Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson lét rækilega í sér heyra síðastliðið sumar með þriðja útgefna smásagnasafni sínu Ást í meinum. Rúnar rifjaði upp sín fyrstu skref sem rithöfundur og ræddi um nýjustu verkin í spjalli við Sögueyjuna.

Rúnar HelgiRúnar Helgi Vignisson lét rækilega í sér heyra síðastliðið sumar með þriðja útgefna smásagnasafni sínu Ást í meinum, sem bókaforlagið Uppheimar gaf út. Nýtt íslenskt skáldverk að sumri til hefur verið sjaldséð skepna í íslensku bókmenntalandslagi, enda ekki oft sem útgefendur leggja í það að framreiða íslenskan skáldskap utan jólavertíðarinnar.

Rúnar Helgi á að baki langan feril sem þýðandi, smásagnahöfundur og skáldsagnahöfundur, sem hófst árið 1984 með skáldsögunni Ekkert slor, en auk ritstarfa hefur hann haft umsjón með ritlistarnámi við Háskóla Íslands. Rúnar hefur hlotið viðurkenningar fyrir störf sín sem þýðandi, og fyrir aðra skáldsögu sína, Nautnastuldur, sem vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 1990, fékk Rúnar tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Smásögur hans hafa einnig vakið athygli og með Ást í meinum þótti gagnrýnendum hann sýna enn og aftur fram á það að hann hafi þetta snúna frásagnarform fullkomlega á valdi sínu.

Sögueyjan átti á dögunum samtal við Rúnar og fékk hann til að rifja upp sín fyrstu skref sem rithöfundur, sem og að ræða um nýjustu verkin. Í ljós kom að þó árið 1984 sé ekki svo fjarlægt (í hinu stóra sögulega samhengi í það minnsta) þá hefur margt óneitanlega breyst. „Mín fyrsta skáldsaga, Ekkert slor, kom út skömmu áður en einkatölvur urðu almenningseign,“ segir Rúnar. „Ég handskrifaði uppkastið á áratugagamalt bréfsefni frá versluninni J.S. Edwald í mínum gamla heimabæ, gult og sjarmerandi. Síðan hamraði ég textann á handknúna ritvél og í lokin var ég í því að klippa og líma því ég nennti ekki að vélrita allt upp aftur ef ég vildi breyta einu orði eða tveimur.“

Aðstæðurnar hljóta að vera þónokkuð frábrugðnar í dag, á tölvuöld?

„Já maður var í stöðugum lífsháska af því maður átti kannski bara eitt afrit,“ segir Rúnar og hlær. „Eins glaður og ég var að eignast mína fyrstu ritvél, þá varð ég fegnastur manna þegar tölvutæknin kom til sögunnar. Ég hef ekki lent í neinum hrakningum síðan tölvurnar komu og finnst þær ýta undir sköpun og vandvirkni, það er svo auðvelt að breyta og bæta.“

En hvað varð til þess að þú ákvaðst fyrst að leggja fyrir þig skrifin?

„Rétt fyrir fermingu braut ég á mér annan sköflunginn þegar ég var á skíðum á Seljalandsdal við Ísafjörð. Meðan ég var að gróa sára minna eignaðist ég mína fyrstu ritvél og lærði á hana. Fyrst kom út úr henni bráðskemmtileg saga um næturgala sem var í vélritunarkennslubókinni en ekki leið á löngu þar til frumsaminn texti fór að streyma út úr henni, greinar og vanburða smásögur. Þetta voru birtingarmyndir sálarinnar, eins konar veggfóður sálarinnar. Eins er það með höfundinn, það er hlutskipti hans að úthverfa sér til þess að aðrir fái séð það sem býr innra með honum og einhverra hluta vegna virðist ég ungur hafa haft mikla þörf fyrir það og hef enn.“

