Blóðdropinn afhentur

24. júní, 2010

Helgi Ingólfsson hlaut Blóðdropann, verðlaun Hins íslenska glæpafélags, fyrir Þegar Kóngur kom. Verðlaunabókin verður framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Þann 18. júní síðastliðinn hlaut Helgi Ingólfsson Blóðdropann, viðurkenningu Hins íslenska glæpafélags, fyrir skáldsöguna Þegar kóngur kom. Verðlaunin voru afhent í aðalsafni Borgarbókasafnsins, en dómefndina skipuðu Anna R. Ingólfsdóttir þýðandi, Ingvi Þór Kormáksson bókavörður og tónlistarmaður og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

bloddropi-islÞað er ekki síst sögusvið Þegar kóngur kom sem hefur fangað athygli bókaunnenda, en bakgrunnur atburðarásinnar er heimsókn Kristjáns IX til Íslands árið 1874. Helgi, sem er sagnfræðingur og kennari í Menntaskólanum í Reykjavík, þykir hafa galdrað fram sérstaklega litríka og skemmtilega mynd af Reykjavík á seinni hluta 19. aldar, þar sem þjóðþekktum einstaklingum á borð við Matthías Jochumsson, Gest Pálsson og Steingrími Thorsteinsson bregður fyrir í misveigamiklum rullum.

Við afhendingu Blóðdropans sagði Anna Ingólfsdóttir að sérstaða og frumleiki efnisins hefði heillað dómnefndina. „Reykjavík birtist fyrir hugskotssjónum þeirra sem kannski eru ekki alltaf að velta fyrir sér sögunni, vegna ítarlegra lýsinga á staðháttum,“ sagði hún meðal annars. „Og ekki spillti að sagan er skemmtileg aflestrar.“

Handhafi Blóðdropans verður svo framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, sem veitt eru af Skandinaviska Kriminalsällskapet (SKS). Árið 2001 var Ísland með í fyrsta skipti og Glerlykillinn hefur tvisvar fallið í skaut Íslendingum, í bæði skiptin Arnaldi Indriðasyni: 2002 fyrir Mýrina og 2003 fyrir Grafarþögn.

Verðlaunabókin kom út hjá Ormstungu 2009.

Aðrar tilnefndar bækur voru:

Fimmta barnið eftir Eyrúnu Ýr Tryggvadóttur
Fölsk nóta eftir Ragnar Jónasson
Horfðu á mig eftir Yrsu Sigurðardóttur
Hyldýpi eftir Stefán Mána
Nektarmyndin eftir Helga Jónsson
Rúnagaldur eftir Elías Snæland Jónsson
Sólstjakar eftir Viktor A. Ingólfsson
Spor eftir Lilju SIgurðardóttur
Svörtuloft eftir Arnald Indriðason

Þetta er í fjórða skiptið sem Blóðdropinn er veittur. Ævar Örn Jósepsson hlaut verðlaunin árið 2009 fyrir Land tækifæranna, Arnaldur Indriðason 2008 fyrir Harðskafa og Stefán Máni 2007 fyrir Skipið.


Allar fréttir

Íslensku bókahönnunarverðlaunin 2025: Tilnefningar - 19. nóvember, 2025 Fréttir

Tilkynnt hefur verið um tilnefningar til Íslensku bókahönnunarverðlaunanna 2025 en það eru Félag íslenskra bókaútgefanda (FÍBÚT) og Félag íslenskra teiknara (FÍT) sem standa að verðlaununum.

Nánar

Þjóðin ver að jafnaði 59 mínútum á dag í lestur samanborið við 69 mínútur fyrir tveimur árum - 13. nóvember, 2025 Fréttir

Í nýrri könnun á lestrarhegðun þjóðarinnar kemur fram að Íslendingar lesa/hlusta að jafnaði 2,3 bækur á mánuði. Tölurnar sýna einnig að dregið hefur úr lestri bóka á öllum formum, þ.e. hefðbundinna bóka, raf- og hljóðbóka. 

Nánar

46 styrkir veittir til þýðinga íslenskra verka - mikill áhugi í Danmörku og Frakklandi - 29. október, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir tvisvar á ári styrki til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál. 50 umsóknir bárust í þessari síðari úthlutun ársins og veittir voru 33 styrkir. Þá voru veittir 13 styrkir til norrænna þýðinga.

Nánar

Allar fréttir