Erlendur snýr aftur

16. september, 2010

„Ég hef alltaf haft mestan áhuga á persónusköpun,“ segir Arnaldur Indriðason glæpasagnahöfundur í viðtali við Sagenhaftes Island. Hann er með nýja bók í smíðum og í henni snýr Erlendur rannsóknarlögreglumaður aftur.

Arnaldur-Vidtal

Ljósmynd: Einar Falur Ingólfsson

„Ég hef alltaf haft mestan áhuga á persónusköpun,“ segir Arnaldur Indriðason glæpasagnahöfundur í viðtali við Sagenhaftes Island. Hann er með nýja bók í smíðum og í henni snýr Erlendur rannsóknarlögreglumaður aftur.

Þegar Arnaldur sendi frá sér sína fyrstu bók, fyrir þrettán árum, þótti glæpasagan ekki fínn pappír hér á landi. Það þótti fjarstæðukennt að skrifa morð og misindi inn í íslenskan veruleika og var Arnaldur iðulega spurður að því hvort raunhæft væri að skrifa spennusögur sviðsettar á Íslandi fyrstu árin eftir útgáfu fyrstu glæpasögu hans. Margt hefur breyst á þrettán árum.

Núna er Arnaldur einn vinsælasti rithöfundur Íslands, margverðlaunaður hér á landi sem og erlendis og með þrettán bækur undir beltinu sem komið hafa út á tugum tungumála um heim allan. Sú fjórtánda er væntanleg í haust. Hún mun bera titilinn Furðustrandir og gerist á tveggja til þriggja vikna tímabili haustið 2005 — líkt og þrjár síðustu sögur hans Harðskafi, Myrká og Svörtuloft, en bækurnar fjórar tengjast allar innbyrðis.

Útsendari Sagenhaftes Island náði tali af Arnaldi á dögunum og spurði hann nokkurra spurninga; um vinsældirnar, stöðu íslenskra glæpasagna og áhrifavalda úr íslenskum bókmenntum.


Bækur þínar hafa náð mikilli útbreiðslu undanfarin ár utan Íslands og með því náð til stórs og fjölbreytts lesendahóps. Hafa vinsældirnar haft áhrif á hvernig þú skrifar?

Arnaldur: Ég hef reynt að láta vinsældirnar ekki hafa nein áhrif á sjálf skrifin. Auðvitað breytist margt. Ég get skrifað án þess að vera í annarri vinnu, sem er skemmtilegasta breytingin. Ég hef hlýtt kalli erlendra útgefenda sem vilja að ég hjálpi þeim við kynningu á bókunum þegar þær eru að fara af stað svo ferðalögin hafa verið ófá og ég hef kynnst helling af frábæru fólki í bókabransanum víða um heiminn. En ég er alltaf að skrifa fyrir þessar 300.000 manneskjur á Íslandi og enga aðra. Ég hef ekki reynt að ná til breiðari lesendahóps, hann virðist breikka hvort sem er. Ég hef ekki reynt að eltast við vinsældirnar enda held ég að það geti reynst varasamt.

Spennusögur áttu lengi erfitt uppdráttar í íslenskum bókmenntaheimi, en bókmenntirnar og þjóðin sjálf hafa tekið miklum breytingum síðan 1997. Hefur glæpasagnaforminu tekist að festa rætur hér; má segja að til sé orðin íslensk glæpasagnahefð að þínu mati?

Arnaldur: Ég held að það sé óhætt að segja að forminu hafi tekist að festa rætur. Við erum kannski 15 til 20 sem fáumst við að skrifa glæpaskáldsögur í dag, sem er mikil breyting. Og það eru alltaf einhverjir nýir að bætast í hópinn.  Hvort hér hafi skapast hefð ennþá veit ég ekki. Mér sýnist samt að íslenskir glæpasagnahöfundar reyni að vinna úr sínu umhverfi bækur sem hægt er að finna í ýmislegt fleira en lausn gátunnar. Ég held að þjóðfélagslegt raunsæi sé mörgum ofarlega í huga hér líkt og á öðrum Norðurlöndum.

Aðalsöguhetjan þín, Erlendur rannsóknarlögreglumaður, hefur fengið hvíld í síðustu tveimur bókum. Aðstoðarfólk hans Elínborg og Sigurður Óli hafa fengið að njóta sín í staðinn. Mega lesendur eiga von á því að aðalmaðurinn snúi aftur í kastljósið?

Arnaldur: Já. Erlendur er við stjórnvölinn í næstu bók, sem kemur út í haust.

Þú hefur minnst á það í viðtölum að verk þín séu undir áhrifum frá frásagnarhætti kvikmyndanna. En hver er afstaða þín til glæpaþátta á borð við C.S.I til dæmis? Þar er hvert smáatriði glæpanna magnað upp og nálægð áhorfenda við ofbeldisfull morð mikil. Lykillinn að lausn morðgátnanna oftast fólginn í mætti vísindanna en ekki innsæi rannsóknarlögreglumanna.

Arnaldur: Ég verð að viðurkenna að ég horfi óskaplega lítið á glæpaþætti og ég les æ minna af glæpasögum. Þegar maður er að hugsa um þessa hluti alla daga þá vill maður gjarnan pæla í einhverju allt öðru þegar þess er kostur. Mér sýnist þetta samt allt snúast um fallegt fólk í glæsilegum stellingum að úttala sig um einhver tækniatriði sem maður hefur engan áhuga á. Ég hef alltaf haft mestan áhuga á persónusköpun. Ég sé ekki fara mikið fyrir henni í dag.

Hverjir eru helstu áhrifavaldar þínir úr íslenskum bókmenntum?

Arnaldur: Ég á mína uppáhalds höfunda eins og auðvitað föður minn, Indriða G. Þorsteinsson, Ólaf Jóhann Sigurðsson og Halldór Laxness. Mín uppáhalds ljóskáld eru skáld eins og Hannes Pétursson, Snorri Hjartarson, Stefán Hörður Grímsson og Steinn Steinarr svo nokkur séu nefnd. Ég les reyndar æ meira ljóð í seinni tíð.

Hvað lest þú helst þegar þú ert ekki sjálfur að skrifa?

Arnaldur: Sögulegar frásagnir. Ég var að lesa frábæra bók Bruce Chatwin sem heitir In Patagonia og er fróðleikur ferðalangs um spennandi svæði S-Ameríku. Síðan hef ég lesið mikið um Albert Speer að undanförnu. Einnig er Veröld sem var eftir Stefan Zweig sínálæg og svo langar mig að minnast á frábæra bók um tónskáldið Jón Leifs.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir