Óttar M. Norðfjörð

„Það er einmitt út af hinni barnalegu sýn minni á heiminn að ég skil ekki fólskuverk og illsku, og þess vegna rata þau í bækurnar mínar,“ segir rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð í samtali við Sagenhaftes Island.

„Það er einmitt út af hinni barnalegu sýn minni á heiminn að ég skil ekki fólskuverk og illsku, og þess vegna rata þau í bækurnar mínar.“ Óttar M. Norðfjörð ræðir um nýjustu bókina, flekaskil íslenskra glæpasagna og blá augu.

Óttar M. Norðfjörð

Óttar M. Norðfjörð kom með látum inn á svið íslenskra spennubókmennta þegar hann gaf út bókina Hnífur Abrahams fyrir jólin 2007. Verkið varð metsölubók það árið og við það eignaðist konungsfjölskylda íslenskra glæpasagnahöfunda nýjan meðlim, en hann hefur undanfarið verið titlaður sem „krónprins“ í því samhengi. Með Hnífi Abrahams sýndi Óttar á sér nýja og óvænta hlið, en fram að því hafði hann einkum verið þekktur fyrir allt annað en afþreyingarbókmenntir.

Óttar sleit ungsskáldsskónum hjá jaðarbókaútgáfunni Nýhil, hópi ungra rithöfunda og skálda sem leituðust við að koma róti á íslenskar bókmenntir með beittri samfélagsgagnrýni og tilraunum með frásagnarform. Á þeirra vegum hafði Óttar gefið frá sér krassandi ljóð og skáldsögur, þar sem dregin er upp miður falleg mynd af samtímanum.

Á þessu ári hafa frá Óttari komið tvö skáldverk, sem endurspegla á vissan hátt þessar ólíku hliðar hans sem rithöfundar. Annað þeirra kom út síðasta vor og ber titilinn Örvitinn eða hugsjónamaðurinn – hugleiðing hans um fyrsta áratug 21. aldarinnar í nóvelluformi, þroskasaga skrifuð í nánu samneyti við Birting Voltaires – og fyrir þessi jól gaf hann svo út þriðju glæpasöguna, Áttablaðarósin, pólitískan spennutrylli sviðsettan á eftirhruns-Íslandi sem nú stendur til að kvikmynda.

Spennubækur Óttars hafa vakið athygli utan landsteinanna. Annar reyfari hans, Sólkross, er væntanlegur í þýskri þýðingu á næsta ári, í aðdraganda bókasýningarinnar í Frankfurt, en bókin kemur á næstunni einnig út í spænskri þýðingu ásamt Hnífi Abrahams. Sagenhaftes Island átti nokkur orð við Óttar af því tilefni, þar sem hann ræddi meðal annars um nýjustu bókina, flekaskil íslenskra glæpasagna og blá augu.

Trúin á að allt fari vel að lokum

„Það er engin leið að átta sig til fulls á Óttari Martin Norðfjörð,“  segir einn gagnrýnandinn í dómi sínum um Áttablaðarósina. Það kom vissulega flatt upp á marga, sem lesið höfðu fyrstu verk þín og höfðu fastmótaða mynd af þér sem róttæku ungskáldi í höfði sér, þegar þú gafst út fyrsta reyfarann.  Mættirðu fordómum þegar þú tókst þetta skref í glæpasagnaheiminn?

Kannski eru „fordómar“ full sterkt orð, en mörgum vinum mínum úr rithöfundastéttinni þótti vissulega skrítið að ég hygðist skrifa glæpasögu – sumir héldu jafnvel að ég væri að grínast! Fram að því hafði ég einkum gefið út ljóðabækur, og þá virtust margir halda að ég myndi hreinlega skrifa ljóð það sem eftir væri. En ég hef mjög gaman að því að prófa ný bókmenntaform og nýjar bókmenntastefnur, því mér finnst það auðga mig sem rithöfund.

ÁttablaðarósinHnífur Abrahams var skrifuð í anda Dan Browns, snarpur og alþjóðlegur þriller. Í þeirri nýjustu er sögusviðið bundið við Ísland, áhersla lögð á kjarnmiklar persónur og samfélagsgagnrýnin skarar fram. Er óhætt að segja að þú fetir hér slóðann í átt til skandinavískra glæpasagna frekar en bandarískra?

Ég held að það væri nær lagi að staðsetja Áttablaðarósina á milli þeirrar skandinavísku og bandarísku, því þótt ég leyfi mér hraðskreiða hasarkafla með bílaeltingarleikjum og byssubardögum, í anda amerískra glæpasagna, þá er kjarni bókarinnar samfélagsleg krítík, eins og er aðalsmerki skandinavískra krimma. Þessi blanda þarf ekki að koma á óvart, enda liggur Ísland einmitt á flekaskilum Ameríku og Evrópu.

Í viðtali hjá Víðsjá fyrr á þessu ári, þar sem þú ræddir um Örvitann, sagðistu vera bláeygður í eðli þínu. En víða í skrifum þínum er óneitanlega dregin upp afar dökk mynd af vestrænu samfélagi, þar sem hræsni, ofbeldi og illska grassera. Hopar bjartsýnin þegar þú sest niður við skrifin?

Það gæti hljómað eins og mótsögn að segjast vera „bláeygður í eðli mínu“ og draga síðan upp dökka mynd af heiminum í skrifum mínum, en ég held að svo sé ekki. Það er einmitt út af hinni barnalegu sýn minni á heiminn að ég skil ekki fólskuverk og illsku, og þess vegna rata þau í bækurnar mínar. Og þótt ég eigi það til að skrifa um skuggahliðar heimsins þá er ég í grunninn bjartsýnismaður, því ég trúi að allt fari vel að lokum - eins og í góðri sögu.

Nú hafa spennubækurnar þínar lokkað til sín kvikmyndagerðarmenn í tvígang. Fyrst var rétturinn keyptur að Hnífi Abrahams árið 2007 og nýverið festi annað íslenskt kvikmyndafyrirtæki kaup á réttinum til að kvikmynda nýjustu bókina. Muntu koma að gerð myndarinnar á einhvern hátt?

Stefnan er sú að ég muni koma að skrifum kvikmyndahandrits sem byggir á Áttablaðarósinni, hvort sem ég geri það einn eða í samstarfi við annan handritshöfund. Ég hef sjálfur unnið í margvíslegum kvikmyndahandritum undanfarin ár og hef því örlitla reynslu af þeim heimi, sem er gjörólíkur skáldsagnaheiminum, því þar snýst allt um að tálga mál sitt, vera hnitmiðaður og koma erfiðum hugsunum frá sér í helst einni setningu. Þegar gott handrit liggur fyrir er mínu verki í raun lokið.