Þegar kóngur kom
„Konungskoman var ljóminn, sem varpaði hinum fullkomna skugga yfir sögusvið mitt,“ segir Helgi Ingólfsson, höfundur sögulegu sakamálasögunnar Þegar kóngur kom sem bókaforlagið Ormstunga gefur út, í samtali við Sagenhaftes Island.
„Konungskoman var ljóminn, sem varpaði hinum fullkomna skugga yfir sögusvið mitt,“ segir Helgi Ingólfsson, höfundur sögulegu sakamálasögunnar Þegar kóngur kom sem bókaforlagið Ormstunga gefur út, í samtali við Sagenhaftes Island.
Bókin hlaut Blóðdropann, viðurkenningu Hins íslenska glæpafélags fyrr í sumar. Niðurstaða dómnefndarinnar var í takt við þau viðbrögð sem hún fékk frá gagnrýnendum síðasta haust. „Frumlegasti krimminn,“ sagði Páll Baldvin hjá Fréttablaðinu, um leið og hann lofaði verkið fyrir vandaða aldarfarslýsingu. Hallgrímur Helgason, rithöfundur, sagði bókina vera eina albestu íslensku skáldsögu undanfarinna ára: „Heillandi skáldverk sem sogar lesandann með sér inn í hugarheim nítjándu aldar og heldur honum föngnum. [...] Reykjavík ársins 1874 lifnar við með öllum sínum litríku karakterum, háum og lágum, sem allir bíða komu konungs. Lesandanum finnst hann vera lentur í tímavél sem hann á erfitt með að yfirgefa.“
Stúlka situr í laut með nýfætt barn sitt á brjósti. Í fjarska heyrast drunur frá fallbyssuskotum og fagnaðarlæti; þúsund ár eru liðin frá landnámi Íslands, í bænum gengur mikið á og kóngurinn, Kristján níundi, er í heimsókn vegna tímamótanna. Á augabragði fellur yfir mæðginin skuggi. Stúlkan fær tvö högg á höfuðið og svo „einhvern veginn hvarf allur heimurinn.“ Þegar kóngur kom er sakamálasaga, sviðsett í Reykjavík undir lok 19. aldar og er öðrum þræði ítarlega unnið heimildarit sem varpar ljósi á íslenskt samfélag þarsíðustu aldar. Við sögu koma þekktar persónur Íslandssögunnar úr öllum stigum þjóðfélagsins, allt frá smælingjum til helstu embættismanna, og dregur sagan upp breiða og sannfærandi samfélagsmynd í kringum morðgátuna.
„...og þá tekur skáldskapur minn við“
„Koma Kristjáns konungs var kjörin til að breiða yfir morðsögu,“ segir Helgi. „Svo stór og merkur viðburður var einmitt það sem þurfti til að yfirskyggja morð – það er einmitt af því að morðið ber upp á hinn mikilfenglega komutíma konungs að allt þarf að fara leynt. Morðrannsókn, sem hefði dregið til sín athygli bæjarbúa, hefði verið skandall, ef hún hefði komist í hámæli við þessar kringumstæður.“
Þegar kóngur kom er skáldsaga ofin úr sögulegum heimildum og það liggur bersýnilega heilmikil rannsóknarvinna að baki hennar, en Helgi er sagnfræðimenntaður og hefur til margra ára sinnt kennslu við Menntaskólann í Reykjavík. Við spurðum Helga hversu sagnfræðilega „sönn“ frásögn bókarinnar sé.
Þegar kóngur kom er eins sagnfræðilega sönn og unnt er, innan þess ramma að um skáldsögu er að ræða. Þegar ég hóf ritun sögunnar setti ég mér það markmið að setja ekkert fram sagnfræðilegs eðlis, nema það fengi staðist. Þannig var t.d. gengið úr skugga um augnalit allra þeirra persóna, sem raunverulega voru til og við sögu koma. Ennfremur er fullkomlega öruggt að sagnfræðilegar persónur voru á þeim stöðum, sem um ræðir. Veislan í Glasgow, sem kemur fyrir í síðasta kaflanum, var í reynd haldin, þar voru þeir menn viðstaddir sem nefndir eru og skólapiltar sungu umræddan brag við tröppurnar. Síðan ná heimildirnar ekki lengra – og þá tekur skáldskapur minn við.
Helgi segir það ekki hafa verið erfitt að finna jafnvægið milli sagnfræðinnar annars vegar og skáldskaparins hins vegar.
Í sjálfu sér var auðvelt að finna jafnvægi milli skáldskapar og sagnfræði – það kom af sjálfu sér og er augljóst öllum þeim, sem vel þekkja til efnisins. Það eru bara þeir, sem ekki hafa grúskað jafn mikið í þessum heimildum eins og ég, sem ruglast á því hvað er hér satt og hvað er logið. Annars treysti ég lesendum mínum afar vel til að greina almennt á milli skáldskapar og sagnfræði – ég held að það dyljist engum hvaða meiri háttar viðbætur ég kem með sem skáldskap.
Tímabært að endurmeta þjóðfrelsisbaráttuna
Sögufrægir menn úr þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga eru sumir hverjir sýndir í nýju og oft óvægnu ljósi í bókinni. Í úrskurði dómnefndar Hins íslenska glæpafélags sagði að í sögunni „er aðstæðum þessa fólks lýst og hún minnir okkur á að allir, háir sem lágir, lúta mannlegum hvötum.“ Varstu ekki uggandi vegna viðbragðanna sem það kynni að vekja?
Ég tel löngu tímabært að Íslendingar endurmeti þjóðfrelsisbaráttu sína og kempur hennar. Söguleg dýrlingadýrkun er engum til góðs – þvert á móti held ég að það sé heppilegt að sýna að þessar hetjur okkar höfðu á sér mannlegar hliðar. Ég var aldrei uggandi vegna viðbragða – við hverju átti ég að búast? Eggjakasti? Níu af hverjum tíu, sem lesið hafa bókina og komið að máli við mig, hafa lýst yfir ánægju með hana í heild sinni. Ef til vill um tíu prósent eru ósáttir við endinn – en telja samt bókinni ýmislegt til tekna.
Helgi hefur áður gefið frá sér sögulegar skáldsögur þar sem sögusviðið var Rómarveldi til forna. Það hlýtur að vera ánægjulegt, frelsandi jafnvel, fyrir sögukennara til margra ára að fá að geta í eyðurnar og leggja sögufrægum persónum orð í munn með skáldskapinn að vopni.
Fyrst og fremst er erfitt að setja saman skáldverk byggt á sagnfræðilegum heimildum, sem hægt er að vera sáttur við fræðilega og sem skáldskap. Þetta er snöggtum snúnara en virðist við fyrstu sýn – oft hefur það, sem virðist fyrirhafnarminnst í skáldsögunni, kostað mesta yfirlegu. Ánægjan fyrir gamlan sögukennara felst e.t.v. helst í því að fjölmargir lesendur, ungir sem aldnir, lesnir sem ólesnir, hafa komið að máli við mig og hafa sagst séð Reykjavíkurþorpið í árdaga ljóslifandi fyrir sér og séð nafntogaðar sögupersónur kvikna til lífsins. Það er ánægjulegt og jafnvel frelsandi. Auk þess er skemmtilegt fyrir mig að leysa í skáldsöguformi ráðgátur tengdar konungskomunni, t.d. hvers vegna slysin urðu á dönsku sjóliðunum við fallbyssuskotin á Öskjuhlíð 2. ág. 1874 og hvers vegna Halldór Kr. Friðriksson mismælti sig, þegar hann átti að ávarpa konunginn á Þingvöllum 6. ág. 1874 – en þessar „uppgötvanir‟ mínar geta aldrei ratað inn í sagnfræðirit, því miður.