Rudolf Simek

Dr. Rudolf Simek, sérfræðingur í bókmenntum miðalda, ræðir um nýjustu birtingarmyndir fornra norrænna guða. Hann hefur skrifað vítt og breitt um aðlaganir nútímadægurmenningar á fornnorrænum bókmenntum.

Rudolf SimekLesandi mánaðarins að þessu sinni er austurríski miðaldafræðingurinn Dr. Rudolf Simek.

Dr. Simek er sérfræðingur á sviði miðaldabókmennta og hefur gefið út fjölda bóka þeim tengdum. Hann hefur meðal annars kannað aðlaganir nútímadægurmenningar á fornnorrænum bókmenntum, allt frá áhrifum Eddukvæða á Hringadróttinssögu Tolkiens til meðhöndlunar víkingaþungarokks-hljómsveita á norrænni miðaldamenningu. Fyrir skömmu kom út bókin Sagas aus Island. Von Wikingern, Berserkern und Trollen (ísl. Sögur frá Íslandi. Af víkingum, berserkjum og tröllum), sem Simek gefur út í samstarfi við Reinhard Hennig, og innheldur hún nýjar þýskar þýðingar á fjórum Íslendingasögum.

Samtal okkar við Dr. Simek bar upp á sama tíma og frumsýning Hollywood-kvikmyndarinnarThor um gervallan heim.Við ræddum við hann um hið nýja hlutverk fornra guða sem hasarhetjur og þau langvinnu og djúpstæðu áhrif sem fornbókmenntirnar hafa á samtímamenningu okkar.

Langlífi guðanna

Það verður ekki hjá því komist þessa dagana að reka augun í Thor - plakatveggspjöld sem auglýsa hollywoodkvikmyndina Thor. Á þeim glittir í annað goð, Óðin, en í bók þinni Mythos Odin segir þú hann vera „tvímælalaust margbrotnasta og mikilvægasta goðið í forngermönskum trúarbrögðum.“ Afhverju hentar Þór betur sem myndasöguhetja heldur en Óðinn?

Satt best að segja er ég ekki svo viss um að Þór sé í raun betri efniviður í myndasöguhetju. Allt frá miðöldum hefur verið dregin upp íronísk og ýkt mynd af honum og í raun má rekja margar birtingarmyndir hans í nútímamyndasögum til 800 ára gamallrar hefðar þar sem honum er lýst sem vöðvastæltum einfeldingi.

Það á hins vegar ekki við um Óðinn, en hann stríðir gegn háðslegum aðlögunum vegna þess hve hann er margslungin sögupersóna. Þó hefur Henning Kure, höfundi myndasagnaraðarinnar Goðheimar, tekist þar nokkuð vel upp. Þór fær þrátt fyrir þetta oft stærri og bitastæðari hlutverk í þessum myndasögum, ekki síst vegna þess hve vel hann hentar sem „hasarhetja“, fígúra sem hefur haldið óskiptri athygli mannfjöldans allt frá Herkúlesi til Tortímandans. Hlutverk sem Óðinn á einfaldlega ekki heima í.

Í skrifum þínum hefurðu rannsakað úrvinnslu víkingaþungarokks-hljómsveita á germönskum menningararfi og hvernig nútímavísindaskáldskapur hefur aðlagað fornnorrænar goðsagnir. Hvað þykir þér um þessa meðferð, verandi miðaldafræðingur?

Ég hef ekkert við það að athuga hvernig farið er með heiðnar goðsagnar í skemmtanaiðnaðinum. Mér þykir það afar ánægjulegt að þær lifi áfram, séu nýttar sem efniviður og veiti innblástur til nýrra skapandi verka, sem eru laus við guðrækna virðingu fyrir germönskum menningararfi. Ég vona hins vegar að með þessu geti ég sýnt hversu vandaðir miðaldatextarnir eru, sem eru oftar en ekki langtum frumlegri en margir nútímatextarnir. Gott dæmi um það er hið hádramatíska en jafnframt drepfyndna kvæði Þrymskviða.

