Hjalti Pálsson hlýtur viðurkenningu Hagþenkis 2022 fyrir Byggðasögu Skagafjarðar I.-X. bindi

„Yfirgripsmikið fjölbindaverk, skrifað af þekkingu og stutt margvíslegum heimildum ásamt fjölda ljósmynda,“ segir meðal annars í ályktunarorðum viðurkenningarráðsins.

16. mars, 2023

Hjalti Pálsson tók við viðurkenningu Hagþenkis 2022 þann 15. mars síðastliðinn fyrir verk sitt Byggðasaga Skagafjarðar, I.-X. bindi

Hjalti Pálsson tók við viðurkenningu Hagþenkis 2022 þann 15. mars síðastliðinn fyrir verk sitt Byggðasaga Skagafjarðar, I.-X. bindi, útgefandi: Sögufélag Skagafjarðar. Formaður Hagþenkis, Gunnar Þór Bjarnason, formaður Hagþenkis, veitti verðlaunin. Í viðurkenningarráði Hagþenkis sitja Súsanna Margrét Gestsdóttir,  Ársæll Arnarson, Halldóra Kristinsdóttir, Sigurður Sveinn Snorrason og Svanhildur Óskarsdóttir. . 

Í rökstuðningi viðurkenningarráðsins segir m.a.: 

„Formálinn að fyrsta bindi hefst með tilvitnun í óð skáldsins Matthíasar um Skagafjörð: „Hver einn bær á sína sögu, sigurljóð og raunabögu“. Þar boðar höfundur, Hjalti Pálsson, útgáfu sjö binda verks. Það verði byggt á hinu gamla Jarða- og búendatali í Skagafjarðarsýslu sem náði aftur til ársins 1781, fjallað verði um hátt í 580 jarðir, skipt eftir hreppum að fornum hætti. Manna- og staðanafnaskrár skyldu bíða lokabindis.

Tuttugu og fimm árum síðar höfum við hér tíu binda verk, prýtt þúsundum ljósmynda. Jarðirnar urðu nær 700 þegar upp var staðið en Hjalti og aðstoðarfólk hans heimsótti hvern einasta bæ og ábúendur hans, flesta margsinnis. Umfang nafnaskrárinnar varð að lokum svo mikið að ákveðið var að birta hana á netinu, frekar en að prenta í bók.

Enda er hér fjallað um gósenland: Sjálfan Skagafjörð þar sem Sturla Sighvatsson þurrkaði framan úr sér svitann og muldraði „ekki er mark að draumum“ morguninn fyrir Örlygsstaðabardaga, þar sem Sólveig á Miklabæ kom í veg fyrir að séra Oddur fengi leg í vígðri mold og þar sem Sölvi Helgason hóf sitt flækingslíf og dró upp óviðjafnanlegar myndir af litlum efnum.

Okkur er nær að halda að skrifað sé um næstum því allt í þessum tíu bindum Byggðasögu Skagafjarðar. Sumt af því er dramatískt í meira lagi. Jón goddi var niðursetumaður í Bjarnastaðahlíð á þarsíðustu öld. Hann hafði misst annað augað en varð fyrir þeim ósköpum að missa hitt líka á meðan fólkið svaf rökkursvefni, rak upp mikið óp og heyrðist segja að þar væri nú þetta auga líka farið til fjandans. „Af þeim orðum drógu sumir það, að fjandinn hefði verið að hirða þar eign sína“ segir í Byggðasögunni. Þegar vinnukona kveikti ljós og fór að huga að Jóni var hvorki meira né minna en blóðtjörn á gólfinu og augað sprungið út úr höfðinu. Ekki er síður forvitnilegt að lesa um tvær sprengjur sem þýsk njósnavél sleppti nálægt bænum Tungu á októbermorgni árið 1942. Þar sem sprengjurnar sprungu og mynduðu djúpa gíga hafði heimafólk einmitt verið við fjársmölun nokkrum mínútum áður. Engar skýringar fengust nokkru sinni á þessari gjörð.

Þetta eru dæmi um hversu fjölbreyttar frásagnir er að finna í Byggðasögunni. Fjölbreyttar frásagnir einar og sér duga þó ekki til að hljóta viðurkenningu Hagþenkis, það þarf þetta „meira“ sem ríður baggamuninn. Það birtist okkur í því hversu haganlega er fléttað saman hefðbundinni og vandaðri sagnfræði, þjóðsögum, sögum af örnefnum, upplýsingum um sel, stekki og fornbýli ásamt GPS-hnitum en framlag fornleifafræðinnar er ekki síst áhugavert í ritinu. Auk allra ljósmyndanna sem fyrr voru nefndar er fjöldi korta og grunnteikninga svo að ljóst er að fræðafólk úr ólíkum geirum mun geta haft mikil not af ritinu. En aðrir lesendahópar skipta þó trúlega ennþá meira máli.

Skagfirðingar eru ánægðir með Hjalta Pálsson og hafa útnefnt hann heiðursborgara sveitarfélagsins. Við erum sammála um að þetta feykiveglega rit eigi eftir að halda gildi sínu um ókomna tíð og umfram allt muni það auðvelda allskonar lesendum með margvísleg áhugamál að njóta þess gnægtabrunns fróðleiks og sögu sem Skagafjörður er.“


Allar fréttir

Spennandi höfundar frá Íslandi koma fram á Bókamessunni í Gautaborg - 28. ágúst, 2023 Fréttir

Bókamessan í Gautaborg verður haldin um mánaðamótin september/október en þar kemur saman fjöldi rithöfunda, útgefenda, og bókaunnenda - og Miðstöð íslenskra bókmennta verður á staðnum

Nánar

Bókamessan í Frankfurt 2023 haldin dagana 18.-22. október - 12. september, 2023 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta sækir messuna heim líkt og undanfarin ár og setur upp fundi á íslenska básnum, númer 4.1 B10.

Nánar

Íslenskar bækur á 15 tungumálum væntanlegar - 17. maí, 2023 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 45 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 15 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, úkraínsku, ítölsku, tékknesku, spænsku, dönsku, sænsku og færeysku.

Nánar

Allar fréttir