Metsölubókin í ár?

19. maí, 2010

Metsölubókin það sem af er árinu er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008. Alþingi Íslands er því útgefandi að mest seldu bók landsins um þessar mundir.

SkýrslanMetsölubókin það sem af er árinu er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008. Hún er langsöluhæsta bókin á Íslandi frá áramótum samkvæmt bóksölulista Félags íslenskra bókaútgefenda, sem veldur því að Alþingi Íslands er útgefandi að mest seldu bók landsins um þessar mundir.

Skýrslan er ítarleg greinargerð um orsakir hruns íslensku bankanna í byrjun október 2008. Hún er prentuð í níu bindum og telur yfir 2000 síður sem þýðir að hún er hér um bil jafn löng og Íslendingasögurnar allar samanlagðar, eins og rithöfundurinn og þingmaðurinn Þráinn Bertelsson benti á í ræðupúlti Alþingis skömmu eftir útgáfu hennar. Í fyrstu stóð til að skýrslan yrði birt þann 1. nóvember á síðasta ári en útgáfunni var frestað í tvígang. Hún kom loks út þann 12. apríl og óþreyjan því orðin mikil; seldist hún upp í forsölu fjölda bókabúða og myndaðist langur biðlisti í kjölfarið. Bóksali í Eymundsson lét hafa eftir sér í viðtali við Morgunblaðið að eftirvæntingin í tengslum við útgáfu skýrslunnar slægi út Harry Potter.

Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson hafði nokkuð til síns máls  þegar hann sagði í viðtali hér á heimasíðu Sagenhaftes Island að þetta nýjasta handrit þjóðarinnar stæðist ekki ítrustu kröfur fagurbókmenntanna:  „Svona gerist ekki í raunheimi ... þetta er svo vont handrit og illa leikið, og lýsingar á sumum persónum hefðu aldrei gengið upp í neinni skáldsögu, það hefði verið of ótrúverðugt.“ Rannsóknarskýrslan er vissulega á köflum fjarstæðukennd lýsing á grátbroslegum hrunadansi þar sem finna má tilvitnanir úr póstsamskiptum íslenskra bankamanna (sem sumir hverjir hafa nú fengið að dúsa á bakvið lás og slá) á borð við þessa:

Hæ Magnús, Við gengum ekki frá bónus fyrir

síðasta ár. Ég legg til 1 millj evrur. Hvað segir þú. Kv. Se.

Þessari uppástungu var svarað skjótt og skorinort:

Takk Meira en nog :-).

Og ekki má gleyma lýsingu eins ráðherrans á svartsýnum bankastjóra:

Þá tók hann svona hálfan snúð, tróð honum upp í andlitið á sér og skaut undan snúðnum þessari setningu: Ég hef ekki trú á þessu, ég hef ekki trú á þessu. Þá kom svona hönd með gullúri og kippti honum út.

Sumir eru þó á þeirri skoðun að leggja ætti skýrsluna fram til bókmenntaverðlaunanna en rithöfundurinn Andri Snær Magnason stakk upp á því í viðtali við Fréttablaðið á dögunum: „...ég held hún sé klárlega bókmenntaverk ... Hún er líka fræðandi, skrifuð fyrir almenning og ber merki þess.“

Bókmenntaverk eður ei, þá markar skýrslan tímamót í uppgjörinu við efnhagshrun þjóðarinnar og sagt er að útkoma hennar sé einsdæmi á heimsvísu. Áætlað er að hún verði áfram söluhæsta „bókin“ á Íslandi fram eftir ári.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir