Ein þessara sérvitringa sem hafa komið til Íslands og orðið ástfangin af tungumálinu. Vicky Cribb þýðandi.

Victoria Cribb er einn helsti þýðandi íslenskra bókmennta á ensku og segir hér frá ástríðu sinni á íslenskunni, grúski í gömlum bókum og fjölbreyttum þýðingaverkefnum, í viðtali við Magnús Guðmundsson.

19. október, 2018

  • Vicky-Cribb

Ævintýraheimurinn í norðri

Vicky, eins og hún er alla jafna kölluð, fluttist til Vínarborgar fyrir skömmu og sat við að læra þýsku þegar náðist í hana. „Ef íslenskan er eitthvað að vefjast fyrir mér í þessu samtali þá er það vegna þess að þýskan er að þvælast fyrir mér,” segir Vicky og það leynir sér ekki að það er stutt í húmorinn. Það virðist þó ekki vera nokkur hætta á slíku þar sem íslenskan leikur á tungu Vicky, en aðspurð um hvort að það vefjist ekkert fyrir henni að stökkva svona í nýtt tungumál þá segist hún hljóta að geta lært tungumál sem er nánast án beyginga eftir að hafa tekist á við íslenskuna.

Vicky er fædd og uppalin í Englandi, þeim firnastóra mál- og menningarheimi, en hún segir að það hafi ekki síst verið fyrir tilstilli sögu Bretlands sem hún fór að horfa til norðurs. „Fólk sem talaði forníslensku og fornnorrænu var hluti af samfélagi Bretlandseyja á sínum tíma þannig að þetta er líka hluti af okkar sögu og menningararfi.

„Sem krakki las ég mikið höfunda á borð við Tolkien og C.S. Lewis og fyrir vikið vaknaði með mér ákveðin heimþrá til norðursins – þangað sem ég hafði þó aldrei komið.”

Vicky segir að þessar bókmenntir hafi átt sinn þátt í að hún fór snemma að læra tungumál upp á eigin spýtur, fyrst fornensku, þá norsku og íslensku. „En það var einmitt fornenskan sem kveikti áhuga minn á germönskum málum. Í framhaldinu fékk ég svo mikinn áhuga á nútímaíslensku að það verður eiginlega að flokkast sem árátta,” segir Vicky og hlær við tilhugsunina.

Byrjaði á kvikmyndahandriti

En það er langur vegur á milli þess að hafa brennandi áhuga á tungumáli og að takast á við að þýða fagurbókmenntir. Vicky segir að það sé vissulega svo enda hafi hún ekki lagt upp í íslenskunámið með það í huga. „Ég byrjaði á því að ferðast til Íslands þegar ég var unglingur og háskólanemi í Bretlandi að læra forníslensku. Á ferðum mínum kynntist ég tungumálinu betur og kom svo hingað í háskólanám í íslensku fyrir erlenda stúdenta.

En þegar ég var að ljúka náminu hér þá kom Ágúst Guðmundsson, kvikmyndaleikstjóri, til mín og bað mig um að þýða kvikmyndahandrit. Þetta var handrit um Jörund Hundadagakonung sem var þó aldrei framleitt en var engu að síður ákaflega skemmtilegt fyrsta verkefni og góð reynsla.”

Vicky segir að þetta hafi verið árið 1994 og í framhaldinu hafi hún flutt heim til Bretlands og tekið til við að starfa fyrir BBC við bókaútgáfu í um það bil þrjú ár. Í kjölfarið sneri Vicky aftur til Íslands, fyrst til þess að starfa hjá Iceland Review og svo hjá Eddu útgáfu. „Ég vann við að ritstýra ferðabókum og fór svo aðeins að fikta við að þýða á kvöldin, en það tók í raun langan tíma áður en ég fór í það af fullum krafti.”

Mikilvægt að hitta aðra þýðendur

Síðastliðið haust hlaut Victoria Cribb heiðursviðurkenninguna Orðstír, ásamt Eric Boury, sem veitt er þýðendum íslenskra bókmennta á erlend mál en að Orðstír standa auk Miðstöðvar íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti Forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Verðlaunin voru afhent af forseta Íslands í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík og alþjóðlegt þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Vicky segir að viðurkenning sem þessi sé í senn heiður og mikil hvatning. „En ég er líka þakklát fyrir það tækifæri sem það felur í sér að koma á svona þýðendaþing. Það var ægilega gaman að fá að kynnast öllum þessum þýðendum sem eru að fást við íslenskar bókmenntir. Öllu þessu frábæra fólki sem er að fást við það sama en hvert og eitt yfir á sína tungu. Þetta er fólk sem vinnur mikið í einrúmi og hittir sjaldan kollega, þannig að samkomur sem þessar eru gríðarlega mikilvægar fyrir okkur.

Það er svo spennandi að hitta fólk sem deilir sameiginlegri reynslu í þessum efnum og eitt besta dæmið var að ég hitti marga sem hafa þýtt Mánastein eftir Sjón. Þetta voru þýðendur frá Serbíu, Þýskalandi, Frakklandi og víðar og það er ákaflega gaman að fara yfir hvernig var tekist á við allar þær spurningar sem geta vaknað við það að þýða slíkt verk. Það eru ekki endilega alltaf sömu vandamálin en þau eru þó á ýmsan hátt skemmtilega sambærileg.”

„ ...eitt besta dæmið var að ég hitti marga sem hafa þýtt Mánastein eftir Sjón. Þetta voru þýðendur frá Serbíu, Þýskalandi, Frakklandi og víðar og það er ákaflega gaman að fara yfir þetta hvernig var tekist á við allar þær spurningar sem geta vaknað við það að þýða slíkt verk. Það eru ekki endilega alltaf sömu vandamálin en þau eru þó á ýmsan hátt skemmtilega sambærileg.”

Látlaust og kjarnyrt

Þegar horft er á þýðendaskrá Victoriu Cribb er áberandi hversu fjölbreytt höfundaverk hún hefur verið að takast á við á sínum ferli. En sjálf segir hún að þessi fjölbreytni sé henni ákaflega mikilvæg. „Guði sé lof þá eru þetta ólíkir höfundar vegna þess að ég er alltaf hrædd um að mín rödd slæðist þarna inn. Það væri því að mínu mati leiðinlegt fyrir lesendur ef það væri alltaf sami þýðandi en sem betur fer eru nokkuð margir enskir þýðendur starfandi í dag og það er mjög gott.

Núna er ég t.d. að fást við að þýða Arnald, Yrsu og Ragnar Jónasson og þau eru öll með mjög ólíkan stíl sem ég held að komist alveg til skila. Svo er ég að fást við Sjón og það er alveg gjörólíkt verkefni og mjög heillandi.

Meðal höfunda sem Vicky hefur þýtt verk eftir eru Arnaldur Indriðason, Sjón, Yrsa Sigurðardóttir, Andri Snær Magnason, Gyrðir Elíasson og Ragnar Jónasson.

Að fást við að þýða Gyrði er svo gott dæmi um afar snúið verkefni. Gyrðir skrifar mjög látlausan stíl, sem er fádæma fallegur á íslensku, en er ákaflega erfitt að koma til skila á enska tungu. Þessi kjarnyrti arfur Íslendingasagna getur reynst ansi snúinn þýðingarlega, en á sama tíma felur hann í sér áskorun sem mér finnst í senn spennandi og skemmtilegt að takast á við.”

Landslagslýsingarnar vantar 

Vicky segir að það sé í raun merkilegt hvað það er margt sem íslenskan getur en enskan ekki. „Það er í raun ótrúlegt hvað það vantar mörg orð á ensku þegar þýtt er úr íslensku en þó á enskan að vera með allra mála stærstan orðaforða. Samt vantar ýmis séríslensk og skemmtileg orð eins og frekja og duglegur svo dæmi séu tekin.

„Það er alveg martröð að þýða duglegur,” segir Vicky og skellir upp úr. „En svona er þetta á milli ólíkra tungumála og þetta er einmitt eitt af því sem við vorum mikið að ræða á þýðendaþinginu í fyrra.”

„Sumir voru að kvarta undan orðum og orðasamböndum á íslensku á meðan aðrir voru á því að þetta væri bara ekkert mál á þeirra tungumáli. Þetta lýsir því ágætlega hvað fjölbreytni málanna er mikil og hversu ótrúlega skemmtilegt er að fást við þetta.”

