Hallgrímur Helgason online 

„Ekki eru allir pappírar sem koma frá Íslandi alveg verðlausir“ segir rithöfundurinn og myndlistarmaðurinn Hallgrímur Helgason. Nýjasta bók hans er nýútkomin í þýskri þýðingu.

HH Email (bið að heilsa Grim), 24.febrúar 2010, kl. 20.38

eftir Þorstein J.

Nýjasta skáldsaga Hallgríms Helgasonar rithöfundar, 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp er nýútkomin í þýskri þýðingu hjá forlaginu Klett Cotta í Stuttgart. Af því tilefni fór hann í upplestrarferð til Þýskalands, sem var frábært tilefni til að senda honum tölvupóst þegar heim var komið, með fáeinum spurningum, svona miðsvetrarpróf í allri ringulreiðinni á Íslandi og þar fram eftir götunum.
 

 

Sæll Hallgrímur:

hallgrimur-portrett(Hallgrímur Helgason. Þetta er fremur hversdagslegt nafn í sjálfu sér kannski, trúlega fimmtíu svona nöfn í íslensku símaskránni.) Helgason minnir líka á söguna af því þegar nöfn 11 íslenskra leikmanna voru lesin upp í hátalarakerfi á Evrópuleik íslensks félagsliðs í knattspyrnu. Leikurinn fór fram gott ef ekki í Búdapest, eða Prag, og þulurinn bætti því eftir að hafa lesið upp eftirnöfnin, að það væri skemmtileg tilviljun að hafa 11 bræður í sama félagsliðinu.

Já, fornafnið hefur samt oft vafist fyrir erlendum, einkum í Ameríku, þar sem ég hét ýmist Hal Cream, Al Green eða Hulk Reemer.

,,Ertu nú búinn að segja alveg skilið við myndlistina'' spurði ég þig á bar í Reykjavík í vetur leið. Ég man ekkert hverju þú svaraðir en ritstörfin taka nú mestan þinn tíma nú um stundir. Þú ert nýkominn heim, ef hægt er að kalla Ísland heim núorðið, frekar heimsenda eða hjara veraldar. Þú varst í Þýskalandi og þá hvar nákvæmlega herra minn?

Skrapp til Hamborgar að lesa þar upp á Literaturhaus. Þangað er alltaf gott að koma, góð stemning í sal og fallegt hús, og dírektörinn, Dr. Rainer Moritz, mikill og glaður bókamaður. Skemmtileg blanda af hámenningarlegum intellektúal sem kann allan Proust og lífsins gleðimanni sem þekkir öll Eurovision-lög sögunnar. Ég held svo aftur út þann 7. mars og les upp í Köln (8.3), Salzburg (9.3), Stuttgart (10.3) og Gschwend (11.3), sem er lítið þorp í Schwaben með mikinn menningarlegan metnað.

Þú átt þér eiginlega þrjú líf, skrifar, gerir myndlist og svo er Grim gaurinn alveg sér kapítuli, hann hefur reyndar líka komist á bók, Best of Grim (2004), þar sem renna saman texti og teikningarnar. Það er búinn að vera hálfgerður heimsendir hér á Íslandi síðan í október 2008, og sjálfsagt lengur ef því er að skipta. Ertu að vinna inní þessa geðveiku kreppu á einhverju af þessum sviðum; skrifa, mála, eða skrifa Grims ævintýri um þetta?

Já, þetta hljómar flókið en er í raun enn flóknara, því skrifin skiptast í skáldsögur, ljóð, leikrit, kvikmyndahandrit og blaðagreinar. Myndlistin skiptist í málverk, teikningar og nú síðast ljósmyndir. Grim er hinsvegar sæmilega óklofinn persónuleiki. Það sem ég hef gert við kreppuna er að halda sýningu, "A Expansão islandesas 2009 - Íslenska útrásin 2009", í Reykjavík í okt. 2009, á ársafmæli hrunsins. Þar sýndi ég ljósmyndir af sjálfum mér þar sem ég leik útrásarvíking sem kominn er á endastöð. Útrásin hefur leitt hann alla leið inn í ónefnt Afríkuríki, þar sem hann þvælist um með aleiguna í rifnum Bónus-poka, sefur á ströndinni og betlar á götum úti. Sýningin setti líka þessa blessuðu kreppu okkar í glóbalt samhengi, og spurði spurningarinnar „Hvað er kreppa? Að missa jeppa eða eiga ekki skó?“ Það sem ég er að skrifa núna er stór skáldsaga. Hún er ekki beint um kreppuna en auðvitað skrifar maður öðruvísi eftir hrun, ástandið snertir allt sem við gerum.



Book-Fair-'03Karlakorinn-Heimir
IMG_2916
PLAKAT1plakat2


Þú hefur stundum fengið alveg furðulega dóma í gegnum tíðina: „....ágæt hugmynd hjá höfundi, en bara of langt“ er svona þráðurinn í þessu finnst mér. Þetta er allt að koma skáldasagan þótti frábær, en of löng, Höfundur Íslands bara aðeins of löng, Herra alheimur bókin jafnvel aðeins of langt útí geimnum. Mér finnst styrkur þinn sem höfundar einmitt þessi: skrifa bara óhikað og taka ekki símann þegar ritstjóri bókarinnar hringir með styttingar, svarar ekki pósti. Þetta er svolítið einsog að gagnrýna málara fyrir að mála of stóra mynd, sem þú hefur reyndar gert. Manstu eftir verkinu af Karlakórnum Heimi í Skagafirði sem hékk í Gallerí Sævars Karls, og þeir allir með tölu í sparifötum?

Já, maður á dáldið erfitt með að hætta þegar maður er lagður af stað. Þessi gagnrýni sem þú nefnir heyrist þó mest hér á Íslandi. Þetta er auðvitað lítið land sem stundum á erfitt með að kyngja stórum bitum. Það þýðir samt ekki þar með að maður eigi ekki að hugsa stórt. En stundum verður þetta of mikið jafnvel fyrir mig, eins og þegar ég skammtaði mér 4 vikur til að mála kórinn sem þú nefnir, einmitt þegar ég var í miðjum klíðum að skrifa Höfund Íslands (Vom zweifelhaften Vergnügen, tot zu sein). Ég þurfti að mála 60 portrett á 30 dögum. Auðvitað endaði það með því að sumir fengu "mánudagsandlit". Ég hugsaði samt nokkuð um þessa gagnrýni að bækurnar væru of langar og langaði til að taka mark á henni. Svo tókst mér loks að skrifa bók sem var innan við 300 síður (10 ráð... Zehn Tipps, das Morden zu beenden und mit dem Abwasch zu beginnen á þýsku, en á ensku: The Hitman's Guide to House Cleaning) en þá var kvartað yfir því að hún væri of stutt ...  Þannig að það er alltaf eitthvað að. Nú er ég aftur á leið í doðrantinn. Spurning hvernig því verður tekið.

Þýskaland og Ísland rétt svona að síðustu, Ísland heiðursgestur Bókamessunnar í Frankfurt á næsta ári, það breytir sjálfsagt ekki miklu á mælikvarða heimsins en samt: Þarna erum við með raunveruleg gæði, ekki gegnsæja víxla, allt frá handritunum frá 13.öld til Laxness og Gunnars Gunnarssonar og svo áfram til vorra daga. Er þetta ekki ágætis kynning í sjálfu sér, ef við felum fjallkonuna og frasana um hreina Ísland, besta vatnið og bestu konurnar?

Jú ég held að þetta sé ágætt tækifæri til að sýna að ekki eru allir pappírar sem koma frá Íslandi alveg verðlausir.