Ólafur Jóhann Ólafsson

„Maður er endalaust að læra eitthvað nýtt og reyna að gera það betur sem maður hefur þegar lært, endalaust að viða að sér efni og öðlast yfirsýn,“ segir Ólafur Jóhann Ólafsson, eftir 25 ár á ritvellinum. Sögueyjan ræddi við hann um farinn veg og að sjálfsögðu nýjustu skáldsöguna.

Ólafur Jóhann Ólafsson

Í Bandaríkjunum er hann kallaður„alþjóðlegur rithöfundur“. Óljós merkimiði, en þó ekki óviðeigandi – sagnaheimur Ólafs Jóhanns Ólafssonar er landamæralaus og hafa bækur hans komið út á yfir 20 erlendum tungumálum. Það sætir ávallt tíðindum þegar von er á nýrri bók frá Ólafi Jóhanni, en hann hefur uppskorið miklar vinsældir meðal íslenskra lesenda allt frá útgáfu fyrstu bókar hans, smásagnasafnsins 9 lyklar, árið 1986. Þessi bókajól rýfur hann fimm ára þögn með nýrri skáldsögu.

„Maður er endalaust að læra eitthvað nýtt og reyna að gera það betur sem maður hefur  þegar lært, endalaust að viða að sér efni og öðlast yfirsýn,“ segir Ólafur Jóhann, eftir 25 ár á ritvellinum. Sögueyjan ræddi við hann um farinn veg og að sjálfsögðu nýjustu skáldsöguna.

Tvöföld líf

Fyrirtækjalífið skýtur oft upp kollinum þegar talað er um þig sem rithöfund – það virðist stundum vera erfitt að aðskilja forstjórann og rithöfundinn þegar rætt er um verk þín – hefur þetta truflað þig?

„Kannski áður fyrr en ekki lengur.  Ég held að mér hafi tekist að aðskilja þessi hlutverk bæði í mínu lífi og út á við líka.  Rithöfundar lifa auðvitað margir tvöföldu lífi – kenna, ritstýra, fást við prófarkalestur, stunda blaðamennsku o.s.frv.  – en það eru líklega svo fáir sem standa í mínum sporum að þetta þykir athyglisvert.“

Nær allan þinn ritferil hefurðu búið í Bandaríkjunum. Einn gagnrýnandinn – íslenskur – gekk svo langt að segja „að Ólafur Jóhann Ólafsson sé ekki síður bandarískur en íslenskur höfundur,“ í dómi um Aldingarðinn. Hvar staðseturðu sjálfan þig sem rithöfund?

„Ég er Íslendingur  sem býr í New York.   Ætli bækur mínar endurspegli ekki að ræturnar eru á Íslandi þótt ég hafi búið utan landsteinanna í næstum þrjátíu ár og kynnst lífi á mörgum stöðum.  Í Bandaríkjunum er ég jafnan kallaður alþjóðlegur höfundur – hvað svo sem það nú þýðir.“

Stimpillinn „alþjóðlegur höfundur“ er kannski ekki svo vitlaus þegar litið er á verk þín; sjónsvið þeirra nær víða um heim og þau hafa komið út á yfir tuttugu tungumálum. Þó bækurnar endurspegli að rætur þínar liggi á Íslandi, hefur þessi „alþjóðleiki“, eða erlenda samhengi, ef til vill gert þig að jaðarhöfundi í íslenskum samtímabókmenntum? Einn bókmenntafræðingurinn hefur meira að segja kallað þig „útlaga“ í íslenskum bókmenntum!

„Það hafa náttúrlega alltaf verið til höfundar sem leggja land undir fót og slá upp tjöldum fjarri heimabyggðinni.  Sumir klippa á strenginn, aðrir sjá ekki ástæðu til þess, finnst gott að vita af heimahögunum í sálinni, rækta þá á sinn hátt úr fjarska.  Ég skipa mér í síðarnefnda hópinn enda eyði ég dágóðum tíma á ári hverju  á Íslandi, tala íslensku heima hjá mér og velkist ekkert í vafa um hvar rætur mínar liggja.  En fyrir vikið er ég ekki dæmigerður íslenskur rithöfundur og því má kannski að gamni kalla mig útlaga.  Það er svo sem ekkert uppnefni og truflar mig ekki frekar en aðrar skírgreiningar sem leitast við að staðsetja mig.“

Málverkið

MálverkiðMálverkið heitir nýja bókin og ber útgáfu hennar upp á 25 ára rithöfundarafmæli Ólafs Jóhanns. Ensk þýðing er væntanleg eftir áramót, á vegum bandaríska bókaforlagsins Harper Collins, en bókina skrifaði Ólafur Jóhann samtímis á íslensku og ensku, í samstarfi við þýðandann Vicky Cribb. Fimm ár hafa liðið frá útgáfu síðustu bókar hans, smásagnasafnsins Aldingarðurinn, sem hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2006 fyrir. Málverkið – örlaga- og átakasaga tveggja kvenna, sviðsett í borgarastyrjöld á Ítalíu 1944 – er hans áttunda skáldsaga og var óvenju lengi í vinnslu.