Aðspurð um hvort að það séu einkum orð og orðasambönd sem tengd eru íslenskum lífsháttum á borð við sjómennsku og sveitastörf sem erfitt sé að eiga við, segir Vicky að það sé ekki endilega tilfellið. „Það hefur einfaldlega ekki verið mikið um slíkt í þeim verkum sem ég hef verið að þýða upp á síðkastið. En ég held engu að síður að útlendinga hungri í slíka hluti og vilji til að mynda fá meiri landslagslýsingar. En það tíðkast ekki miklar landslagslýsingar í íslenskum bókmenntum einfaldlega vegna þess að allir vita hvernig landslagið lítur út. Stundum þarf því að bæta slíku aðeins inn í enskar útgáfur íslenskra verka og biðja höfundana um að aðlaga þetta aðeins. Þannig að maður er ekki alltaf að fást bara við beina þýðingu heldur að hjálpa verkinu að komast til skila með sem bestum hætti og það getur svo sannarlega verið skapandi og skemmtilegt starf.”

Skemmtilegast að þýða verk sem gerist í fortíðinni á Íslandi 

Vicky segir að það sé margt að finna í íslenskum bókmenntum sem Bretar þekki vel frá til að mynda Skotlandi og víðar sem auðveldi starf hennar. Hún hafi þó gaman af því að takast á við áskoranir og skemmtilegast af öllu sé að þýða verk sem gerist í fortíðinni á Íslandi. „Ég þýddi til að mynda Skugga-Baldur sem gerist á nítjándu öld uppi í sveit á Íslandi og Rökkurbýsnir sem gerist á 17. öld. Að koma því til skila var frábært verkefni, enda elska ég að grúska í gömlum bókum á ensku í leit að rétta orðaforðanum. Þar næ ég að sameina áhugmál mín því ég er líka sagnfræðingur að mennt.

En svo öfunda ég til dæmis Philip Roughton sem þýðir Jón Kalman og þarf að þýða lýsingarnar á sjávarháttum og verbúðum liðins tíma,” segir Vicky og bætir við að það sé auðvelt að gleyma sér við slík verkefni. „Ég var einu sinni heilan dag að leita að orði yfir eitthvað sem er að finna á litlum báti, þetta var einhverskonar þverslá á siglutré og ég man hvað ég hafði gaman af leitinni sjálfri, en maður þarf reyndar að hafa góðan tíma þegar svo ber undir.”

„Ég er sem sagt ein þessara sérvitringa sem hafa komið til Íslands og orðið ástfangin af tungumálinu. Þetta er draumastarfið mitt.”

Núna hefur önnur hver manneskja komið til Íslands

Aðspurð um stöðu íslenskunnar og þá sérstaklega gagnvart enskunni, segir Vicky rétt að hafa í huga hversu mikil viðhorfsbreyting hefur átt sér stað hjá Bretum gagnvart Íslandi. „Það skiptir nefnilega líka máli fyrir íslenskuna til lengri tíma litið hvernig þeir sem tilheyra enskumælandi heimi horfa til Íslands. Í dag fara margir til Íslands en þegar ég fór þangað fyrst árið 1984 þá voru þetta afskaplega fáir, kannski einhverjir fuglaskoðarar og jarðfræðingar. En núna segir önnur hver manneskja sem ég hitti að hún hafi komið til Íslands og fundist það alveg æðislegt. Þannig að Ísland er virkilega búið að slá í gegn og þar með hefur það líka gerst að myndast hefur meiri markaður fyrir íslenska menningu. Þetta er eitthvað sem er mikilvægt að nýta íslenskunni til framdráttar.

En á sama tíma þá verð ég hrædd um framtíð tungumálsins þegar ég kem til Íslands í dag og sé enskuna alls staðar. Ég heyri líka unga Íslendinga tala ensku sín á milli og það finnst mér satt best að segja alveg hræðilegt,” segir Vicky og það leynir sér ekki að hún hefur áhyggjur af þessari þróun og lætur sér afar annt um íslenskuna.

Ánægjan fólgin í íslenskunni sjálfri

Hún bendir á að hvað hana snertir persónulega þá sé ánægjan af þýðendastarfinu fyrst og síðast fólgin í íslenskunni sjálfri. „Það að geta haldið áfram að nota tungumál sem mér finnst vera fallegasta tungumál í heimi. Ég hef helgað líf mitt, frá því ég að var átján ára, því að læra íslensku, lesa íslensku og takast á við hana. Ég var ung þegar ég kom hingað fyrst þannig að Ísland og íslenskan eru fyrir löngu orðin órjúfanlegur hluti af mér og það yljar mér um hjartarætur að vera að fást við þetta yndislega tungumál á hverjum degi." 

Viðtal: Magnús Guðmundsson, október 2018. 

 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir