Blóðdropinn afhentur

24. júní, 2010

Helgi Ingólfsson hlaut Blóðdropann, verðlaun Hins íslenska glæpafélags, fyrir Þegar Kóngur kom. Verðlaunabókin verður framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Þann 18. júní síðastliðinn hlaut Helgi Ingólfsson Blóðdropann, viðurkenningu Hins íslenska glæpafélags, fyrir skáldsöguna Þegar kóngur kom. Verðlaunin voru afhent í aðalsafni Borgarbókasafnsins, en dómefndina skipuðu Anna R. Ingólfsdóttir þýðandi, Ingvi Þór Kormáksson bókavörður og tónlistarmaður og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

bloddropi-islÞað er ekki síst sögusvið Þegar kóngur kom sem hefur fangað athygli bókaunnenda, en bakgrunnur atburðarásinnar er heimsókn Kristjáns IX til Íslands árið 1874. Helgi, sem er sagnfræðingur og kennari í Menntaskólanum í Reykjavík, þykir hafa galdrað fram sérstaklega litríka og skemmtilega mynd af Reykjavík á seinni hluta 19. aldar, þar sem þjóðþekktum einstaklingum á borð við Matthías Jochumsson, Gest Pálsson og Steingrími Thorsteinsson bregður fyrir í misveigamiklum rullum.

Við afhendingu Blóðdropans sagði Anna Ingólfsdóttir að sérstaða og frumleiki efnisins hefði heillað dómnefndina. „Reykjavík birtist fyrir hugskotssjónum þeirra sem kannski eru ekki alltaf að velta fyrir sér sögunni, vegna ítarlegra lýsinga á staðháttum,“ sagði hún meðal annars. „Og ekki spillti að sagan er skemmtileg aflestrar.“

Handhafi Blóðdropans verður svo framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, sem veitt eru af Skandinaviska Kriminalsällskapet (SKS). Árið 2001 var Ísland með í fyrsta skipti og Glerlykillinn hefur tvisvar fallið í skaut Íslendingum, í bæði skiptin Arnaldi Indriðasyni: 2002 fyrir Mýrina og 2003 fyrir Grafarþögn.

Verðlaunabókin kom út hjá Ormstungu 2009.

Aðrar tilnefndar bækur voru:

Fimmta barnið eftir Eyrúnu Ýr Tryggvadóttur
Fölsk nóta eftir Ragnar Jónasson
Horfðu á mig eftir Yrsu Sigurðardóttur
Hyldýpi eftir Stefán Mána
Nektarmyndin eftir Helga Jónsson
Rúnagaldur eftir Elías Snæland Jónsson
Sólstjakar eftir Viktor A. Ingólfsson
Spor eftir Lilju SIgurðardóttur
Svörtuloft eftir Arnald Indriðason

Þetta er í fjórða skiptið sem Blóðdropinn er veittur. Ævar Örn Jósepsson hlaut verðlaunin árið 2009 fyrir Land tækifæranna, Arnaldur Indriðason 2008 fyrir Harðskafa og Stefán Máni 2007 fyrir Skipið.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir