Jarðnæði

„Náttúran er góður kennari í auðmýkt því með því að læra inn á hringrásir hennar lærum við mikið um okkur sjálf í leiðinni og getum endurnýjað réttlæti heimsins," segir Oddný Eir Ævarsdóttir. Nýjasta bók hennar, Jarðnæði, hefur hlotið tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna.

Jarðnæði

„Ég tel mig ekki hafa unnið neina sigra og held ekki að líf mitt eða minna sé neitt sérstaklega áhugavert. En ég held hins vegar að öll líf séu áhugaverð og það að komast í gegnum daginn stórslyslaust er í raun sigur,“ segir rithöfundurinn Oddný Eir Ævarsdóttir í viðtali um nýjustu bók sína Jarðnæði.

Bókin er á dagbókarformi og lýsir flandri sögumanns um Ísland og Evrópu í leit að rótfestu og samastað þar sem jafnvægi milli fjölskyldulífs og eigin hugðarefna ríkir. Sagan er pílagrímsför um landið þar sem sögumaður gerir sér far um að komast í nánari kynni við náttúru þess, forfeður sína og um leið sjálfan sig.

Hér er, líkt og í fyrri verkum Oddnýjar, dansað á mörkum sjálfsævisögu og skáldskapar þar sem skilin milli sögumanns og höfundar eru illgreinanleg. Þessi nálgun Oddnýjar hefur orðið til þess að verk hennar hafa oft verið borin saman við sjálfsævisöguleg skrif Þórbergs Þórðarsonar og hefur frásagnarháttur Jarðnæðis rennt frekari stoðum undir þann samanburð.

Tíminn mun svo leiða í ljós hvort hér sé verðlaunabók á ferð, en fyrir hana hefur Oddný hlotið tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna. Leikandi létt og djúphugul frásögnin hefur að auki vakið mikla lukku meðal gagnrýnenda sem hrifust af grallaraskap höfundarins og leit hans að svörum við mikilvægum spurningum.

Að uppgötva skottið...og læra að dilla því

Oddný Eir ÆvarsdóttirOddný segir bókina hafa orðið til útfrá spássíukroti. „Kveikjan að bókinni var líklega lína úr Bréfi um húmanisma eftir heimspekinginn Heidegger þar sem hann segir að tungumálið sé hús Verunnar. Ég hafði strikað mjög fast undir þá setningu og sett mörg upphrópunarmerki út á spássíuna og þegar ég sá það nokkrum árum síðar velti ég því fyrir mér hvað hann ætti við og eins því hvað öll þessi upphrópunarmerki mín ættu eiginlega að þýða.“

Á kilinum stendur orðið ‚dagbók‘, og bygging frásagnarinnar er í samræmi við þann merkimiða. Er hér á ný leikið með mörk sjálfsævisögulegra skrifa og skáldskapar?

„Mér þykir vænt um dagbókina sem bókmenntaform og langaði til að gera tilraun til að skrifa skáldsögu í þeim dúr, rétt eins og ég hef skrifað dagbók frá því ég var lítil, nota  sama stuðið í það. Jú, ég er enn að leika mér með þessi mörk sjálfsævisögu og skáldsögu, mér finnst þau enn vera spennandi og gaman að þenja mörk skáldsögunnar eins og maður mögulega getur.“

Í Heim til míns hjarta lýstirðu innra ferðalagi sögumanns um fortíð og æsku, og nauðsyn þess að núllstilla sig reglulega. Í Jarðnæði fjallarðu um leitina að íverustað – sérherberginu sem einnig er rými samskipta við sína nánustu. Lýsirðu þarna sambærilegri leit að núllpunkti?

„Já, þetta er falleg samlíking. Líklega er það þessi foldun eða jarðbinding sem ég fjalla um í Jarðnæði sem svipar til núllstillingarinnar í hinni bókinni. Og raunar í öllum þessum þremur skáldsögum sem ég hef gefið út er verið að velta fyrir sér rótfestunni, rótarstöðinni, skottinu, ég er að uppgötva skottið og læra að dilla því. Við lifum á endurreisnartímum, erum á núllpunkti á svo mörgum sviðum samtímana og verðum að hugsa allt upp á nýtt. Ég upplifi það bæði sem persónulega áskorun og samfélagslega.“

Á þessu einkar persónulega verki er einmitt líka að finna þjóðfélagslega fleti. Þú hefur beitt þér fyrir verndun náttúrunnar undanfarin ár og þú tekst á við þetta brýna viðfangsefni – samband manns og náttúru – í bókinni, ekki satt?

„Jú, í þessari bók fjalla ég um hringrásir, um árstíðir og æviskeið og hringrásir hugsunar og tilfinninga. Um stöðu okkur í þessari eilífu hringrás og okkar ábyrgð gagnvart henni. Náttúran er góður kennari í auðmýkt því með því að læra inn á hringrásir hennar lærum við mikið um okkur sjálf í leiðinni og getum endurnýjað réttlæti heimsins. Náttúran finnst mér tengjast ástinni og réttlætinu dularfullt sterkum þráðum. Og ég hef jú tengst náttúrunni í gegnum náttúruverndarbaráttuna en líka í gegnum nálgun tónlistar- og myndlistarfólks og svo auðvitað á ferðalögum.“

„Það er svo vandræðalegt að halda að einhver hafi í raun áhuga á því sem maður er að hugsa,“ segir sögumaður bókarinnar. Finnst þér þú sjálf taka áhættu með því að birta skrif af þessu tagi? Hér má líta til franska fræðimannsins Michel Leiris sem kíkir við undir lok bókarinnar – hann var sjálfur höfundur róttækra sjálfsævisagna og sagði á sínum tíma að sjálfsævisöguleg skrif yrðu að fela í sér áhættu.

„Michel Leiris er mér nú alltaf nálægur í anda og mér finnst mjög áhugavert að kanna það áfram í hverju hún felst þessi áhætta sem hann talar um í sambandi við sjálfsævisöguleg skrif. Maður hættir til dæmis á ýmislegt þegar maður birtir skrif sem eru svo nálæg persónulega lífinu og lífi manns nánustu vina og vandamanna. Það eru jú oftast þeir sem telja sig hafa unnið einhverja sigra í lífinu sem skrifa æviminningar eða sjálfsævisögur. Ég tel mig ekki hafa unnið neina sigra og held ekki að líf mitt eða minna sé neitt sérstaklega áhugavert. En ég held hins vegar að öll líf séu áhugaverð og það að komast í gegnum daginn stórslyslaust er í raun sigur. Ég held að það megi segja áhugaverðar sögur um öll lífshlaup og þá kannski skiptir ekki mestu að muna einkunnir og ártöl rétt heldur að reyna að miðla því sanna í hverju lífi á einhvern hátt. Mín áskorun í lífinu er held ég mest tengd sannleikanum og skáldskapnum.“


Viðtal: Davíð K. Gestsson