Íslenskar bókmenntir taka flugið!
„Við erum einstaklega heppin að hafa aðgang að framúrskarandi bókmenntaþýðendum sem þýða af alúð, innsæi og kunnáttu verk úr íslensku yfir á sín móðurmál.“
Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.
Við sem störfum á vettvangi bókmenntanna finnum að áhugi erlendra útgefenda á íslenskum nútímabókmenntum er mikill og útgefendur hafa augun opin fyrir nýjum höfundum til viðbótar við þá sem þeir hafa þegar gefið út eða þekkja til.
Reglulega berast fréttir af velgengni íslenskra rithöfunda erlendis; bækur þeirra vekja athygli og og framleiddir eru sjónvarpsþættir, kvikmyndir og fleira sem byggja á þeim. Verkin lifna við á nýjum tungumálum - og í nýjum miðlum. Erlendir fjölmiðlar gera jafnan fréttum af útrás íslenskra bóka og höfunda góð skil. Allt vekur þetta jákvæða athygli á rithöfundunum og verkum þeirra og eykur jafnframt áhuga og meðvitund um íslenskar bókmenntir, menningu, listir og skapandi starf á Íslandi.
Það er ekki einföld skýring á vinsældum bókanna en meðal þess sem erlendir útgefendur og lesendur segja að einkenni oft stíl íslenskra höfunda, er frásagnargleði, húmor og frumleiki.
Um langt skeið hefur markvisst verið unnið að því að kynna íslenskar bókmenntir erlendis og koma þeim á framfæri og ýmsar leiðir farnar í þeim efnum.
Nú liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2025-2030 frá menningar, nýsköpunar og háskólaráðherra. Þar segir um sókn á erlenda markaði: „Þróuð verði umgjörð til að styrkja stöðu íslenskra bókmennta á erlendum markaði í samráði við útgefendur, rithöfunda og þýðendur“ Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta."
Þarna er undirstrikað mikilvægi þess að halda áfram og vinna enn markvissar að því að koma bókmenntunum á framfæri erlendis.
Íslenskir höfundar eru eftirsóttir gestir á bókmenntaviðburðum um allan heim og unnið er að því jöfnum höndum að koma þeim á framfæri. Íslenskir rithöfundar og verk þeirra njóta athygli um allan heim, höfundarnir eru eftirsóttir gestir á erlendum bókmenntahátíðum og verk þeirra eru þýdd á fjölda tungumála.
Miðstöð íslenskra bókmennta hefur meðal annars það hlutverk að kynna íslenskar bókmenntir erlendis, til dæmis með þátttöku í bókamessum. Á síðustu misserum hefur Ísland verið í heiðurssæti á fjölbreytilegum bókmenntaviðburðum víðsvegar um Evrópu og í Bandaríkjunum.
Þátttaka og öflug kynning á bókamessum erlendis, árleg útgáfa kynningarrits á ensku um nýjar íslenskar bækur, sérstök vefsíða um íslenska höfunda sem hafa gefið út bækur í erlendum þýðingum, kynningarmyndbönd og ótalmargt fleira hefur greitt leið að verkunum og höfundum þeirra. Afrakstur þessa starfs birtist meðal annars í mikilli fjölgun þýðinga íslenskra bóka á erlend mál.
Um þessar mundir eru franska, enska og þýska þau tungumál sem standa uppúr þegar litið er til þýddra íslenskra bóka; undanfarin ár hafa fleiri tugir titla verið þýddir á þær tungumál og jafnt og þétt koma einnig út þýðingar á Norðurlandamálum, ítölsku, spænsku, pólsku og fleiri tungum.
Þýðing er forsenda þess að bók ferðist til annarra landa og hefur oft reynst öflugur stökkpallur fyrir íslenskan höfund. Þar gegna þýðendurnir lykilhlutverki. Við þýðingu bókar stækkar lesendahópurinn svo um munar; á augabragði hafa milljónir lesenda aðgang að bókunum sem einungis íslenskumælandi gátu áður lesið.
Við erum einstaklega heppin að hafa aðgang að framúrskarandi bókmenntaþýðendum sem þýða af alúð, innsæi og kunnáttu verk úr íslensku yfir á sín móðurmál.
Miðstöð íslenskra bókmennta leggur sig fram um að efla og styrkja tengslin við þýðendur á erlend tungumál og sjá til þess að þeim fjölgi sem leggja fyrir sig þýðingar. Í því skyni heldur Miðstöðin alþjóðleg þýðendaþing annað hvert ár þar sem þýðendum er boðið hingað til lands til að taka þátt í vinnustofum og dagskrá tengdri íslensku bókmenntaumhverfi.
Áhugi og eftirspurn eftir íslenskum bókum er til staðar, jarðvegurinn er frjór. Með samstilltu átaki og öflugum stuðningi getum við aukið enn frekar veg íslenskra bókmennta um allan heim. Í því ljósi er ánægjulegt að að í nýrri bókmenntastefnu stjórnvalda skuli sérstaklega stefnt að því að þróa umgjörð til að styrkja stöðu íslenskra bókmennta á erlendum markaði.
Umheimurinn kallar eftir nýjum og fjölbreyttum röddum í bókmenntum og listum og tækifærin eru ótalmörg. Áframhaldandi breitt samstarf á vettvangi menningar, lista og skapandi greina er grundvöllur að góðum árangri til framtíðar.
Hrefna Haraldsdóttir
framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta