Íslensku höfundarnir og verk þeirra fengu góðar viðtökur á bókamessunni í Gautaborg

3. október, 2018 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta tók þátt í Bókamessunni í Gautaborg líkt og undanfarin ár og skipulagði nokkra viðburði íslensku höfundanna þar í samvinnu við stjórnendur messunnar. Höfundarnir Jón Kalman Stefánsson, Áslaug Jónsdóttir og Yrsa Sigurðardóttir tóku þátt í ár og var gerður góður rómur að framlagi þeirra.

Yrsa í CrimetimeYrsa sat fyrir svörum á sviði Crimetime í líflegu spjalli við Lottu Olsson, blaðakonu, um velgengni glæpasögunnar í friðsömu landi eins og Íslandi. Hún sagði frá því að bækurnar um Huldar og Freyju yrðu líklega ekki fleiri en fimm, líkt og bókaflokkurinn um lögreglukonuna Þóru. Nýjasta bók Yrsu kemur út á sænsku í apríl 2019 hjá forlaginu Harper Collins Nordic og áður hafa komið út fimm bækur eftir hana á sænsku.

Jón Kalman Jón Kalman kom fram á mörgum sviðum messunnar, hann ræddi við þýðandann John Swedenmark um ljóðskáldið Jón Stefánsson sem síðar varð skáldsagnahöfundurinn Jón Kalman Stefánsson, um ljóðið sem grundvöll skáldsögunnar og mikilvægi ljóðaþýðinga. Jafnframt talaði Jón Kalman almennt um höfundaferil sinn og nýjustu skáldsöguna, Sögu Ástu, við sænska útgefandann sinn, Svante Weyler. Leitað var svara við spurningunni um lífið og leitina að ást og viðurkenningu í samtali við Stefan Eklund ritstjóra Borås Tidning og fleira. Flestar bækur Jóns Kalmans hafa komið út á sænsku hjá Weyler Förlag og þær njóta mikilla vinsælda í Svíþjóð. 

Áslaug í pallborði

Áslaug kom fram ásamt þremur öðrum norrænum myndhöfundum í samræðum við Gunnillu Kindstrand blaðamann um sérstöðu og einkenni skandinavísks myndmáls. Einnig ræddi Áslaug um arabískar þýðingar Skrímslabókanna og gildi þeirra á öðru menningarsvæði en því norræna, við útgefandann Monu Henning frá Dar Al-Muna. Bókaforlagið Opal gefur út bækur Áslaugar á sænsku.

Allir viðburðir höfundanna voru vel sóttir og að þeim loknum gátu gestir fengið áritaðar bækur, sem margir nýttu sér.

Íslenski básinn í GautaborgAuk þess að skipuleggja þátttöku höfunda í dagskrá messunnar er Miðstöð íslenskra bókmennta þar með bás í samstarfi og með góðum stuðningi Íslandsstofu. Þar fer fram kynning og sala á íslenskum bókum, sem Félag íslenskra bókaútgefenda annast, og leitast er við að hafa þar gott framboð íslenskra bóka í sænskri þýðingu, en þær njóta mikilla vinsælda gesta. Þá fjóra daga sem messan stendur yfir er stöðugur straumur gesta sem hafa áhuga á íslenskum bókmenntum, höfundum, tungumálinu og almennt landi og þjóð. Haf studio hannar básinn. 

Bókamessan í Gautaborg er stærsta bókamessa Norðurlanda en hana sækja árlega hátt í 100.000 gestir. 

 

 • Íslenski básinn, Bryndís og Berglind
 • Hrefna frá Miðstöð íslenskra bókmennta og Bryndís frá Félagi bókaútgefenda
 • Saga Ástu í sænskri þýðingu John Swedenmark
 • John Swedenmark og Jón Kalman í Rum för Översättning
 • Jón Kalman og Svante Weyler
 • Íslenski básinn
 • Skrimslabækur á sænsku og arabísku
 • Áslaug Jónsdóttir og fleiri myndhöfundar í pallborði
 • Áslaug Jónsdóttir
 • Jón Kalman áritar
 • Rætt um Skrímslabækur í arabískri þýðingu
 • Yrsa og Lotte Olsen
 • Yrsa í Crimetime
 • Löggur líta í bækur á íslenska básnum
 • Bókamessan í Gautaborg 2018
 • Áhugasamir gestir skoða Íslandskort á básnum
 • íslenskar bækur í sænskum þýðingum
 • Bókamessan í Gautaborg 2018

 


Allar fréttir

Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Gdansk 29.-31. mars - 31. janúar, 2019 Fréttir

Íslensku höfundarnir Hallgrímur Helgason, Steinunn Sigurðardóttir, Elísabet Jökulsdóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir verða gestir á messunni.

Nánar

Þau hlutu Íslensku bókmenntaverðlaunin í ár! - 30. janúar, 2019 Fréttir

Hallgrímur Helgason hlaut verðlaunin fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini, Sigrún Eldjárn fyrir Silfurlykilinn og höfundar Flóru Íslands þau Hörður Kristinsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg.

Nánar

Allar fréttir