Bókmenntahátíð í Rúmeníu

18. júní, 2010

Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir var nýverið þátttakandi á bókmenntahátíð í Rúmeníu sem fulltrúi Norðurlanda. „Það snart djúpt að kynnast skáldum landa sem eru skyldust í genetískan kvenlegg,“ sagði hún í samtali við Sagenhaftes Island.

„Það snart djúpt að kynnast skáldum landa sem eru skyldust í genetískan kvenlegg: Íranum Tomás Mac Siomóin sem kennir gelísku í Barcelona, Skotanum Donny O'Rourke sem hélt uppi söng á kvöldin, hinni velsku Fionu Sampson og ensk-kýpversku Alev Adil sem báðar eru ljóðskáld og listafrömuðir,“ sagði Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir í samtali við Sagenhaftes Island. Hún var nýverið fulltrúi Íslands á bókmenntahátíð í Rúmeníu, Hátíð Óvidíusar sem haldin er í Neptún við Svartahaf. Þáttakendur voru um það bil 60 talsins og komu víða að en Þórunn var eini fulltrúi Norðurlandanna. Hún lét í ljós ánægju sína með hátíðina og stóðu kynni hennar af erlendu skáldunum upp úr.

„Á exótíska austurvængnum var magnað að spjalla við indversk- og kínverskættaða fulltrúa, sem og Palestínumanninn Naim Araidy, skáld og prófessor í hebresku og formann egypska rithöfundasambandsins Múhameð Salmawy. Vesöld Íslands drógst saman, eins og íslensk fjöll inn í Alpana. Nístandi illa sögu er magnað að fá svo beint í æð.“

Þema hátíðarinnar var „Ris og fall sögupersóna í fagurbókmenntum“ og voru flutt erindi á daginn en á kvöldin lásu þátttakendur upp ljóð. Ljóð þátttakenda voru gefin út á bók á þremur tungum: móðurmáli, rúmönsku og ensku/frönsku, munu erindi þingsins svo einnig hljóta útgáfu. Heiðursverðlaun Óvídíusar í þetta sinn hlaut Jean D'Ormesson, rithöfundur og fyrrum ritstjóri franska dagblaðsins Le Figaro. Kanadíski rithöfundurinn Madeleine Thien hlaut svo verðlaun ætluð ungum upprennandi rithöfundum.

Í erindi Þórunnar, sem fjallaði um framtíð söguhetjunnar í nútímabókmenntum, mátti heyra að hún er bjartsýn á komandi tíð skáldsögunnar. Í því sagði Þórunn meðal annars að frásögnum eru lítil takmörk sett á tímum frjórrar fjölmenningar: „Sögurnar eru óendanlegar, ferskir veruleikar, nýjar og heilbrigðar leiðir til að koma lesendum í opna skjöldu. Bókakvíði er ástæðulaus.“

Þórunn hafði í fórum sínum nýprentaða enska þýðingu á ljóðum sínum úr bókunum Fuglar og Loftnet klóra himin, kynningareintak sem kom í góðar þarfir á hátíðinni: „Fínt var að bókin komst út fyrir rúmensku bókmenntahátíðina, því höfundar sem kynnast og fíla hver annan skiptast á bókum. Það gladdi mig að myndirnar eru í lit, því þær nutu sín ekki svarthvítar í ljóðaútgáfu 2008.“ Þórunn vildi að lokum koma til skila þökkum til Bókmenntasjóðs: „Það gleymdist að þakka styrk á saurblaði, sem fór til þýðandans Völu S. Valdimarsdóttur og Martin Regal dósents í ensku í H.Í. er las handritið yfir. Skila ég hér með feitu þakklæti til Bókmenntasjóðs fyrir þýðingastyrkinn og fararstyrk til Rúmeníu.“


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir