Kristín Steinsdóttir

„Ég var að falast eftir hlutum sem voru einfaldlega horfnir,“ segir rithöfundurinn Kristín Steinsdóttir um síðustu skáldsögu sína Ljósu, sem byggir á ævi ömmu hennar. Það var ekki til siðs að ræða um geðsjúkdóma segir hún í viðtali við Sögueyjuna. „Kannski hélt fólk að maður yrði þannig útsettur fyrir  því að verða geðveill sjálfur.“

Kristín SteinsdóttirViðtal: Davíð K. Gestsson. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Óhætt er að segja að skáldsagan Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur hafi verið ein af spútnik bókum síðustu jóla. Viðtökur gagnrýnenda og lesenda voru með besta móti þegar hún kom út og síðan við ræddum síðast við Kristínu, skömmu fyrir áramót, hefur bókin unnið bæði til Fjöruverðlaunanna og Menningarverðlauna DV.

Kristín hefur í nógu að snúast þessa dagana en Ljósu má ennþá finna á metsölulistum íslenskra bókabúða og hún er vinsæl hjá leshringjum hér á landi, sem Kristín heimsækir þegar hún getur til að segja frá og lesa úr henni. Nýverið kom svo út hljóðbókin Leben im Fisch (ísl. Lífið í fiskinum) á vegum þýska forlagsins Supposé, þar sem Kristín segir frá uppvaxtarárum sínum á Seyðisfirði, og vann bókin til fyrstu verðlauna á útvarpsrásinni HR2 sem „hljóðbók mánaðarins“ í apríl. Ljósa er þar að auki væntanleg í þýskri þýðingu á þessu ári en það komst í fréttirnar skömmu eftir útgáfu hennar hér á landi að þýska forlagið C.H. Beck hefði keypt útgáfuréttinn að henni. Við náðum tali af Kristínu og spjölluðum við hana um bókina og hollustu þess að binda sig ekki við eina bókmenntagrein.

LjosaÍ Ljósu kynnumst við hreppstjóradóttur, titilpersónu bókarinnar, sem elst upp á Suð - Austurlandi undir lok 19. aldar. Dregin er upp mynd af lífsglaðri og skapandi konu sem lifir eðlilegu og hamingjusömu lífi framan af ævinni en missir smám saman tökin á tilveru sinni vegna geðveiki. Skáldsöguna byggir Kristín á ævi ömmu sinnar sem þjáðist af geðhvarfasýki. Gríðarmikil vinna liggur að baki bókarinnar, en Kristín hóf að viða að sér efni í hana fyrir  rúmum tuttugu árum síðan. „Ég vildi vera trúverðug án þess þó að skrifa staðreyndasögu,“ segir Kristín aðspurð um rannsóknarferlið. „Ég varð að koma í veg fyrir að ýmis smáatriði úr nútímanum slyppu inn og það kostaði mikla vinnu og yfirlegu. Sveitabúskapur á 19. öld er mér til dæmis fullkomlega framandi, en þetta þurfti allt að stemma til að trúverðugleikinn héldist. Að því undanskildu var náttúrulega stærsti kaflinn geðveikin sjálf – að greina rétt og vel frá henni var grundvallaratriði þegar ég skrifaði bókina; hvernig manneskjunni líður í uppsveiflu og hvernig henni líður á leiðinni niður.

Amma hafði verið dáin í meira en fimmtíu ár þegar ég byrjaði að vasast í þessu og þó fjölskylda mín og fólkið úr sveitinni sem mundi hana svaraði spurningum mínum eftir bestu getu þá var ljóst að ekki hafði verið rætt mikið um sjúkdóminn. Það var einfaldlega ekki til siðs að ræða slík mál. Kannski hélt fólk að maður yrði þannig útsettur fyrir  því að verða geðveill sjálfur. Bara umræðan yrði til þess að kveikja á einhverju.“

Verkfæri ráðaleysisins

En hvernig tókst fólk á við geðhvarfasýki á þessum tíma?

„Auðvitað kom læknir þegar hann var nærri og hann gat hjálpað upp að einhverju marki, hann gat gefið slakandi lyf og svæfandi til að halda sjúklingnum rólegum. Sumir læknar töluðu við sjúklingana, samtalsmeðferð svipuð þeirri sem við þekkjum núna í dag, og ég veit að það gafst vel með hana ömmu mína. En það var nú ekki mikið um  slíkt á landsbyggðinni, því þar var langt í næsta lækni. Þá var sagt að það skipti meira máli að ná í góðan smið því hann gat smíðað dárakistu, eins konar búr sem  fólk var lokað í. Ég  lýsi því  í bókinni. Það skipti því meira máli að ná í smiðinn en lækninn. Þetta er hroðalegt þegar þú hugsar um það.

Þó ég hafi byrjað að vinna bókina upp úr 1990 sé ég samt eftir því að hafa ekki farið  enn fyrr af stað. Ég hafði misst fólk sem hefði getað sagt mér meira t.d. um dárakistuna og jafnvel teiknað hana upp fyrir mig. Ég hélt, eins og barn, að ég gæti gengið að henni einhvers staðar. En þegar ég fór af stað var lítið um hana að finna skjalfest. Ég fór á Árbæjarsafn og bjóst við því að sjá þar dárakistu, en þetta er svo gjörsamlega horfið. Það var ekkert að finna um hana á Læknasafninu á Seltjarnarnesi heldur. Menn horfðu bara á mig spyrjandi: „Dárakista?“ Þannig að ég sá að ég var að falast eftir hlutum sem voru einfaldlega horfnir.“

Hlutum sem fólk vildi helst gleyma?

„Já, þetta var eitthvað sem fólk vildi gleyma og kannski er það skiljanlegt. Þessum kistum var hróflað upp hér heima og þær voru náttúrulega örþrifaráð. Dárakistan var í raun verkfæri ráðaleysisins. Þegar ég byrjaði að skrifa bókina þá varð ég svo reið. Mér fannst hafa verið farið svo illa með ömmu mína, að loka hana inni. En þegar ég skoðaði þetta betur þá sá ég að lífið verður að halda áfram. Þú getur ekki haft einhvern á vakt allan sólarhringinn til að standa yfir sjúklingnum þegar þarf að sinna búskapnum; slá og heyja og guð má vita hvað. Þetta eru náttúrulega bara örþrifaráð. Í einhverjum tilfellum hefur þetta verið gert í fúlmennsku og kannski hefur fólk verið lokað inni of snemma, en ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það. Eins og við vitum þá var búið þröngt á þessum tíma sem hefur vafalítið ýtt undir vandann. Ég held að það sé hverjum manni hollt að hugsa um það hvernig hann myndi bregðast við ef hann þyrfti að hafa hjá sér manneskju sem væri svona veik; hafa sjúkling sem gerir engan mun á  degi og nóttu, hljóðar og syngur og hrópar og kallar, alla nóttina þess vegna.“

„Ég átti bara ekkert að láta  ráðskast með mig.“

Ljósa er þriðja bókin sem þú skrifar með fullorðna lesendur í huga, en þú hefur löngum verið einn þekktasti barnabókahöfundur landsins. Oft er sagt að barnabók þín Engill í Vesturbænum (2002) hafi verið tímamótaverk á þínum ferli. Varð breyting á þér sem rithöfundur þegar þú skrifaðir það verk?

„Þegar litið er tilbaka sést að Engill í Vesturbænum er greinilega undanfari fullorðinsbókanna. Ég  var komin í allt annan fasa  þegar ég skrifaði hana.  Tveimur árum áður en hún kom út flutti ég til Reykjavíkur. Það hefur ekkert með það að gera  hvernig mér leið á Skaga, en ég þurfti á breytingu að halda. Mér fannst ég verða svo frjáls við það að flytja í Vesturbæinn og hafði það alltaf á tilfinningunni að ég svifi; ég gekk ekki, heldur sveif. Ég leigði mér íbúð á 4. hæð yfir Melabúðinni. Horfði út um gluggann á Hallgrímskirkjuturninn öðrum megin, Landakotskirkju hinum megin og út um eldhúsgluggann sá ég til Snæfellsjökuls – sem ég þekkti eins og lófann á mér frá því að ég bjó á Akranesi. Mér fannst ég vera eins og Óðinn í Hliðskjálf; fannst ég sjá um allan heim... þó ég væri bara á fjórðu hæð! Ég fann til svo mikils frelsis og þá verður Engill í Vesturbænum til.“

Í þeirri bók kemur þetta dýpra merkingarlag sem leiðir þig út í skrif fyrir fullorðna?

„Þar leyfði ég mér að gera eitthvað allt allt annað og þora að standa með því. Engill í Vesturbænum er ekkert síður bók fyrir fullorðna en krakka. Ég hafði fundið svo lengi fyrir því að ég vildi kafa dýpra. Þar finnst mér ég loka ákveðnum dyrum og fara yfir á annað stig.

Fyrsta verkið sem ég skrifaði fyrir fullorðna, Sólin sest að morgni (2004), hafði líka verið lengi með mér áður en það kom út. Þetta var tveimur árum á eftir Engli  í Vesturbænum . Í rauninni hafði ég skrifað  söguna margoft í huganum. Til að byrja með kom ég ekki auga á að gera neitt annað en að skrifa fyrir börn. Svo fór mig að langa að skrifa fyrir fullorðna. En þegar ég sýndi forlaginu mínu handritið þótti mönnum þetta vera óþarfabrölt. Búin að vinna til fjölda verðlauna sem barnabókahöfundur. Ætti ég ekki bara að halda mig við það?

Þegar bókin kom svo loks út var ég titrandi af kvíða yfir því að  vera með fullorðinsbók. Þá var ég samt búin að gefa út á þriðja tug barnabóka! Þarna var ég komin á nýjan stað, nýtt umhverfi og bókin fékk rífandi góða dóma. Þó að  þetta  væri taugatrekkjandi, þá er það samt afskaplega skemmtilegt í endurminningunni!“

Hreyfanleiki á milli bókmenntagreina er sem sagt hollur?

„Já, hann er mjög hollur. Í dag mundi ég ekki láta segjast að vera kyrr og stillt. Auðvitað er fullt af fólki sem fer á milli bókmenntagreina og sjálf er ég viss um að ég er ríkari af því að hafa ekki verið  á sama stað alla tíð. Maður getur auðveldlega einangrast með því móti. Þú hugsar öðruvísi þegar þú skrifar fyrir fullorðna, og svo kemurðu bara ferskur  inn þegar þú skrifar næst fyrir börn. Þú batnar við þetta og auðvitað er fullt af rithöfundum sem vinna svona. Ég átti bara ekkert að láta  ráðskast með mig.”