Popular Hits Hugleiks

Ný bók Hugleiks Dagssonar.

14. apríl, 2010

,,Ég held að bókin Forðist okkur, sé sú eina sem hefur komið út á þýsku'' segir Hugleikur Dagsson skáld og myndasöguhöfundur. ,,Og hún er miklu fyndnari á þýsku en íslensku.''

hugleikur2

„Ég held að bókin Forðist okkur, sé sú eina sem hefur komið út á þýsku,“ segir Hugleikur Dagsson skáld og myndasagnahöfundur. „Og hún er miklu fyndnari á þýsku en íslensku.“

Það kann að vera að Hugleikur Dagsson sé ekki sérstaklega þekktur í Þýskalandi eftir þessa einu þýðingu. Það gæti breyst með hans nýjustu bók, þar sem hann leggur á djúp dægurlagaheimsins, lög sem allir þekkja, hvort sem er í Frankfurt, á Fáskrúðsfirði eða í New York. Popular Hits kemur út 16.apríl, samtímis á Íslandi og í Finnlandi, og er einskonar enskt framhald af bókinni íslensk dægurlög. Í stuttu máli: Hugleikur myndskreytir og leggur útaf þekktum dægurlagatextum, Rolling Stones: Sympathy for the Devil til dæmis, hinn einfaldi en margbrotni Hugleikskarakter réttir djöflinum vasaklút. Svo er sterk tenging við finnsku þjóðarsálina í verkum Hugleiks. „Það er rétt að Íslendingar eru drykkfelldir þunglyndissjúklingar,“ sagði Hugleikur í viðtali við Fréttablaðið í vikunni sem leið, aðspurður um hvers vegna bókin kemur út á sama tíma í Finnlandi og Íslandi. „Ég hef alltaf sagt það og alltaf fundist það. Ég er búinn að fara allavega fjórum sinnum til Finnlands að kynna bækurnar mínar og er hvergi jafn vinsæll. Ég held að það sé vegna þess að Finnarnir eru ofsalega svipaðir okkur Íslendingum. Það hefur kannski eitthvað með kuldann og myrkrið að gera.“

Hugleikur gaf sjálfur út sína fyrstu myndasögu í árslok 2001. Síðan hafa þær komið á færibandi, hver annari kræsilegri, og titlarnir einir farið fyrir brjóstið á mörgum, svo ekki sé minnst á hispursleysið í textum og teikningum. Afar einlægur og um leið hrollvekjandi tónn. Það mætti kalla þessa frásagnaraðferð: Bara beint í punginn, eða beint í hjartastað er heldur ljóðrænna. Það var svo þegar Penguin útgáfan byrjað að gefa út bækur eftir hann, fyrst Should you be laughing at This 2006, sem verk Hugleiks dreifðust útum heimsbyggðina, með þessari stuttu samantekt forlagsins á höfundi og uppruna hans:


Synopsis

Hugleikur Dagsson is from Iceland. [Hugleikur Dagsson er frá Íslandi.]

During the winter in Iceland there are only three hours of daylight. [Á veturna skín sólin aðeins í þrjá tíma á Íslandi.]

During the summer in Iceland there is no darkness. [Á sumrin er ekkert myrkur á Íslandi.]

Iceland's national drink is called ‘Black Death'. [Þjóðardrykkurinn er kallaður ‚Svarti dauði‘.]

In Iceland this book is a cult-bestseller.[Þessi bók er metseld költbók á Íslandi.]




Hugleikur2Hugleikur3




Hverju breytti samningurinn við Penguin útgáfuna fyrir þig Hugleikur?

„Það sem breyttist var að bækurnar mínar komust í dreifingu á ensku út um allan heim. Það á sinn þátt í því að ég get lifað á því að skrifa, en í rauninni breytti það ekki miklu fyrir mig sem höfund. Það sem ég hef gert síðan er nákvæmlega það sama og ég hefði gert ef þessi samningur hefði ekki komið til.“

Það er ákveðinn tærleiki alltaf í bókunum þínum, bara talað hreint út og teikningarnar furðu líkar því sem var í fyrstu bókunum?

„Já, það má vera. Ef maður ber saman fyrstu bókina í ,,Okkur'' seríunni og það sem ég er að gera núna líkjast þær vissulega. En fyrstu teikningarnar voru gerðar í flýti, meira hugsunarlaust. Þegar maður er búinn að teikna og skrifa 1000 brandara, þá breytist samt margt í þessu ferli. Í síðustu bókunum hef ég teiknað fyrst laust með blýanti og svo farið ofan í með penna. Grunnhugmyndin er samt sú sama, þetta er ofureinfalt og skilaboðin groddaraleg.“

Það er kannski of vægt að segja að margt af þessu efni hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum, frekar bara feitt hneykslað marga, bara bókatitlar einsog: Drepið okkur, Ríðið okkur...?

„Það er samt svo undarlegt að sumt er meira tabú en annað. Rasískt slangur fer fyrir brjóstið á fleirum en misnotkun á börnum. Ég skrifaði nýverið myndasögu fyrir Grapevine tímaritið í Reykavík, og notaði orðið: ,,Nigga''. Brandarinn var sá að það voru bandarískir gangsterar að níðast á fólki á Airwaves tónlistarhátíðinni á Íslandi, sem er alveg absúrd í sjálfu sér. Í svona teiknimyndasögu verða gangsterar að tala líkt og gangsterar í gangsterablöðum, það er málið, og segja: ,,Nigga'' þegar þeir tala um svertingja. En ég fékk haturs tölvupósta útaf þessu eina orði, en ég hef aldrei fengið haturspóst fyrir að tala um barnanauðganir.“

Já, og til hamingju með nýju bókina auðvitað. Popular Hits er gefin út á þínu eigin forlagi, Ókeibæ(!)kur, og hvað næst?

„Ég er að setja saman efni sem ég gerði fyrir íslensku símaskrána 2008 og 2009. Það er kannski það næsta sem gæti verið barnabók af því sem ég hef gert. Svo var ég að fá listamannalaun til að gera epískan bókarflokk um heimsenda. Þar læt ég heiminn líða undir lok á mismunandi hátt í hverri bók. Ég er einmitt að lesa Opinberunarbókina til að setja mig inn í stemninguna. Það er alveg stórfurðulegt hvernig heimurinn endar í Biblíunni.“

Hvernig þá?

„Það er bara ótrúlega mikið af rugli í gangi í þessu, bara súrt. En hjá mér verða þetta að minnsta kosti þrjár bækur, þrír mismunandi heimsendar. Minna má það ekki vera.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir