Vilborg Davíðsdóttir

Skip víkinganna hefðu ekki farið langt ef ekki hefði verið fyrir vinnu kvennanna í lífi þeirra, segir rithöfundurinn og þjóðfræðingurinn Vilborg Davíðsdóttir.

„Áskorunin – og ekki síður ánægjan – við vinnuna sem liggur að baki bóka minna felst einna helst í því að grafa upp upplýsingar sem að gagni geta komið til þess að skilja hugarheim horfinnar veraldar,“ segir Vilborg Davíðsdóttir, rithöfundur og þjóðfræðingur. Hún hefur vakið athygli fyrir vandaðar sögulegar skáldsögur sínar þá tvo áratugi sem hún hefur starfað sem rithöfundur. Frá henni hafa komið sjö skáldsögur og í þeim hefur hún tekist á við ólík tímabil sögunnar.

„Margar hugmyndir kvikna við þessa vinnu og eitt leiðir af öðru á óvæntan máta,“ segir Vilborg. „Fyrstu tvær bækurnar mínar skrifaði ég áður en internetið kom til sögunnar og ég varð að stóla eingöngu á bókasafnið en í dag get ég komist í samband við fólk um allar trissur; í gegnum netheima, heimamenn og sérfræðinga á sínu sviði, sem hafa ljáð mér hjálparhönd og vísað mér leiðina áfram í átt að heimildum á sviði sagnfræði eða þjóðfræði, kristni eða heiðni og gefið mér upplýsingar um landslag, örnefni og staðhætti. Í gegnum þessa vinnu hef ég komist í kynni við frábært fólk sem ég hef stundum átt þess kost að hitta þegar ég hef farið á söguslóðirnar. Á Grænlandi kynntist ég til dæmis grunnskólakennara sem hafði veitt mér upplýsingar um grænlensk mannanöfn og merkingar þeirra í gegnum tölvupóst og hann fór með mig á bátnum sínum frá Nanortalik á Herjólfsnes á suðuroddanum sem er óbyggt í dag og engar samgöngur þangað. Það var ógleymanleg upplifun að sjá dalalæðuna liggja yfir nesinu og leysast síðan upp þegar við nálguðumst á bátnum, en þarna var grafin upp kirkjurúst og kirkjugarður norrænna miðaldamanna sem veitti ómetanlegar heimildir um klæðnað fólks á 14. og 15. öld.“

Bækur Vilborgar hafa einnig tekið sig á flug inn í önnur tungumál og var hún á meðal þeirra fjölmörgu íslenskra rithöfunda sem komu út á þýsku á meðan heiðursárinu á Bókasýningunni í Frankfurt stóð. „Það var magnað að fá tækifæri til að upplifa athyglina sem Bókamessan hafði í för með sér fyrir íslenskar bókmenntir,“ segir Vilborg. „Þar hitti ég hóp þýskumælandi lesenda sem hafði þennan líka ótrúlega áhuga á öllu sem íslenskt er og þá sérstaklega sögunni.“

Hvaða merkingu hefur aukin útbreiðsla íslenskra bókmennta fyrir þig?

„Ég skrifa vitanlega fyrst og fremst fyrir íslenska lesendur en það er óneitanlega skemmtilegt að vita til þess að æ stærri hópur fólks getur lesið bækurnar mínar. Á Íslandi býr innan við þriðjungur úr milljón en mér skilst að um 180 milljónir manna hafi þýsku að móðurmáli eða sem annað mál og enskan er auðvitað alþjóðatunga heimsins. Ég hef séð umsagnir á bókaverslunum Amazon á netinu frá fólki frá fjölda landa um sögurnar mínar og það er dálítið skrítin tilfinning að lesa um ánægju lesanda á Indlandi með bókina Galdur sem gerist á 15. öld norður í Skagafirði. Enn undarlegra verður það líklega á næsta ári þegar sú bók, sem er titluð On the Cold Coasts á ensku, kemur út í Egyptalandi á arabísku.“

Saga Auðar djúpúðgu

Í tveimur nýjustu bókum Vilborgar, Auði og Vígroða, hefur hún sagt sögu Auðar djúpúðgu. Þó hér sé um að ræða þekktustu landnámskonu Íslandssögunnar, eru heimildirnar um Auði af skornum skammti. „Fornritin segja þó frá því að Auður hafi búið á norðurhluta Skotlands áður en hún kom til Íslands seint á níundu öldinni og að Ketill flatnefur, faðir hennar, hafi verið höfðingi í Suðureyjum sem Bretar kalla Hebridean Isles,“ segir Vilborg. „Maður hennar, Ólafur hvíti, var herkonungur yfir Dublin á Írlandi og er talinn hafa komið frá eynni Mön og var undir yfirráðum manna úr Noregi.“

Hvað hefur helst komið þér á óvart við rannsóknarvinnuna?

„Þegar ég fór að skoða þessi landsvæði á kortum og ferðast þar um til að undirbúa skrifin kom það mér verulega á óvart hversu gríðarlega mörg örnefni norrænir menn hafa skilið eftir á þessum slóðum, bæði eyjunum norðan og vestan til og á Skotlandi.

Sömuleiðis varð ég undrandi á því hversu oft Ólafs Dyflinnarkonungs er getið í írskum og skoskum annálum frá 9. öld. Ólafur barðist bæði við Íra og með Írum sem gerðu sumir við  hann mislanglíf bandalög og einnig við aðra norræna höfðingja, meðal annars mann sem hét Ketill flatnefur og hefur líklega verið faðir Auðar, og gerði hann afturreka úr hernaði á Írlandi. Ólafur sigldi síðan frá Dublin til Skotlands árið 866 með flota víkingaskipa og gerði þar innrás, tók fólk herfangi og skattlagði íbúana. Þetta er á sama tíma og Danir lögðu undir sig norðurhéruð Englands og Alfreð mikli varð konungur syðri hluta landsins. Þá náði Ólafur hvíti á sitt vald mikilvægu virki í Strathclyde árið 870 og sigldi þaðan til Dublin með mikið herfang og fjölda þræla á tvö hundruð skipum.

Þótt þessi maður hafi aldrei sjálfur komið til Íslands þá er hann forfaðir stórs hluta þjóðarinnar því fimm börn Þorsteins rauðs, sonar Ólafs og Auðar, komu með henni hingað. Eiginlega finnst mér með ólíkindum hversu lítið við Íslendingar vitum um þetta fólk og hvað var búið að ganga á í lífi þeirra áður en þau létu í haf og stefndu út í óvissuna á hjara veraldar. Okkur er sagt frá Haraldi hárfagra og yfirgangi hans í Noregi en gleymum því að stór hópur landnámsfólks kom hingað frá Bretlandseyjum, önnur og þriðja kynslóð norrænna landnema þar, sem höfðu þá að einhverju leyti blandast innfæddum og í hópi þeirra var vitanlega einnig hertekið fólk sem var í ánauð.“

Fyrri bók þín um Auði djúpúðgu má lýsa sem þroskasögu konu á víkingaöld. Hvar tekur þú upp þráðinn í Vígroða?

Vígroði hefst ellefu árum eftir að fyrri bókinni lýkur, haustið 865. Auður er fráskilin og býr með ellefu ára gamlan son sinn á Katanesi á norðausturodda Skotlands á eigin jörð og hefur ekki haft samskipti við fólkið sitt í Suðureyjum í þessi ár af ótta við að karl faðir hennar gefi hana aftur í hjónaband einhverjum bandamanni sínum. Hún heldur þó í heimsókn á heimaslóðir þegar bróðir hennar kvænist dóttur Ingólfs Arnarsonar og Hallveigar Fróðadóttur. Á þessum tíma er Ísland nýlega fundið af Naddoddi sem villtist þangað á leið frá Noregi til Færeyja, og fólk er farið að tala um þessa óbyggðu eyju langt norður í hafi, við brún heimskringlunnar. Sögusagnir eru um að þar sé næg veiði í ám og vötnum en óvíst hvort þar sé yfirleitt byggilegt að vetrum, svo nálægt sem þetta er Niflheimi, siglingin löng og ekki einu sinni landsýn að hafa stóran hluta hennar. Miklar ófriðarblikur eru á lofti á Bretlandseyjum og margir seilast eftir völdum á yfirráðasvæði norrænna manna, bæði Manarkonungur, Orkneyjajarl og konungur Skota. Um jól þetta ár bætist Ólafur hvíti, fyrrverandi maður Auðar, síðan í „vargahópinn“ þegar hann gerir innrás í Skotland frá Dublin og þau hittast aftur.“

Skip fara ekki langt án kvenna 

Í bókum þínum hefur þú fjallað um samstuð ólíkra menningarheima, til að mynda milli inúíta og norrænna manna í Hrafninum og milli heiðni og kristni í síðari verkum. Það hlýtur að vera gefandi fyrir þjóðfræðinginn að nálgast þetta efni með skáldskapartólum?

„Það er vissulega kostur að búa yfir þjóðfræðiþekkingunni til þess að geta skrifað sögulegan skáldskap sem verður trúverðugur fyrir lesandanum. Og þar sem þekkingunni sleppir er mér frjálst að geta í eyðurnar og spinna út frá því, nokkuð sem er vitanlega harðbannað meðal fræðimanna. Það má sýna svo margt þegar tveimur ólíkum hópum lendir saman vegna þess að þá get ég fært sjónarhornið á milli þeirra og dregið upp þá mynd sem „við“ höfum af okkur sjálfum annars vegar og hins vegar af „hinum“ og snúið taflinu síðan við. Ég var búin að skrifa fjórar sögulegar skáldsögur þegar ég ákvað að sækja mér þjóðfræðimenntun í Háskóla Íslands fyrir áratug og kom því inn í fræðin þokkalega vel lesin í þessum efnum á eigin vegum. En fræðilega nálgunin opnaði mér nýja sýn á manneskjuna og allar hennar aðskiljanlegu náttúrur, siði, þjóðtrú og sagnahefð. Auk þess sem ég gat valið mér námskeið sem féllu að áhugasviði mínu í hvert sinn í skáldskapnum, hvort sem það var menning inúíta, goðsögur Snorra-Eddu eða álfatrú Íra og Skota.“

Þú hefur einnig beint sjónum að afskiptum hluta í sögu Íslendinga, þ.e. sögu kvenna fyrr á öldum. Mætti segja að í bókum þínum sé femínískur þráður?

„Já, eflaust má segja það með réttu. Hlutskipti kvenna á fyrri tímum er mér hugleikið. Á öllum tímum hefur því verið tekið sem sjálfgefnum hlut sem ekki þyrfti að hafa á orði að konur lögðu líf sitt í hættu í hvert sinn sem þær ólu barn, nokkuð sem gerðist jafnvel árlega allt barneignarskeiðið, og vitanlega dóu margar þeirra langt fyrir aldur fram af þessum ástæðum því sýkingar voru algengar og engin ráð við þeim. Frá barnæsku til grafar var til þess ætlast að þær önnuðust aðra og þjónustuðu börn, karla, sjúkt fólk og gamalt. Konur sáu um alla ullarvinnuna, spunnu og ófu hverja flík og ábreiðu, þvoðu, elduðu, mjólkuðu ær og kýr, gerðu smjör og osta, þrifu og svona áfram í það endalausa. Ég held að við sem búum við allsnægtir samtímans getum ekki ímyndað okkur hversu mikið og mikilvægt vinnuframlag formæðranna var. En þegar við flettum í sögubókunum er þeirra varla getið. Þær eru nafnlausar og andlitslausar að baki mönnum sem unnu sín afrek utan heimilisins, fóru í stríð, sigldu um höfin, fundu jafnvel ný lönd. En hefði konan hans Naddodds, sem enginn veit hvað hét, ekki ofið og saumað seglið fyrir skip hans, þá hefði hann ekki farið langt.“