Þór á hvíta tjaldinu

28. apríl, 2011

Þrumuguðinn Þór, eitt lífseigasta goð heiðninnar, fer mikinn í kvikmyndahúsum um þessar mundir. Hann er í aðalhlutverki í fyrsta Hollywoodtrylli sumarsins og í dýrustu kvikmynd Íslandssögunnar Þór í heljargreipum.

Þrumuguðinn Þór fer mikinn á hvíta tjaldinu á þessu ári. Í vikunni verður frumsýnd bandaríska ofurhetjumyndin Thor, byggð á myndasögum Marvelútgáfunnar, og næsta haust mun svo íslenska þrívíddarteiknimyndin Þór – í heljargreipum, dýrasta kvikmynd Íslandssögunnar, frá CAOZ birtast í kvikmyndahúsum víða um heim.

Þór er eitt lífseigasta og vinsælasta goð heiðninnar, fyrr og síðar. Hann var alþýðugoð, dýrkaður víða um Norður-Evrópu sem frjósemisgoð og verndari hins skipulega heims á járnöld og víkingaöld. Norræn goðatrú var, á þeim tíma sem hún var mest iðkuð, ekki bundin einni bók eins og kristin trú og því voru birtingarmyndir ásanna margvíslegar eftir landsvæðum og tímaskeiðum.

ÞrumuguðirÁ þessu ári birtist Þór okkur í tveimur ólíkum myndum; annars vegar sem ljóshært og dramblátt vöðvatröll – utan úr geimi að því er virðist – og hins vegar sem rauðhærður táningur, ómeðvitaður um goðmagn sitt. Lungann af rituðum heimildum um Norræna goðafræði er að finna í íslenskum handritum frá 13. Öld, Eddukvæðum og Snorra-Eddu, og hafa þónokkrar frásagnir af þrekvirkjum þrumuguðsins varðveist þær aldir sem liðið hafa frá skrásetningu þeirra. Ættu þær að nægja í ófáar kvikmyndir enn.

Meðferð myndanna á þessum fornu sögum er nokkuð ólík, enda koma þær úr ólíkum áttum. Úrvinnsla CAOZ á söguefninu er öllu nákomnari upprunalegu frásögnunum heldur en bandaríski sumartryllirinn sem trekkir að bíógesti um þessar mundir, þó vissulega sé þar fært í stílinn. „Það er okkur mikið kappsmál að gera sagnaarfinum góð skil,“ sagði Þórhallur Ágústsson hjá CAOZ í viðtali við Sögueyjuna á síðasta ári, þegar heimasíðu til kynningar á Hetjum Valhallar var ýtt úr vör. Teiknimyndin, sem framleidd er hér á landi, á Írlandi og í Þýskalandi, kemur í fyrstu út á íslensku, ensku og þýsku, en vonir standa til að hún verði talsett yfir á fleiri mál. Handritið kemur úr smiðju rithöfundarins Friðriks Erlingssonar og byggir það á samnefndri bók hans sem kom út árið 2008.

Á vef Sögueyjunnar er væntanlegt viðtal við austurríska miðaldafræðinginn Rudolf Simek þar sem hann ræðir um hið nýja hlutverk fornra Norrænna guða sem ofurhetjur, en hann hefur meðal annars skrifað um aðlaganir á fornnorrænum bókmenntum í samtíma okkar.

 


Allar fréttir

Viðburðaríkt ár hjá Miðstöð íslenskra bókmennta - 8. janúar, 2026 Fréttir

Á árinu veitti Miðstöð íslenskra bókmennta 70 milljónir króna í styrki til bókaútgáfu, innlendra og erlendra þýðinga, ferðalaga höfunda og í nýræktarstyrki. Kynningarstarf erlendis var öflugt og einkenndist af bókamessum, fundahöldum með erlendum útgefendum og gjöfulu samstarfi með þýðendum og sendiráðum. 

Við bjóðum nýtt ár velkomið og hlökkum til komandi verkefna, enn fleiri bóka!

Nánar

24 styrkir veittir til þýðinga á íslensku í seinni úthlutun ársins - 5. janúar, 2026 Fréttir

Veittir voru 44 styrkir að upphæð 17,1mkr í tveimur úthlutunum á árinu; 9 mkr í fyrri úthlutun ársins og 8,1mkr í þeirri síðari.

Nánar

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2025 og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans - 3. desember, 2025 Fréttir

Tilnefnd eru fimm verk í þremur flokkum Íslensku bókmenntaverðlaunanna, auk fimm verka til Íslensku glæasagnaverðlaunanna. Félag íslenskra bókaútgefenda stendur að verðlaununum. 

Nánar

Allar fréttir