Kristín Helga Gunnarsdóttir

Kristín Helga Gunnarsdóttir er margverðlaunaður barna- og unglingabókahöfundur. Hún hefur tryggt sér sess meðal fremstu samtímahöfunda Íslands með bókum sem brúa kynslóðabil.

Kristín HelgaKristín Helga Gunnarsdóttir er einn af vinsælustu barnabókahöfundum landsins. Hún er margverðlaunuð og það ekki að ástæðulausu því henni hefur tekist að hrífa með sér yngsta leshópinn jafnt sem þann eldri með galsafengnum frásögnum sem sækja efnistök sín bæði í samtímann og þjóðsagnaarf Íslendinga.

Kristín Helga fæddist árið 1963 í Reykjavík, útskrifaðist frá MR 1983 og stundaði spænskunám við Háskólann í Barcelona 1984 og spænsku við HÍ 1985. Haustið 1987 útskrifaðist hún frá háskólanum í Salt Lake City, í Utah Bandaríkjunum, með BA í fjölmiðlafræði og spænskum bókmenntum. Hún starfaði sem útvarps- og sjónvarpsfréttamaður hjá Íslenska Útvarpsfélaginu 1987-1998, en sneri sér þá alfarið að ritstörfum og blaðamennsku. Kristín Helga er leiðsögumaður og situr í stjórnum Náttúruverndarsamtaka Íslands og Rithöfundasambands Íslands. Á þeim tólf árum sem Kristín Helga Gunnarsdóttir hefur helgað sig ritstörfum hefur hún tryggt sér sess í fremstu röð barnabókahöfunda; í bókum hennar er ávallt vönduð persónusköpun og fimlegar fléttur sem yngsta kynslóðin á auðvelt með að sökkva sér í.

FíasólKristín Helga er afkastamikill rithöfundur og hefur skrifað á annan tug barnabóka. Hún segir í pistli sínum á bókmenntavefnum að stökkið úr fréttamennsku yfir í skáldskapinn hafi ekki verið erfitt; að segja sannar sögur yfir í það að skálda þær, þar sem frásagnir eru hvort eð er alltumlykjandi í daglegu lífi fólks: „Sögur fljúga manna á milli allan daginn og inn í nóttina. Allir eru alltaf að segja sögur. [...] Það þarf bara tvo til; sögumann og hlustanda.“ Hún er meðvituð um hversu kröfuharður markhópur hennar er, til þess að bókstafir og setningar á blaði haldi athygli síkvikra lesenda þarf flétta frásagnarinnar að vera sérstaklega lipur og skemmtileg. Í bókum hennar um Binnu og Fíusól eru kynntar til sögunnar sjálfstæðar og úrræðagóðar stelpur sem lenda í hversdagslegum en þó spennandi ævintýrum sem börn, hvort sem það eru stelpur eða strákar, eiga auðvelt með að samsama sig með. Bækurnar hafa ótvíræðan boðskap þar sem stelpurnar lenda í vanda og læra af því, en boðskapurinn ber skemmtanagildi sagnanna aldrei ofurliði.

Í þakkarræðu Kristínar þegar hún fékk Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir Draugaslóð (2007) sagði hún: „Það er fortíðin sem kennir nútíðinni að stíga inn í framtíðina og því er mikilvægt að við höldum áfram að tína upp gamlar sögur – halda þeim á lofti – færa í nýjan búning og flytja á milli kynslóða.“ Enda hefur Kristín Helga unnið markvisst að því að miðla fornum sagnaarfi til yngstu kynslóðarinnar í bókunum Milljón steinar og Hrollur í dalnum (1999), Strandanornir (2003) og áðurnefndri Draugaslóð, þar sem íslenskum þjóðsögum um drauga, galdratrú og útilegumenn er fléttað fimlega inn í samtímafrásagnir.

DraugaslóðKristín Helga hefur ítrekað látið í ljós andúð sína á niðurnjörvandi stimplum og flokkunum bókmennta, hún segist skrifa bækur sem eigi að brúa bilið milli kynslóða; fjölskyldubækur en ekki barnabækur, og henni tekst það ætlunarverk prýðilega þar sem bækurnar eru ekki bara fjörugar og skemmtilegar heldur einnig vel skrifaðar á vönduðu og líflegu tungumáli sem höfðar til þeirra yngri sem og eldri.

Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir framlag sitt til barnabókmennta. Árið 2008 fékk hún barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins fyrir Draugaslóð og nýlega hlaut hún Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY (The International Board on Books for Young People) á Íslandi á alþjóðlegum degi barnabókarinnar, en þau eru veitt rithöfundum, myndlistarmönnum eða þýðendum sem hafa með verkum sínum auðgað íslenskar barnabókmenntir. Í greinargerð dómnefndarinnar, sem skipuð var bókmenntafræðingum, myndlistarfólki og rithöfundum, sagði að: „Undirliggjandi boðskapur bóka Kristínar Helgu er krafa um að hugsa sjálfstætt og að vera góð og heilsteypt manneskja [...] Kristín Helga hefur eingöngu skrifað barnabækur og hún hefur sannað að góður barnabókahöfundur getur skipað sér í fremstu röð íslenskra rithöfunda.“ Hún hefur hlotið Bókaverðlaun barnanna ítrekað, verðlaun sem börn 6-12 ára veita á bókasöfnum landsins, og árið 2001 fékk hún Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir bókina Mói hrekkjusvín.