„Ég hef aldrei verið jafn lengi að vinna að bók og Málverkinu,“ segir Ólafur Jóhann um verkið. „Bókin krafðist mikillar undirbúningsvinnu, margvíslegs grúsks, ferðalaga og snudds af ýmsu tagi.  Ég reyndi að kortleggja hana eins og ég gat áður en ég byrjaði en hugurinn stendur ekki í stað svo margt breyttist meðan á skriftunum stóð.  Ég lét hana svo liggja í salti í svolítinn tíma þegar ég var búinn með fyrsta eða annað uppkast og eyddi svo dágóðum tíma í krukka í hana áður en ég var tilbúinn að láta hana frá mér.  Ég sé ekki að ég hafi getað gert þetta á skemmri tíma, svona er þetta nú stundum, en ég vona að ég verði nú aðeins fljótari næst.

Ég fór fyrst til Toscana unglingsstrákur og eyddi nokkrum vikum á þessu svæði.  Maður var nú ekki mikið að ferðast til útlanda á þessum árum og ferðin hafði mikil áhrif á mig.  Mér var boðið á vegum einhvers Evrópubatterís og var þarna með krökkum frá ýmsum löndum á ferðalagi. Ég hef vanið komur mínar þangað reglulega síðan og finnst gott að dvelja þarna.  Ég reyni auðvitað að bregða upp sannferðugri mynd af þessu landsvæði og staðarháttum en allt lýtur að lokum lögmálum skáldskaparins svo hús og hæðir færast úr stað og hlutföll breytast, svona innan marka hins mögulega.“

Ég þarf á skriftunum að halda

Hvernig hefurðu þróast sem rithöfundur þegar þú lítur um farinn veg – 25 árum frá útgáfu fyrstu bókar þinnar?

„Ætli ég sé ekki einna síst í stakk búinn til að geta metið það af einhverju viti.  Mig grunar þó að ég hafi þróað stíl og alla meðferð á tungumáli á þessum aldarfjórðungi, strúktúr og frásagnartækni, skilning minn á mannlífinu yfirleitt.  Þetta gerist auðvitað bæði meðvitað og ómeðvitað því þroskinn á síðunum hlýtur að miklu leyti að haldast í hendur við þroska manns sem persónu og um hann er ég kannski ekki dómbær. En þetta er eins og svo margt annað, maður er endalaust að læra eitthvað nýtt og reyna að gera það betur sem maður hefur  þegar lært, endalaust að viða að sér efni og öðlast yfirsýn, og reyna að skapa á síðunum persónur og sitúasjónir sem eiga eitthvert erindi við lesendur.“

Hvað var það sem dró þig að skrifum til að byrja með?

„Einhver skrítin þörf sem ég fór að finna fyrir á unglingsaldri og neitaði að víkja þótt ég reyndi að ýta henni til hliðar.  Ég held að það fari enginn út í þetta af annarri ástæðu. Ég ólst upp á bókmenntaheimili, pabbi var rithöfundur, svo ég vissi hvað ég var að fara út í, mér duldist ekki að það þarf að hafa fyrir þessu. En ég get ekki sagt að ég hafi nokkurn tíma séð eftir því.  Ég þarf á skriftunum að halda.“

Hefur faðir þinn haft áhrif á þig sem rithöfund?

„Ég lærði auðvitað margt af pabba og bý að því að hafa alist upp á heimili hjóna sem voru húmanistar og áhugafólk um menningu og listir.  Ég kynntist því líka sem barn hvað starf rithöfundar gengur út á, vinnubrögðum og aga, umgengni við tungumál og fólk, bæði raunverulegt og það sem á heima í bókum og lifir svo í hugum lesenda.“

Og skrifin, þau eru nauðsynleg?

„Ja, það er eins og manni finnist eitthvað vanta þegar maður er ekki með eitthvað í gangi. Eins og maður sé hálf næringarlaus.  Svona er maður nú skrítinn.“

Viðtal: Davíð K. Gestsson. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson