Yrsa Sigurðardóttir

Yrsa Sigurðardóttir, „Glæpasagnadrottning Íslands“, á mikilli siglingu

Frá Við viljum jólin í júlí lá leiðin til Þriðja táknsins. Frá Íslandi

til heimsbyggðarinnar, nú síðast til Arabaheims. Bækur

glæpasagnahöfundarins Yrsu Sigurðardóttur hafa farið sigurför um heiminn.

Yrsa SigurðardóttirÞað er merkilegt að hugsa til þess að Yrsa hóf feril sinn sem barna- og unglingabókahöfundur. Áður en hún sneri sér að blóðugum reyfurum hafði hún skrifað fjörlegar barnabækur og hlotið verðlaun og lof fyrir. Árið 2000 fékk hún Viðurkenningu Barnabókaráðs Íslands, Íslandsdeildar IBBY, fyrir bókina Við viljum jólin í Júlí (1999) og fyrir söguna Biobörn (2003) hlaut hún Íslensku barnabókaverlaunin árið 2003.

Það eru einungis fjögur ár síðan hún kynnti fyrst til sögunnar lögfræðinginn Þóru Guðmundsdóttur í Þriðja tákninu (2005) og hlaut titilinn „glæpadrottning Íslands“, en hún hefur verið fastagestur í jólabókaflóðinu um hvert ár upp frá því. Á þessum skamma tíma hefur henni ekki einungis tekist að vinna hylli Íslendinga heldur virðist heimsbyggðin öll ólm vilja fá að lesa um afdrif Þóru og sakamálarannsóknir hennar.

Yrsa hefur góð tök á glæpasagnaforminu og henni tekst ítrekað að vefa saman spennu og dulúð á áhrifaríkan hátt í bland við kaldhæðna kímni. Ritröðin um Þóru telur nú fjórar bækur, Þriðja táknið (2005), Sér grefur gröf (2006), Aska (2007) og nú síðast kom út Auðnin (2008), en í hverju verki er tekið fyrir sjálfstætt sakamál, hverju öðru dularfyllra. Þóra er aðalsöguhetjan í þeim öllum, en auk hennar kemur við sögu Þjóðverjinn Matthew, fyrrverandi lögreglumaður sem aðstoðar hana við að leysa ráðgáturnar.  

Yrsa nýtir sér menningarsögu Íslendinga í verkunum, til að mynda í Þriðja tákninu þar sem fornsaga Íslendinga og galdrafárið tvinnast saman við nútímamorðmál og í Sér grefur gröf byggir verkið á ráðgátu þar sem þjóðsöguleg minni, á borð við draugagang og útburði, koma við sögu í óhugnanlegu morðmáli. Bækurnar eru þó ekki bundnar við Ísland og Íslendinga þar sem að í nýjasta verkinu, Auðnin, ferðast Þóra til Grænlands að rannsaka dularfull mannshvörf. Í bókum Yrsu spilar einkalíf aðalpersóna stóra rullu, en hún lætur það þó aldrei yfirgnæfa það sem mestu máli skiptir í góðri glæpasögu; spennandi og leyndardómsfull glæpafléttan. Hún blæs fersku lofti inn í skandinavíska glæpasagnahefð þar sem þunglyndið sem einkennir verk kollega hennar víkur fyrir kaldhæðnum tóni.

Yrsa í HelsingborgBækur Yrsu hafa verið þýddar yfir á meira en þrjátíu tungumál, áður en Þriðja táknið kom út á íslensku hafði þegar verið samið um útgáfu á verkinu á 11 erlendum tungumálum, og nú síðast var útgáfurétturinn seldur til Arabesque Publishing Press í Egyptalandi. Verður hún þar með fyrsti íslenski skáldsagnahöfundurinn sem kemur út á arabísku.

Yrsa hefur nýlega vakið mikla lukku í hinum enskumælandi heimi en Sér grefur gröf (2006), í þýðingu Bernards Scudder og Önnu Yates, kom út um miðjan apríl. Jákvæðir dómar um hana hafa birst í stórblöðum á borð við The Independent, The Times og The Guardian þar sem Yrsu er hrósað fyrir hugmyndaríkan óhugnað, magnað andrúmsloft og virðast flestir vera sammála um að hún sé á meðal fremstu glæpasagnahöfunda Norðurlanda um þessar mundir.

Yrsa er fædd í Reykjavík árið 1963 en hún hefur starfað sem verkfræðingur meðfram ritstörfum. Eftir útskrift frá Menntaskólanum í Reykjavík hóf hún nám í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands, sem hún lauk árið 1988. Hún útskrifaðist svo með M.Sc. gráðu frá Concordia University í  Montreal Kanada sömu fræðum árið 1997. Frekari upplýsingar um Yrsu og verk hennar má finna hér.