um mig sjálfan eða bækurnar. Þær liggja bara þarna og eru til lestrar. Ég get mjög litlu bætt við þær í viðtölum og hef engan áhuga á að segja stöðugt frá sjálfum mér, hvað ég geri dags daglega. Þetta kemur því líka af sjálfu sér. Og maður þarf vinnufrið. Þegar þetta er farið að hlaða utan á sig, þá er pressan meiri og meiri, og maður þarf að vera harður til að fá vinnufrið til að gera það sem lagt var upp með – að skrifa. Þetta snýst ekki um að vera alltaf á útopnu.“


Viðtalið er úr bókinni Isländische Literatur der Gegenwart – 22 Autoren im Gespräch, eftir Pétur Blöndal, með ljósmyndum Kristins Ingvarssonar. Viðtalsbók við 22 íslenska samtímahöfunda, sem Sögueyjan Ísland gefur út í tilefni af heiðursþátttökunni á Bókasýningunni í Frankfurt. Viðtalið birtist hér að hluta til.