Af víkingum, berserkjum og tröllum

Í bók þinni Sögur frá Íslandi: Af víkingum, berserkjum og tröllum má finna tvær af þekktari Íslendingasögunum, Egils sögu Skallagrímsonarog Grettis sögu, en einnig hinar lítt þekktu Bárðar sögu Snæfellsáss og Egils sögu einhendaogÁsmundar berserkjabana. Afhverju urðu þessar sögur fyrir valinu?

Ég vildi kynna lesendur fyrir Íslendingasögum sem hafa ekki enn orðið kanóníseraðar, samhliða þekktari sögum. Með þeim vildi ég að lesendur kæmust í kynni við það hvernig Íslendingasögurnar sveiflast frá raunsæjum lýsingum á íslensku sveitalífi til frásagna af þjóðsagnaverum og hinni fjarlægu og framandi veröld víkinganna. Sögurnar fjórar eiga það sammerkt að þær fela í sér alla þessa þætti og þema bókarinnar, það sem hélt henni saman, var alltaf „víkingar, berserkir og tröll“. Þessar fígúrur leika ekki stórt hlutverk í lífi okkar í dag,en buðu væntanlega upp á eins konar veruleikaflótta á 13. öld.

Í eftirmála bókarinnar segirðu að mörkin milli hins undraverða og hins raunsæja í Íslendingasögunum séu óljós. Hver er ástæðan fyrir því að þínu mati?

Þau eru óljós vegna veruleikaskynjunar miðaldamanna almennt – og því er það ekki einungis bundið Íslendingasögunum. Í þjóðfélagi þar sem tröll, draugar og lækningarmáttur kristinna dýrlinga eru hluti af hversdeginum, verða mörkin milli raunveruleika og ímyndunar síkvik frá okkar sjónarhorni. Við þetta bætist flutningurinn yfir í bókmenntaformið, samanber á okkar tímum, þegar við horfum á James Bond mynd spyrjum við okkur ekki hvort það sem fram fer á skjánum geti átt sér stað í raunveruleikanum eða ekki. Þetta er bara afleiðing þess þegar atburðir eru færðir í söguform.

Í bókinni má einnig finna kort með yfirskriftinni „Norður-Evrópa samkvæmt norrænum miðaldamönnum“. Á því er Ísland staðsett nánast á miðju kortsins. Er þetta tilviljun, eða varpar þetta ljósi á að Ísland hafi verið eins konar miðpunktur í bókmenntaheimi Norðurlanda á miðöldum?

Já, vitanlega. Fyrir Íslendingum, jafnvel nú á dögum, þá er þessi eyja sem hangir á brún evrópskra landakorta miðpunktur heimsins. Sú skoðun var enn sterkari á miðöldum, því Ísland var staðsett mitt í siglingarleiðum milli Skandinavíu, Grænlands og nýja heimsins sem var fjarlægur landskiki Norðurlanda samkvæmt norrænum miðaldamönnum.

Yfirgripsmikið höfundarverk þitt er til vitnis um gífurlegaþekkingu á íslenskum fornbókmenntum. Hvað er það við þær sem heillar þig?

Áhugi minn á miðaldabókmenntum er ekki einvörðungu bundinn Íslendingasögunum, enda er tímabilið í heild sinni afar heillandi – hvort sem það eru skandinavískar, keltneskar, þýskar eða franskar bókmenntir. Áhuginn er ekki síst sprottinn af því hve mikið er eftir ókannað. Marga texta á enn eftir að þýða og gefa út. Tilhugsunin um að kanna þessa texta – og komast þannig í tæri við líf og lærdóm fólks sem var uppi fyrir þúsund, eða jafnvel bara sexhundruð árum síðan – finnst mér ólýsanlega spennandi.


Viðtal: Thomas Böhm.

Þýðing: Davíð K. Gestsson.

Ljósmynd af Dr. Rudolf Simek: C.H. Beck.