Steinar Sigurjónsson

„Ég hef kvalist líklega ekki ósvipað og Kafka...“

Steinar fór ótroðnar leiðir í skáldskap sínum, í verkum hans kvað við nýjan tón þar sem vikið var frá hefðbundinni frásagnartækni og formgerð. Honum hefur ítrekað verið hampað sem einum fremsta módernista íslenskra bókmennta.

„Fæddist á Sandi undir Jökli. Fluttist úngur til Akraness. Um tvítugt gafst ég upp á að verða tónlistarmaður sem betur fór, og hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi verða. Það var reynt að fá mig til að læra vélsmíði, bátasmíði, kvað svo sem verða vildi. Var um síðir látinn byrja á útvarpsvirkjun í Reykjavík. Var við það starf í nokkrar vikur, en þá gáfust þeir upp á mér; ég er þeim ævinlega þakklátur fyrir það. Stundaði um tíma algeran þrældóm á sjó, síðan lángtum meiri þrældóm í prentsmiðjum, en var ílla séður í starfi og rekinn, sem betur fór. Giftist, eignaðist tvær dætur, fluttist alfarið til Reykjavíkur 1952, en þykir hentugra að lifa utan borgar. Hef lengi lifað við fátækt en á eftir að verða ríkur, ef ég nenni, og nenni.“

Steinar Sigurjónsson 2Svona lýsti rithöfundurinn Steinar Sigurjónsson (f. 1928 ) ævi sinni stuttu áður en hann lést í Hollandi árið 1992. Steinar fór ótroðnar leiðir í skáldskap sínum, festi ekki rætur þau þrjátíu og sex ár sem ritferill hans spannaði, hraktist á milli forlaga eða gaf sjálfur út verk sín: „Ég hef kvalist líklega ekki ósvipað og Kafka, en einhvern veginn tekist að láta penna ljúga af mér hrollinn...“. Hann var einn helsti frumkvöðull í módernískri sagnagerð á Íslandi, í verkum hans kvað við nýjan tón þar sem vikið var frá hefðbundinni frásagnartækni og formgerð.

Fyrstu skáldsögur hans, Skagasögurnar svokölluðu (Ástarsaga, Hamíngjuskipti, Skipin sigla og Blandað í svartan dauðann), hlutu í fyrstu ekki hljómgrunn í bókmenntaumræðu, en í þeim er ráðist harkalega gegn goðmögnun sjómennskunnar, einnar helstu stoðar íslenskrar sjálfsmyndar á þeim tíma sem bækurnar voru skrifaðar. Sögurnar einkennast af endalausu slarki þar sem lýst er frumstæðu, jafnvel dýrslegu og vonlausu mannlífi í íslensku sjávarþorpi þar sem rómantík íslensks sjómannalífs er tætt í sundur: Þrældómur á sjó, smán í landi. Steinar ólst upp við hafið og þekkti vel til þess hvernig það var að búa í sjóaraplássi: „[Ég] horfði á [hafið] daglega af sandinum fyrstu sjö ár ævinnar. Skáldskapurinn krefst þess að grafa upp úr æskunni og öll list hans á rætur að rekja til hennar, trúi ég.“ Eitt sinn munaði minnstu að í hafinu myndi hann enda líf sitt. Þegar Steinar var átta ára gamall var honum bjargað frá drukknun og dreginn meðvitundarlaus upp á land. Þessi atburður hafði djúpstæð áhrif á hann; innan með honum varð klofningur milli listamanns og borgara: „Ég veit ekki hvort við höfum nokkurn tíma náð saman, ég og sá sem drukknaði. Borgarinn Steinar hefur verið harla hallærislegur. Hann hefur oft beðið hinn um hjálp á erfiðum stundum. En hinn varðar ekkert um þennan borgara. Hefur hvorki skilning né áhuga á honum. Og öfugt.“ Segja má að þessi klofningur sé jafnframt meginþráður skáldverka Steinars; borgaralífið andspænis listinni, andstæður efnishyggju og andlegra gilda.

Skáldsagan Farðu burt skuggi (1971) varð fyrsta verk hans til að hljóta almenna náð fyrir augum gagnrýnenda, en haft var eftir Steinari að hann hefði skrifað hana á fjórum til fimm dögum meðan hann dvaldi í þorpi í Norður-Portúgal. Í því verki þótti Steinar sýna það og sanna að hann gæti skrifað agaða frásögn, komið „taumhaldi á efni og aga og fágað sinn mergjaða stíl“, eins og gagnrýnandinn Ólafur Jónsson sagði. Bókin fjallar um tónskáldið Hansa, sem enn hefur ekkert tónverk samið og býr í kofaræksni í Reykjavík ásamt vinkonu sinni. Þegar honum tæmist óvænt arfur festir hann kaup á slaghörpu, hatti og frakka og hefur leit að betra húsnæði. Tónskáldið glutrar smám saman arfinum, tapar slaghörpunni og ókláraðri hljómkviðu sem hann hefur unnið að í hendur glæframanns. Undir lokin er Hansi kominn á götuna, vinkonan farin og kofinn rifinn, og hann spilandi á hnéfiðlu í húsasundum. Í verkinu er sjónum beint að hlutskiptum listsköpunar í samfélagi sem einkennist af einstaklings- og efnishyggju, jafnframt má greina líkindi á milli sögupersónunnar Hansa og Steinars sjálfs í þeim hrakningum og íveruleysi sem lýst er í verkinu.

Steinar Sigurjónsson 2Í þeim verkum sem komu í kjölfar Farðu burt skuggi hvarf Steinar frá flestum einkennum hefðbundinna frásagna, þar má helst nefna skáldsöguna Djúpið (1974), einstakt verk í íslenskum bókmenntum sem og í samhengi við annað sem Steinar hafði áður skrifað. Í bókinni fer lítið fyrir rökrænum söguþræði, það gerist að mestu neðansjávar og segir af dreng sem dáið hefur tvisvar og kafar eftir skipsflökum. Textinn er ljóðrænn og fylgir sveigjanlegu flæði tónverks í könnun á því sem kann að leynast handan tungumálsins og röklegrar skynjunar. Verkið sækir í upplifun Steinars þegar hann komst nærri drukknun sem barn og kallaði hann það sjálfsævisögu sína.

Höfundarverk Steinars er merkilegur kafli í sögu íslenskra nútímabókmennta. Í fyrstu skáldverkum hans má sjá þá ólgu sem bjó undir kyrru yfirborði íslenskrar bókmenntahefðar sem seinna meir átti eftir að komast rót á með þeim módernísku umbrotum sem urðu í íslenskum bókmenntum um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Steinar Sigurjónsson var utangarðsskáld,  frá fyrstu sögu sinni til hinnar síðustu, líkt og svo margir aðrir listamenn sem hlýða ekki valdi hefðarinnar. Bókum hans var oftast mætt af fálæti gagnrýnenda, jafnvel þögninni einni. Loks þegar hann virtist ná jákvæðri athygli var hann horfinn á braut, sýslandi skáldskap sem var enn meira framandi og fjarlægur umræðunni. Eftir lát hans hefur honum þó ítrekað verið hampað sem einum fremsta módernista íslenskra bókmennta.