Guðmundur Óskarsson

„Það þarf minna en stórfellt fjármálahrun til að valda áfalli hjá venjulegu fólki“ segir Guðmundur Óskarsson. Nýjasta skáldsaga hans, Bankster, fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2009 í flokki fagurbókmennta.

Bankster hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin

Bók Guðmundar Óskarssonar, Bankster, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2009 og hafði Sagenhaftes-Island samband við hann skömmu eftir að niðurstaða dómnefndarinnar var orðin ljós. Það kom Guðmundi sjálfum á óvart að hafa unnið verðlaunin þar sem hann var í flokki með fimm vönum höfundum, þar á meðal einum helsta áhrifavaldi hans, Gyrði Elíassyni.

Gagnrýnandi Morgunblaðsins útnefndi bókina á sínum tíma sem ‚bestu kreppubókina‘. Spurður að því hvort hann hafi haft áhyggjur af því að bókin félli í skugga þeirra fjölda bóka sem á einn eða annan hátt tókust á við efnahagshrunið sagði hann svo ekki hafa verið; vinkill verksins hafi orðið til snemma eftir atburðina og að hrunið sjálft hafi í raun verið aukaatriði í bókinni: það þurfi minna til en stórfellt fjármálahrun til að valda áfalli hjá venjulegu fólki. Hann sagðist ennfremur ekki vera hrifinn af kreppubókarhugtakinu þar sem honum þykir það vera  einum of afgerandi flokkun. Hann vonast til að bókin öðlist víðari merkingu eftir að kreppunni lýkur.

Hann heldur skrifum áfram samhliða vinnu sinni í banka og játar að verðlaunin muni hafa einhver áhrif, en það sama megi segja um það að hrasa um gangstéttarbrún: allar uppákomur hafi áhrif.

Guðmundur bætti við að gott væri að hafa þrjú atriði í huga þegar maður vinnur bókmenntaverðlaun:

1.       Að leyfa sér að vera pínu stressaður og auðmjúkur.

2.       Þakka dómnefndinni í ávarpinu

3.       Þakka mömmu sinni prívat.

Efnilegur og sjálfstæður höfundur

Guðmundur Ó - 2

Það kom mörgum á óvart við síðustu tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna þegar skáldsagan Bankster eftir ungan rithöfund, Guðmund Óskarsson, var tilnefnd í flokki fagurbókmennta, þriðja útgefna skáldverk hans. Guðmundur steig fyrst fram sem rithöfundur árið 2007 á vegum ungskáldaforlagsins Nykurs með bókinni Vaxandi nánd – orðhviður, safni sem telur 95 smásögur og örprósa í bland. Bókin þótti bera merki um áhrif frá öðrum rithöfundi sem hefur verið fyrirferðarmikill á sviði íslenskrar smásagnagerðar um árabil, Gyrði Elíassyni, en þótt stíll sagnanna og andrúmsloft þættu draga dám af verkum Gyrðis var ljóst að efnilegur og sjálfstæður rithöfundur var í fæðingu. Í sögunum er litið til hinna smávægilegu atburða hversdagsins og varpað ljósi á fegurðina í þeim ótal smáatriðum sem mynda tilveruna í stærra samhengi, en styrkur sagnanna liggur í því sem látið er ósagt; aðdraganda og eftirmálum sem liggja fyrir utan þá stuttu glefsu sem lesandinn fær að berja augum á síðum bókarinnar, og skapast með því óræð spenna í stuttum frásögnunum.

Hola í lífi fyrrverandi golfara

Árið eftir gaf Guðmundur út bókina Hola í lífi fyrrverandi golfara, og þótti gagnrýnendum hann sýna eftirtektarverða rithæfileika í þessari fyrstu skáldsögu sinni. Einar Falur Ingólfsson hjá Morgunblaðinu gaf henni fjórar stjörnur af fimm mögulegum, sagði frásögnina vera þéttofna og að bókin væri „Vel lukkaður sálfræðitryllir – þótt titillinn gefi eitthvað léttvægara í skyn“. Í upphafi bókarinnar rankar sögumaður við sér, vankaður eftir þokukennda, en afdrifaríka, atburði gærdagsins. Eftir því sem líður á söguna dregst skugginn smám saman af baksviði frásagnarinnar og upp fyrir lesandanum lýkst forsaga sögumannsins og sambandi hans við fyrrverandi eiginkonu og bernskuvin. Hola í lífi fyrrverandi golfara fjallar um tilvistarkreppu ungs karlmanns, vonlausan ástarþríhyrning sem endar með hörmungum og kippir stoðunum undan lífi hans. Guðmundi tekst í verkinu að skapa þrúgandi andrúmsloft, þar sem vanlíðan sögumannsins verður nánast áþreifanleg lesandanum.

Bankster

Bankster_1Guðmundur hefur unnið í banka samhliða ritstörfum undanfarin ár sem hefur vafalaust haft töluverð áhrif á nýjasta verk hans Bankster, en í því er sjónum beint að íslenska efnahagshruninu síumtalaða á einlægan og persónulegan hátt. Þessi viðburður hefur á einn eða annan hátt, og í mismiklum mæli, blætt inn í fjölda skáldverka og fræðirita sem komu út á Íslandi fyrir síðustu jól. Bankster  fellur vissulega inn í þennan nýorðna flokk íslenskra bóka, svokallaðar kreppu- eða hrunbókmenntir, en er hvorki varnarrit kerfis sem kallaði yfir litla þjóð risavaxnar afleiðingar né reiðilestur ungs rithöfundar. Í henni er lýst af mikilli næmni þeim tómleika sem grípur Markús, ungan bankastarfsmann,  þegar hann ásamt sambýliskonu sinni missir vinnuna og öll undirstaða lífs hans og framtíðar verður að engu á haustmánuðum ársins 2008.

Vinur Markúsar stingur upp á því að hann hefji dagbókarskrif til að „halda utan um lífið á þessum trylltu tímum“ og stemma stigu við óumflýjanlegri bölsýni sem fylgir atvinnumissi, þaðan fær frásögnin form sitt en henni fleytir fram í stuttum dagbókarfærslum sögumanns. Styrkur fyrri verka Guðmundar lá að miklu leyti í því sem látið var ósagt, samanber órætt umhverfi og aðstæður sögumannsins í Hola í lífi fyrrverandi golfara og óyrtu ytra samhengi smásagnanna í Vaxandi nánd, í Bankster er sviðsmyndin aftur á móti kyrfilega tengd íslenskum veruleika og forsaga þeirra atburða sem verkið er sprottið upp úr augljós. Bókin er raunsönn lýsing á tilvistarkrísu ungs manns, sem hafði séð framtíð sína baðaða í ljóma, og máttvana viðbrögðum hans við stórfelldu áfalli. Efnahagurinn hrundi á ógnvænlega stuttum tíma, en fall Markúsar er hægt og öruggt. Í sögunni liggur beisk lýsing á því andvaraleysi sem einkenndi útrásarsamfélagið, afleiðingum óhóflegrar bjartsýni og mótstöðuleysis þar sem gert var ráð fyrir óstöðvandi framrás árangurs og velgengni.

Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Árni Matthíasson, sagði bókina vera hreinasta afbragð og útnefndi hana sem ‚bestu kreppubókina‘. Gauta Kristmannssyni, bókmenntagagnrýnanda Víðsjár, þótti ljóst að verkið sýni fram á að ræst hafi úr efnilegum ungum rithöfundi: „Guðmundur Óskarsson hefur meira en kveðið sér hljóðs með þessari skáldsögu sinni. [...] Hann er óhræddur við formið og gerir tilraunir með einfaldri en um leið einlægri frásögn.“ Hann er vissulega eitt af efnilegri ungskáldum Íslands um þessar mundir, eins og tilnefningin til Íslensku bókmenntaverðlaunanna staðfestir. Á stuttum ritferli, sem telur nú þrjár bækur á jafnmörgum árum með greinilegu marki þroskaðs rithöfundar, hefur hann sýnt að hann er vel að heiðrinum kominn.