Grasrótin vökvuð
Á dögunum var Nýræktarstyrkur Bókmenntasjóðs afhentur í þriðja sinn, en honum er ætlað að styðja við forvitnileg skáldverk með litla tekjuvon.

Markmið Nýræktarstyrksins, sem veittur var í Nýlistasafninu þann 3. júní síðastliðinn, er að styðja við útgáfu á nýjum íslenskum skáldverkum, sem þykja hafa ótvírætt menningarlegt gildi en takmarkaða tekjuvon. Það voru þær Þorgerður Agla Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bókmenntasjóðs, og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem afhentu styrkina.
Fimm styrkir upp á 200.000 kr voru veittir – til fjögurra höfunda og eins tímarits – en í allt bárust 39 umsóknir í ár. Þau sem hlutu styrkinn að þessu sinni voru Ásgeir H. Ingólfsson, Bjargey Ólafsdóttir, Hildur Margrétardóttir, Jón Bjarki Magnússon og tímaritið Furðusögur.
Ásgeir H. Ingólfsson er ritstjóri vefritsins Kistunnar og lausapenni sem hefur skrifað um menningarmál í ýmsa fjölmiðla. Fyrsta ljóðabók hans, Grimm Ævintýr, kemur út á þessu ári. Listakonan Bjargey Ólafsdóttir hefur unnið í fjölmörgum miðlum, svo sem myndlist, kvikmyndalist, ljósmyndun og nú bókmenntum. Hún gefur á næstunni út bók sem mun innihalda örsögur og teikningar. Jón Bjarki Magnússon er blaðamaður á DV, og vinnur einnig að útgáfustörfum hjá ljóðasamsteypunni Nýhil.Hann er nú sjálfur með eigin ljóðabók í smíðum. Hildur Margrétardóttir er þekkt myndlistarkona, en leggur um þessar mundir lokahönd á barna- og unglingabók sem fléttar saman raunsæi og íslenskri þjóðsagnahefð. Tímaritið Furðusögur, sem hleypt verður af stokkunum á þessu ári, verður helgað fantasískum skáldskap af öllum toga, auk myndlistar og teiknimyndasagna af sama toga. Þau Alexander Dan Vilhjálmsson, Ólafur Sindri Ólafsson og Hildur Knútsdóttir standa að blaðinu, og munu einnig leggja til efni í það.
Á vefsíðunni fict.is getur að líta sýnishorn – á íslensku, ensku og þýsku – af skáldskap verðlaunahafanna í ár. Bakhjarl síðunnar er Sagenhaftes Island, en markmið fict.is er að kynna nýjar og frumlegar raddir í íslenskum skáldskap. Þar má finna upplýsingar um fjölmörg skáld, og brot úr verkum þeirra, sem eru af ýmsum toga – til dæmis ljóð, örsögur, smásögur, skáldsögur, mynd- og myndbandsljóð.
Meðfram því að gera nýjum röddum skil birtir síðan auk þess óvenjuleg verk eftir þekktari höfunda. Þannig má til að mynda skoða þar klippiljóð eftir Óttar Martin Norfjörð og myndbandsljóð eftir Eirík Örn Norðdahl. Auk þess má lesa á síðunni brot úr skáldsögum þeirra Sölva Björns Sigurðssonar og Þórdísar Björnsdóttur.