Miðstöð íslenskra bókmennta kynnir úthlutun ársins til útgáfu 77 bóka á íslensku

5. maí, 2020 Fréttir

Von er á fjölda skáldverka, fræðirita, myndabóka, ævisagna og fleira

Þriggja milljóna króna hækkun styrkja úr Auði, barna- og ungmennabókasjóðnum

Á dögunum úthlutaði Miðstöð íslenskra bókmennta 10 milljónum úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði og hlutu 32 verk styrk að þessu sinni. Það er ánægjulegt að segja frá því að þetta er 43% hækkun frá fyrra ári þegar heildarúthlutun var 7 milljónir og 20 verk hlutu styrk. Með styrkjunum er ætlunin að efla útgáfu vandaðra bóka á íslensku fyrir yngri lesendur, myndríkar bækur sem og textabækur, fræðibækur, skáldverk og allt þar á milli. Styrkirnir eru veittir útgefendum.

Höfundar bókanna sem hlutu styrki að þessu sinni eru margir hverjir þekktir en einnig fengu bækur nýrri höfunda styrki. Meðal styrktra verka eru Hross eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring, en þau eru höfundar Fugla sem kom einnig út hjá Angústúru og Þín eigin undirdjúp eftir Ævar Þór Benediktsson sem Forlagið gefur út. Bókabeitan fékk styrk til útgáfu bókarinnar Nornasaga – Nýársnótt eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur sem er sjálfstætt framhald bókarinnar Nornasaga – Hrekkjavaka. Litla bókin um blæðingar eftir Sigríði Dögg Arnardóttur, hlaut styrk sem og Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur, höfunda bókarinnar Íslandsbók barnanna, í útgáfu Forlagsins. Grísafjörður eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur í útgáfu Sölku hlaut styrk sem og Skógur liðins tíma eftir Sverri Norland í útgáfu AM forlags og einnig bókin Iðunn og afi pönk eftir Gerði Kristnýju og Halldór Baldursson, Forlagið gefur út.

Hér má sjá heildarúthlutun úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði 2020.

Bækur um bókmenntir, náttúru, byggingalist, sagnfræði, tungumál og fleira fá útgáfustyrk

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur nú einnig úthlutað 28 milljónum króna í almenna útgáfustyrki til 45 verka – og er það tveggja milljón króna hækkun frá síðasta ári þegar 26 milljónum var veitt til útgáfu 43 verka.

Meðal verka sem hlutu útgáfustyrki í ár eru Guðjón Samúelsson arkitekt eftir Pétur H. Ármannsson, útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag, Laugavegur eftir Guðna Valberg og Önnu Dröfn Ágústsdóttur í útgáfu Angústúru, Bærinn sem hvarf í ösku eftir Bjarna F. Einarsson hlaut einnig styrk, útgefandi Skrudda, sem og Spænska veikin eftir Gunnar Þór Bjarnason, Forlagið gefur út. Í fjarska norðursins. Ísland og Grænland. Viðhorfasaga í þúsund ár, hlaut útgáfustyrk en höfundur er Sumarliði R. Ísleifsson og útgefandi Sögufélag. Veiðibókin Sá stóri, sá missti og sá landaði eftir Sigurð Héðin í útgáfu Drápu fær styrk og Arfur aldanna II eftir Aðalheiði Guðmundsdóttur, útgefandi Háskólaútgáfan. Tíu íslenskir kvæðamenn í ritstjórn Rósu Þorsteinsdóttur hlaut styrk, útgefandi er Stofnun Árna Magnússonar og bókin Ánamaðkar eftir Bjarna E. Guðleifsson og Brynhildi Bjarnadóttur í útgáfu Hóla hlaut útgáfustyrk sem og Fræðaskjóða - Bókmenntafræði fyrir forvitna, höfundur er Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og útgefandi Sæmundur.

Alls bárust 69 umsóknir um útgáfustyrki að þessu sinni og sótt var um rúmar 65 milljónir króna. 

Hér má sjá heildarúthlutun Útgáfustyrkja 2020.

Á myndinni hér efst má sjá nokkrar bækur sem áður hafa hlotið styrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta; úr Auði, barna og ungmennasjóðnum og almenna útgáfustyrki.


Allar fréttir

Höfundasíða er komin í loftið! - 14. október, 2020 Fréttir

Á höfundasíðunni má finna upplýsingar um íslenska höfunda bóka sem komið hafa út í erlendum þýðingum. Þar er hægt að leita eftir nafni höfundar, bókmenntagrein og/eða tungumáli sem bækurnar hafa verið þýddar á. Upplýsingarnar eru á ensku til kynningar erlendis.

Nánar

Auglýst eftir umsóknum um þýðingastyrki. Umsóknarfrestur er til og með 16. nóvember. - 16. október, 2020 Fréttir

Styrkir til þýðinga á íslensku eru veittir til að þýða mikilvæg verk úr samtímanum, erlendar fagurbókmenntir og fræðirit sem og vandaðar, myndríkar bækur fyrir börn og ungmenni. 

Nánar

Nýtt myndband með tíu íslenskum rithöfundum - 16. október, 2020 Fréttir

Tíu rithöfundar ræða íslenskar bókmenntir á Gljúfrasteini. Myndbandið er á ensku, framleiðandi er Íslandsstofa og leikstjóri Einar Egilsson.

Nánar

Allar fréttir