Barna- og ungmennabókasjóðurinn Auður. Úthlutað í fyrsta sinn!

22. maí, 2019

Alls hlutu 20 verk styrki að þessu sinni; langar textabækur fyrir ungmenni, myndríkar smábarnabækur og allt þar á milli. 

Audur-liljaStofnun sjóðsins er liður í aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaráðherra um eflingu íslenskunnar og er ætlað að styrkja útgáfu vandaðs efnis fyrir yngri lesendur. Alls hlutu 20 verk styrki að þessu sinni og nemur heildarstyrkupphæð 7 milljónum kr.

„Eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að efla læsi í landinu til framtíðar er að standa vörð um tungumálið okkar og tryggja aðgengi barna og ungmenna að bókum við þeirra hæfi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, við 

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra

afhendinguna, þar sem voru komnir saman höfundar og útgefendur verkanna sem hlutu styrki. Sjóðurinn er hýstur hjá Miðstöð íslenskra bókmennta sem sér alfarið um rekstur hans. Útgefendur sóttu um styrki til útgáfu 60 bóka en þær 20 sem hljóta styrki að þessu sinni eru af ýmsu tagi, langar textabækur fyrir ungmenni, myndríkar smábarnabækur og allt þar á milli. Styrkirnir nema frá 250-500 þúsund kr. hver.

Audur-hhÁkveðið var að gefa sjóðnum nafn sem væri lýsandi fyrir hlutverk hans og tilgang. Fyrir valinu varð nafnið Auður.  

„Auður er nafn sem felur í sér ýmsar vísanir,“ sagði mennta- og menningarmálaráðherra, „í okkar hugum vísar Auður til hins raunverulega ríkidæmis þjóðarinnar og eins mesta fjársjóðs hennar, bókmenntanna. Mig langar í dag að nefna tvær konur sem bera nafnið. Annars vegar Auði Sveinsdóttur, húsfreyju í Laxnesi og nánasta samverkamann nóbelskáldsins Halldórs Laxness. Í sumar sem leið var opnuð sýning helguð lífshlaupi og listsköpun þeirrar merku konu sem oftar en ekki sinnti sínu bak við tjöldin. 

Hrefna Haraldsdóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta

Það er ljóst af sögum af Auði að hún lagði sig fram við að liðsinna öðrum, hún skapaði samfélag í kringum sig og var einkar lagin við að láta fólki líða vel. Hún var réttnefndur fjölfræðingur, fljót að tileinka sér nýja hluti og þekkingu. Önnur Auður, og eldri, sem einnig er gott að taka sér til fyrirmyndar er landnámskonan Auður Ketilsdóttir, Auður djúpúðga eða hin vitra. Auður átti magnaða ævi, hún var brautryðjandi að mörgu leyti, kona sem fór ótroðnar slóðir og bar með sér ímynd styrkleika og sjálfstæðis, áræðni og virðingar.“ 

Verkin sem hljóta styrki

· Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur. Útgefandi: Forlagið

· Húsið í september (vinnutitill) eftir Hilmar Örn Óskarsson. Útgefandi: Bókabeitan

· Þriggja heima saga #5 (titill ókominn) eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, myndhöfundur Bergrún Íris Sævarsdóttir. Útgefandi: Forlagið

· Kopareggið eftir Sigrúnu Eldjárn. Útgefandi: Forlagið

· Ungfrú fótbolti 1980 (vinnuheiti) eftir Brynhildi Þórarinsdóttur. Útgefandi: Forlagið

· Veröld vættanna - Bergrisinn vaknar eftir Margréti Tryggvadóttur, myndhöfundar M74. Studio (Guðmundur Bernharð og Silvia Pérez). Útgefandi: Reykjanes jarðvangur ses

· Nei, nei, nei! eftir Birtu Þrastardóttur. Útgefandi: Angústúra

· Randalín, Mundi og leyndarmálið eftir Þórdísi Gísladóttur, myndhöfundur Þórarinn M. Baldursson. Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

· Nornasaga eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur. Útgefandi: Bókabeitan

· Sjáðu! eftir Áslaugu Jónsdóttur. Útgefandi: Forlagið

· Nærbuxnaverksmiðjan 2 eftir Arndísi Þórarinsdóttur, myndhöfundur er Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson. Útgefandi: Forlagið

· Miðbæjarrottan eftir Auði Þórhallsdóttur. Útgefandi: Skriða bókaútgáfa

· Vigdís F. eftir Rán Flygenring. Útgefandi: Angústúra

· Hvíti ásinn eftir Jóhönnu Sveinsdóttur. Útgefandi: Salka

· Langelstur að eilífu Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Útgefandi: Bókabeitan

· Álfarannsóknin eftir Bennýju Sif Ísleifsdóttur, myndhöfundur er Elín Elísabet Einarsdóttir. Útgefandi: Bókabeitan

· Fjallaverksmiðja Íslands eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Útgefandi: Forlagið

· Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason. Útgefandi: Forlagið

· Ys og þys út af ... ÖLLU! eftir Hjalta Halldórsson. Útgefandi: Bókabeitan

· Leitin að vorinu (vinnuheiti) eftir Sigrúnu Elíasdóttur, myndhöfundur Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson. Útgefandi: Forlagið

Sjá hér nánar um heildarúthlutun úr nýjum barna- og ungmennabókasjóði.

 

 

 

 

 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir