Bókaþjóðin stendur enn undir nafni; þriðjungur þjóðarinnar las fimm eða fleiri bækur í liðnum mánuði

Ný lestrarkönnun leiðir í ljós að Íslendingar lesa að meðaltali 2,3 bækur á mánuði og hafa tveir þriðju hlutar þjóðarinnar gefið einhverjum bók á árinu.

15. nóvember, 2021

Tölurnar sýna að landsmenn hafa mikinn áhuga á bóklestri og lestur er almennt mikill. Hins vegar er umhugsunarefni að sá hópur, sem les lítið sem ekkert, fari stækkandi.

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við sex aðila á bókmenntasviðinu, gera könnun á bóklestri Íslendinga, áhrif Covid-19 á lestur og fleira. Þetta er fimmta árið í röð sem slík könnun er lögð fyrir þjóðina. 

· Samkvæmt niðurstöðunum lásu karlar færri bækur í ár en í fyrra á meðan enginn munur er á lestri kvenna á milli ára. Meðalfjöldi lesinna bóka er því orðinn jafn mikill eða 2,3 bækur á mánuði og fyrir COVID-19 faraldurinn, en þá fór hann upp í 2,5.

· Marktækur munur var milli aldurshópa. 18-24 ára lásu mun færri bækur en þau sem eldri eru og hefur lestur dregist nokkuð mikið saman hjá þessum hópi samanborið við könnunina í fyrra en þá var ekki marktækur munur milli aldurshópa.

· 68 prósent þjóðarinnar hafa gefið einhverjum bók eða bækur á síðustu 12 mánuðum.

· Hlustun á hljóðbækur er jafn mikil í ár og í fyrra en þá hafði hún aukist mikið milli ára.

· Um 79% svarenda telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi, samanborið við 73% í fyrra.

· Um 58% landsmanna les einungis eða oftar á íslensku en öðru tungumáli.

· Aldurshópurinn 18 til 35 ára les marktækt oftar á öðru tungumáli en íslensku, en aðrir aldurshópar, meðan lesendur yfir 65 ára lesa marktækt oftar á íslensku en þau sem yngri eru.

· Yfir helmingur svarenda fær hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum, um 41% í umfjöllun í fjölmiðlum og um 31% í umfjöllun á samfélagsmiðlum.

· Um 48% landsmanna hafa nýtt sér þjónustu bókasafna á síðastliðnum 12 mánuðum. Um 25% höfðu nýtt sér þjónustu þeirra 6 sinnum eða oftar. Konur nýta sér þjónustu bókasafna oftar en karlar og þau sem eru með 2 eða fleiri börn á heimili oftar en aðrir.

Konur halda áfram að lesa meira en karlar

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar höfðu um 68% svarenda lesið eða hlustað á bók/bækur á síðastliðnum 30 dögum.

Konur lesa fleiri bækur en karlar, eða að jafnaði 3,1 bók og karlar 1,5 bók á mánuði. Dregið hefur úr lestri karla á milli ára á meðan lestur kvenna hefur staðið í stað. Konur lesa og hlusta meira en karlar á allar tegundir bóka, hvort sem um er að ræða hefðbundnar bækur, rafbækur eða hljóðbækur.

Mynd-1

Mynd 1. Niðurstöður fyrir spurninguna „Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.   

Marktækur munur var á milli aldurshópa. 18-24 ára lásu mun færri bækur en þau sem eldri eru og hefur lestur dregist nokkuð mikið saman hjá þessum hópi samanborið við könnunina í fyrra.

Þau sem lokið höfðu framhaldsnámi í háskóla höfðu lesið fleiri bækur en aðrir menntunarhópar. Ekki var marktækur munur eftir búsetu, tekjum, fjölda barna eða stöðu á vinnumarkaði.

Um 78% Íslendinga höfðu lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, um 46% hlustað á hljóðbækur og um 31% lesið rafbækur.

Lestur hefðbundinna bóka er minni í ár en í könnuninni frá 2020, en þá höfðu 83% svarenda lesið hefðbundna bók á síðastliðnum 12 mánuðum í samanburði við 78% í ár.

Hlustun á hljóðbækur hefur hins vegar staðið í stað síðan í fyrra.

Mynd-2

Mynd 2. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu oft eða sjaldan hefur þú hlustað á hljóðbækur á síðastliðnum 12 mánuðum? Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

Marktækur munur var á lestri hefðbundinna bóka eftir aldurshópum og höfðu 55 ára og eldri lesið hefðbundnar bækur oftar en þau sem yngri eru. Þau sem höfðu lokið framhaldsnámi í háskóla lásu oftar hefðbundnar bækur en aðrir menntunarhópar.

Ekki var marktækur munur á lestri á rafbókum á milli lestrarkannana í ár og síðustu tvö ár. Yngsti aldurshópurinn, 18-24 ára les oftar rafbækur en 45 ára og eldri. 

Les þjóðin á íslensku eða öðru tungumáli?

Um 58% landsmanna les einungis eða oftar á íslensku en öðru tungumáli og hefur hlutfallið lítið breyst frá síðasta ári. Um 20% les jafn oft á íslensku og öðru tungumáli, um 20% les oftar á öðru máli en íslensku og um 3% les einungis á öðru tungumáli.

 Mynd-3

Mynd 3. Niðurstöður fyrir spurninguna Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

Aldurshópurinn 18 til 35 ára les marktækt oftar á öðru tungumáli en íslensku, en aðrir aldurshópar, meðan lesendur yfir 65 ára er les marktækt oftar á íslensku en þau sem yngri eru.
Karlar eru einnig marktækt líklegri til að lesa á íslensku en konur og íbúar landsbyggðarinnar lesa frekar á íslensku en þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Einnig lesa þau sem eru með grunnskólapróf frekar á íslensku en aðrir hópar.

Covid-19 og áhrif á lestrarvenjur

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur samkvæmt könnuninni ekki lengur mikil áhrif á lestrarvenjur landsmanna. Nokkur breyting var á lestrarvenjum þátttakenda í fyrra, en svo virðist sem að áhrifin hafa minnkað síðan í fyrra.

Mikilvægi þess að bókmenntir njóti opinbers stuðnings

Meirihluti þjóðarinnar eða um 79%, telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi, en það er aukning frá því í fyrra þar sem 73% töldu það vera mikilvægt.
Konur telja opinberan stuðning mikilvægari en karlar, og íbúar höfuðborgarsvæðisins mikilvægari en íbúar landsbyggðarinnar. Þau sem höfðu lokið námi í háskóla þótti það mikilvægara en öðrum menntunarhópum.

Mynd-4

Mynd 4. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?”. Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.
 

Að þýða erlendar bækur yfir á íslensku

Meirihluti þjóðarinnar, eða 80% er sammála því að mikilvægt sé að þýða erlendar bækur yfir á íslensku og aðeins 4% eru ósammála. Yngstu aldurshóparnir eru frekar ósammála en eldri aldurshóparnir.

Mynd-5

Mynd 5. Niðurstöður fyrir spurninguna „Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu. 

Einnig voru þátttakendur spurðir hvort að þeir hafi gefið einhverjum bók/bækur sl. 12 mánuði. Um 68% svöruðu henni játandi.

Mynd-6

Mynd 6. Niðurstöður fyrir spurninguna Hefur þú gefið einhverjum bók/bækur sl. 12 mánuði?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.Eftirtaldar spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur í könnuninni:

1. Hversu margar bækur hefur þú lesið og/eða hlustað á síðastliðna 30 daga?

2. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á síðastliðnum 12 mánuðum?

3. Lest þú meira eða minna hefðbundnar bækur (innbundnar og kiljur) núna en fyrir Covid-19?

4. Hlustar þú meira eða minna á hljóðbækur núna en fyrir Covid-19?

5. Kaupir þú fleiri eða færri hefðbundnar bækur núna en fyrir Covid-19?

6. Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?

7. Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi á síðastliðnum 12 mánuðum?

8. Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: „Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“

9. Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?

10. Hefur þú gefur einhverjum bók/bækur sl. 12 mánuði?

11. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?

Miðstöð íslenskra bókmennta lét gera könnunina í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands.

Prósent framkvæmdi könnunina og hún fór fram dagana 22. til 31. október 2021.
Úrtak: 1.800 (einstaklingar 18 ára og eldri). Svarendur: 992.
Svarhlutfall: 55%

Hér má nálgast niðurstöður könnunarinnar


Allar fréttir

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir árið 2023 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Hagþenk­ir hef­ur frá ár­inu 1986 veitt viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit, náms­gögn eða aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings og til­nefnir tíu höf­unda og bæk­ur sem til greina koma. Viður­kenn­ingaráð Hagþenk­is, skipað fimm fé­lags­mönn­um, velur verkin.

Nánar

Auglýst eftir umsóknum um útgáfustyrki, þýðingastyrki á íslensku og styrki úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði - 15. febrúar, 2024 Fréttir

Styrkirnir eru veittir útgefendum á Íslandi og er umsóknarfrestur til 15. mars 2024.

Nánar

Allar fréttir