Ég glími stöðugt við það að vera Íslendingur

Sögurnar 15 sem mynda nýjasta verkið, Ást í meinum, eiga það sameiginlegt að kafa inn undir yfirborðið og skyggnast í nánustu samskipti fólks í millum, aðallega á milli para, en þetta söguefni hefur verið Rúnari hugleikið í gegnum allan rithöfundarferilinn. Í sögunum er varpað fram áleitnum spurningum um samskipti, sambúð og samlíf fólks í þeim ólíkum myndum sem þau geta tekið á sig. Bókinni var mætt af almennri hrifningu gagnrýnenda þegar hún kom út, sem veittu því sérstaklega athygli hversu „slípaðar“ og „fágaðar“ sögurnar eru. Gagnrýnandi Fréttablaðsins sagði bókina vera „eitt best heppnaða smásagnasafn sem komið hefur út lengi. Vel byggðar, vel skrifaðar og vel hugsaðar sögur sem snerta lesandann djúpt.“ Og gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf bókinni fjórar og hálfa stjörnu í dómi sínum: „Bókin er sérlega vel skrifuð og vert er að mæla með henni við fólk sem vill lesa áhugaverðar sögur um samskipti manna, m.a. ástina í öllum sínum furðulegu myndum ... Sögurnar eru fjölbreytilegar, stíllinn látlaus og fágaður og útkoman er læsileg bók sem vekur mann til umhugsunar.“

„Sögurnar voru samdar á tólf ára tímabili og sumar hafa gengið í gegnum ýmislegt, jafnvel verið hluti af öðrum handritum um tíma, en aðrar breyttust lítið í ferlinu,“ segir Rúnar aðspurður um ritferlið. „Nýjustu sögurnar, sem breyttust einna minnst í eftirvinnslunni, eru sennilega tálgaðastar. Samt var ég ekkert sérstaklega að hugsa um að tálga þær, heldur einungis um að koma því á framfæri sem þurfti til þess að upplifun lesandans yrði sem tærust og áhrifamest. En ef þær virðast fágaðar má sennilega rekja það til þeirrar miklu stílþjálfunar sem ég hlaut við að þýða nokkra af framsæknustu rithöfundum samtímans, höfunda á borð við Philip Roth, Ian McEwan, Jhumpa Lahiri og síðast en ekki síst J.M. Coetzee sem mér finnst ég hafa lært mest af stíllega.“

Hvað þykir þér um stöðu smásögunnar á Íslandi?

„Það þótti lengi sniðugt hérlendis að tala um smásögur sem einhvers konar aukagetu, eitthvað sem menn dunduðu sér við meðan þeir hvíldu sig á skáldsöguskrifum, töluðu jafnvel um afskurð. Slík afstaða gagnast ekki neinum og íslenskur höfundur sem hefur þessa afstöðu skýtur sig heldur betur í fótinn.

Öll smásagnasöfnin mín þrjú hafa verið svokallaðir sagnasveigar, þar sem sögurnar bindast samtökum, svo lesandinn fær ákveðinn bónus við að uppgötva samfélagið sem þær mynda. Ég geri mér vonir um að þetta milliform muni efla smásöguna á Íslandi. Ennfremur er ég viss um að ritlistarnemar muni eiga þátt í eflingu smásögunnar hérlendis og að útgefendum muni í kjölfarið þykja eftirsóknarvert að gefa út efni í þessu formi og jafnvel selja stakar smásögur í gegnum netið. Það hefur sýnt sig með Ást í meinum að það er hægt að selja bók af þessu tagi, meira að segja að sumarlagi.“

Í einni sögunni koma baðhúsavenjur Íslendinga við sögu með kostulegum hætti, en þær geta virst gestkomandi nokkuð undarlegar (og reynst sumum afar óþægilegar líkt og kemur fram í sögunni). Er íslenska þjóðin á einhvern hátt einnig tekin til skoðunar í verkum þínum?

„Ég glími stöðugt við það að vera Íslendingur. Það er jú svolítið óvenjulegt og sérstakt hlutskipti að búa hérna úti í miðju Atlantshafi og tala tungumál sem nánast engir aðrir í veröldinni skilja. Ég er líka mjög upptekinn af því hvernig menningin mótar okkur í hverju samfélagi fyrir sig, til dæmis sambúð okkar við líkamann og kynhlutverkin. Það sem er eðlilegt í einu samfélagi er forboðið í öðru. Til að sýna þetta læt ég persónur mínar iðulega ferðast í tíma og rúmi og í sumum bókunum mínum eru þær klofvega milli menningarheima í ýmsum skilningi, rétt eins og maður sé eilífur innflytjandi í eigin lífi.“

Rúnar lýsti einmitt óvenjulegu ferðalagi rithöfundar um Ísland, í síðustu skáldsögu sinni Feigðarflan. Rithöfundurinn ber nafnið Egill Grímsson og sækir nafn sitt til Egilssögu. Honum finnst hann hafa mætt miklu tómlæti hjá löndum sínum og ákveður að stytta sér aldur af þeim sökum. „Feigðarflan fjallar vissulega um samband höfundar við samtíð sína,“ segir Rúnar aðspurður um verkið. „Höfundur er í vissum skilningi ekki til ef hann er ekki lesinn því sagnagerð er samstarfsverkefni höfundar og lesanda. Egill leggur því af stað í leit að heppilegum stað til að deyja á en kynnist þá Íslendingum af ýmsum gerðum, fólkinu sem hann hefur með takmörkuðum árangri reynt að ná til. Í kjölfarið verður hann að endurmeta samband sitt við veruleikann og þá ekki síður lesendur sína, hvort sem það á nú eftir að nýtast honum sem höfundi eða ekki.“

Frumútgáfa bókarinnar var tileinkuð þeim sem ekki áttu jeppa. Er það rétt munað?

„Já, bókin var skrifuð í aðdraganda góðærisbrjálæðisins sem var í hraðri uppsiglingu. Þannig fjallar þessi saga um sigur og tap í þjóðfélagi jeppakynslóðarinnar. Þá voru allir stimplaðir minnipokamenn sem ekki bárust á. Egill endar á því að sækja vestur á firði, í fjórðung sem hafði átt í miklum erfiðleikum mitt í góðærinu, og hittir þar fyrir fólk sem á við áþreifanlegri vanda að stríða en hann sjálfur.“

Mörkin milli lífs og listar eru á stundum ansi gegndræp í verkum þínum. Lesendur og rýnendur hafa jafnvel ruglast svo í ríminu að þeim hefur hætt til að leggja þig að jöfnu við sögupersónuna Egil Grímsson?

„Yfirleitt er það þannig að höfundar skapa söguhetjur. Í mínu tilfelli hefur söguhetjan Egill Grímsson þó ekki síður skapað mig. Við munum fara saman á sögunnar vit, hvor sem höfundur hins, því okkur var ruglað saman í nýju íslensku bókmenntasögunni sem kom út fyrir nokkrum árum. Gott ef mér hafa ekki líka boðist störf út á þennan rugling.

Staðreyndin er sú, eins og hinn kunni gagnrýnandi Matthías Viðar Sæmundsson benti á í ritdómi um aðra bók eftir mig, Nautnastuld þar sem Egill Grímsson er einnig aðalpersóna, að það er ekki hægt að fjalla um efni af þessu tagi nema í skáldskap. Það er skáldskapurinn sem gefur okkur leyfi til þess að nálgast innilegustu málefni. Um leið daðrar skáldskapurinn við veruleikann sem veldur því að í smáu samfélagi eins og á Íslandi les fólk skáldskap ekki endilega sem skáldskap. Það er um þetta tvíbenta samband okkar við skáldskapinn sem leikurinn í bókunum um Egil Grímsson snýst.“

Rúnar segir að lokum að landslagið í íslenskum bókmenntum hafi breyst talsvert síðan hann gaf út sína fyrstu bók. „Við erum sem betur fer laus úr kaldastríðshamnum sem batt höfunda í viðjar takmarkandi tvenndarkerfis. Íslenskum glæpasögum hefur vaxið fiskur um hrygg og eru helst til rúmfrekar í bókmenntaumræðunni fyrir minn smekk. Á móti kemur að með auknum stuðningi við rithöfunda höfum við eignast fleiri atvinnuhöfunda með tilheyrandi árangri erlendis. Nú skrifa okkar helstu höfundar ekki eingöngu fyrir íslenska lesendur sem er grundvallarbreyting. Eftir sem áður liggur leiðin að heiminum þó í gegnum hið staðbundna.“