Vigdís Grímsdóttir

„Við búum þegar við þrúgandi ofríki og höfum gert alltof lengi og það er einmitt þetta ofríki sem fer sífellt vaxandi í heiminum þótt við kærum okkur kannski ekkert um að sjá það,“ segir Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur, í viðtali við Sögueyjuna.

Vigdís Grímsdóttir„Við búum þegar við þrúgandi ofríki og höfum gert alltof lengi og það er einmitt þetta ofríki sem fer sífellt vaxandi í heiminum þótt við kærum okkur kannski ekkert um að sjá það,“ segir Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur, í viðtali við Sögueyjuna.

Nýjasta skáldsaga Vigdísar, Trúir þú á töfra?, gerist í innmúruðu þorpi undir glerkúpli, í nálægri framtíð á óþekktum stað á Íslandi. Innan veggja þessa afgirta þorps fer fram tilraun til að skapa fyrirmyndarsamfélag undir harðri ógnarstjórn. Íbúarnir, sem eru ýmist lokkaðir með gylliboðum eða fluttir nauðugir til þorpsins, eiga að setja á svið leikrit þar sem hverjum og einum er skipað í ákveðið hlutverk, en tilgangurinn með verkinu er óljós þvinguðum þátttakendum þess. „Ég gekk eins langt og ég komst með lýsingum á ofurvaldi og kúgunareðli með jafn ljóðræna og vondigra stelpu sem aðalpersónu,“ segir Vigdís um stúlkuna sem leiðir lesandann um tilveruna undir kúplinum. Hún er nafna skáldkonunnar Nínu Bjarkar Árnadóttur og í henni er fólginn eini vonarneisti þorpsins um frelsi.

Lesendur höfðu mátt bíða lengi eftir nýrri skáldsögu frá Vigdísi og viðtökurnar voru ekki af verra taginu þegar hún leit dagsins ljós fyrir síðustu jól. Gagnrýnendur jusu stjörnum yfir Trúir þú á töfra? og fyrir skemmstu hlaut hún Menningarverðlaun DV, þar sem í umsögn dómnefndar sagði meðal annars að Vigdís hafi „einstakt lag á að segja sögur sem taka sér bólstað í hjartanu. Þessi kristaltæra saga leiðir lesandann á vit margslunginna ævintýra.“

Frásögn bókarinnar er fallega ljóðræn, en felur í sér ógnvekjandi framtíðarsýn um þrúgandi tilveru og óljósan lífstilgang undir gerræðisstjórn. „Í raun og veru er auðvelt að segja að sagan fjalli um illan heim, að eðli hennar tilheyri einhverskonar ýkjum og ofuráherslum,“ segir Vigdís. „En í hinu stóra raunsæja samhengi er hún bara einföld lýsing á grábölvuðu óréttlæti og valdníðslu þeirra sem ráðin hafa í hendi sér og hika ekki við að eyða þeim sem lofa þá ekki. Það þarf svo sem ekki að gá langt til að sjá það gerast og það er ekki að gerast í komandi framtíð heldur einmitt núna. Já, ég sé fulla ástæðu til að óttast fasisma dagsins í dag og dagsins á morgun líka.“

Í þessu samhengi má ræða um áhrif þverrandi lesturs barna, sem hefur verið á milli tannanna á fólki að undanförnu. Því hefur verið haldið fram að minnkandi læsi þýði grynnri umræðu, sem leiðir til veikara lýðræðis og verra samfélags. Tekur þú jafn djúpt í árinni?

Trúir þú á töfra?„Lýðræðið stendur á brauðfótum. Hinn vinnandi maður sem lifir lífi sínu frá degi til dags hefur sífellt minna að segja um þetta líf sitt og þótt hann tjái sig og láti í sér heyra er ekki á hann hlustað. En það er í eðli hans að þekkja sinn vitjunartíma, rísa upp og krefjast réttar síns. Sú uppreisn verður gerð af læsum mönnum á það tungumál sem þá verður talað. Hvort það verður tungumál sem lesið er frá orði til orðs á bók eða í blaði eða öðrum miðlum skal ég ekki segja; en þangað til verðum við að vera sem læsust á allt umhverfi okkar og menningu og þar kemur skáldskapurinn í hvaða formi sem er að góðu gagni. Ólæsið er einsog það hefur alltaf verið í þágu þeirra sem engu vilja breyta. Ég held að sú vísa verði aldrei of oft kveðin að í vel læsum náunga felist gríðarlegt afl og mikill breytingarmáttur; það ætti að leggja áherslu á það afl og þann mátt í allri hvatningu til fólks sem nennir ekki að lesa.“

Var verkið erfitt í smíðum?

„Nei, það var í sjálfu sér ekki erfitt í smíðum, en það var lengi á leiðinni, og það varð til með löngum hléum og alls kyns útúrdúrum og frammígripum og ritstíflum og öllu sem nöfnum tjáir að nefna sem gat truflað meðgöngu einnar bókar. Þetta var tíu ára ferli sem var fullt af leit og pirringi og endalausum hamagangi og truflunum; en þegar ljóðin hennar Nínu Bjarkar Árnadóttur komu loksins, og fundu sér farveg og samhljóm í stelpunni sem segir söguna, þá rann verkið sína leið og sköpunin varð bara full af léttleika og hamingju – sem er kannski ekki nema von þar sem höfundurinn trúir ekki á neitt annað en ljóðið og ímyndunaraflið.“

Þar sem friðurinn er

BíbíBók Vigdísar um spákonuna Bíbí Ólafsdóttur kom út á þýsku í fyrra og var hún því á meðal þeirra fjölmörgu rithöfunda sem komu út í Þýskalandi í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt í fyrra. Hún rifjaði upp samstarf sitt við þessa merkilegu konu.

„Mér fannst fjarskalega gaman að vinna með þeirri góðu konu Bíbí og ég er viss um að bókin um hana mun redda sér á hvaða tungumáli sem er. Ég fann aldrei fyrir því að ég væri í neinu hlutverki þegar við vorum að vinna saman, við stikuðum þetta skref fyrir skref einsog þær systur sem við vorum og erum.

 Ég held reyndar að þetta sé einstök reynsla. Þetta var heppni sem einungis hendir mann einsog mig einu sinni á öld. Bíbí verður alltaf rödd sem ég heyri í brjósti mínu. Þetta er nefnilega allt saman spurning um sköpunarmáttinn og leiðina frá höfðinu til handarinnar og okkur Bíbí leið vel á þeirri leið.“

Vigdís hefur undanfarið dvalið á Ströndum og sinnt þar kennslu, þar sat hún einnig við skrif Trúir þú á töfra?. Hún hefur því sótt aftur í kyrrðina sem bókin varð til í. „Mér finnst best að skrifa þar sem friðurinn er,“ segir Vigdís. „Þar sem sjaldan er von á gestum, þar sem ég þarf að þjóna sem fæstum, þar sem ég get verið sem mest ein með sjálfri mér án alls sem truflar og glepur og eyðir og tryllir og hellt mér í söguna og horfið til þeirra lögmála sem ríkja í henni hverju sinni.“

Lifa gamlar sögupersónur með þér eftir öll þessi ár sem starfandi rithöfundur?

„Já, þær lifa með mér þessar persónur, hver og ein þeirra, og eru á sífelldu stjái og eilífu iði. Auðvitað eru þær misáhugaverðar, miskraftmiklar og misplássfrekar en eiga það samt sameiginlegt að birtast aftur í einni eða annarri mynd og verða allsráðandi á nýjum stað í nýrri bók. Persónurnar mínar eru nefnilega náskyldar hver annarri þótt ólíkar séu um margt; enda koma þær líka frá einni og sömu móðurstöðinni sem er bara ég sjálf sem aldrei mun hafa neina burði til að fela mína innri menn. Það er því kannski réttast að segja að ég elski þær allar jafnheitt, að án einnar þeirra slitnaði keðjan, að þær séu mínar innri tuldrandi sálarraddir.“


Viðtal: Davíð K. Gestsson

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson