„Nú verði ég að hætta...“

11. nóvember, 2010

Skáldverkið Ljósa hafði leitað lengi, lengi á Kristínu Steinsdóttur áður en það tók á sig mynd. Bókin kom nýlega út hjá Vöku-Helgafelli.

Kristin-Steins„Þetta er verk sem ég er búin að vera ansi lengi að skrifa, milli þess sem ég hef verið að skrifa margt annað,“ segir Kristín Steinsdóttir um skáldsögu sína Ljósu sem kom út hjá Vöku-Helgafelli fyrir stuttu. 

„Ég byrjaði að safna efni í hana fyrir svona fimmtán árum og þetta efni er búið að leita mjög lengi á mig,“ heldur hún áfram. „Ég er að fjalla um líf konu á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Það er mjög ólíkt því i lífi sem við lifum í dag. Lífsbaráttan var svo mikið öðruvísi en hún er núna. Konur höfðu ekki möguleika á menntun upp til hópa. Þær giftu sig og svo voru bara engin frávik leyfð.“

Í Ljósu er því lýst hvernig titilpersónan, sem er listræn og skapandi í eðli sínu, á erfitt með að þrífast í því hefðbundna hlutverki sem samfélagið ætlar henni.

„Þú áttir náttúrulega bara að fæða börnin og ala þau svo upp, hugsa svo um þitt heimili og þinn karl,“ segir Kristín. „Og ef að einhvern langaði til að vera eitthvað öðruvísi þá var engin þolinmæði gagnvart því. Þær eignast náttúrulega endalaus börn þessar konur. Það voru ekki mikil úrræði. Þetta er bara strit og börnin deyja, og þú þarft bara að hafa sterk bein. Ef þú hefur þau ekki, og ef þú hefur löngun í einhverjar aðrar áttir sem passa ekki inn í, þá endarðu á að vera algjörlega komin út á væng.“

Ljosa

„Ég er raunar ekki viss um að karlmenn hafi haft svo miklu meira val,“ bætir hún síðan við. „Sumir höfðu það kannski – þeir sem voru efnameiri og gátu farið til náms og valið sér hvað þeir ætluðu að læra. En það voru ekki margir.“

„Ég vil geta sagt stóra sögu í fáum orðum“

Kristín hefur um árabil verið einn þekkasti barnabókahöfundur Íslands. Barnabækurnar töldu hátt á þriðja tuginn þegar fyrsta skáldsaga hennar fyrir fullorðna, Sólin sest að morgni, kom út árið 2004. Sú næsta, Á eigin vegum,  var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Á eigin vegum var mjög knöpp,“ segir Kristín, þegar henni er bent á að Ljósa taki töluvert meira pláss í hillunni en fyrri bækurnar tvær. „Og Sólin sest að morgni er ennþá styttri. Þannig að ég segi stundum í gríni að nú verði ég að hætta, því ég er á móti löngum bókum. Ég vil ekki skrifa langar bækur. Mér finnst sjálfri knappur texti betri. Og ég er búin að skera mig alveg óskaplega mikið niður, því ég vil geta sagt stóra sögu í fáum orðum. En þetta er svo stór saga að mér tókst ekki að segja hana í færri orðum.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir