Dagur íslenskrar tungu

16. nóvember, 2010

Vigdís Finnbogadóttir hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. „Ég er djúpt snortin að lífsverk mitt (...) hafi vakið eftirtekt,“ segir hún í samtali við Sagenhaftes Island.

VigdisminnkudVigdís Finnbogadóttir hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu, sem haldinn var hátíðlegur í fimmtánda skiptið þann 16. nóvember. Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingum sem hafa unnið í þágu íslenskrar tungu með sérstökum hætti; í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og með því stuðlað að eflingu hennar og miðlun.

Í rökstuðningi ráðgjafanefndarinnar segir meðal annars: „Vigdís var í starfi sínu sem forseti óþreytandi að benda á gildi íslenskrar tungu fyrir mannlífið í þessu landi. Í fyrstu opinberu ræðu sinni eftir að hún var kjörin lagði hún áherslu á þá auðlegð sem Íslendingar eiga í menningararfi sínum (...)  Í forsetatíð sinni flutti Vigdís þennan boðskap um gildi íslenskrar menningar fyrir Íslendinga, og sem fyrsta konan, er var með lýðræðislegum hætti valin þjóðhöfðingi, beindust að henni augu alls heimsins. Vigdís hélt því fram réttilega að ríkidæmi heimsmenningarinnar byggist á margbreytileika þeirra tungumála sem mannkynið hefur skapað. Eftir að hún lét af embætti forseta Ísland hefur hún haldið áfram að boða þennan sannleik og fengið góðan hljómgrunn, enda er hún á vegum Sameinuðu Þjóðanna sérstakur verndari þjóðtungna sem eiga í vök að verjast.“

Í samtali við útsendara Sagenhaftes Island sagðist Vigdís vera afar þakklát fyrir viðurkenninguna. „Ég er djúpt snortin af þvi að lífsverk mitt sem kennari, leikhússtjóri og forseti, ásamt starfi mínu fyrir Sameinuðu þjóðarinnar hjá UNESCO, hafi vakið eftirtekt. Ég er mjög hreykin, sérstaklega því ég er hvorki rithöfundur né skáld. En ég hef alla mína ævi reynt að koma rithöfundum á framfæri.“

Hún sagði íslenska tungu standa traustum fótum, spurð að því hver staða hennar væri í dag. „Staða íslenskrar tungu er mjög sterk og það sjáum við hjá rithöfundum okkar. Þeir skrifa upp til hópa mjög góða íslensku og ég er þakklát fyrir að eiga svo ritglaða þjóð,“ En hún bætti við að „við þurfum að sjálfsögðu að gæta okkar mjög vel, eins og aðrar þjóðir.“

Vigdís er sérlegur heiðursforseti og verndari stuðningsfélags Sagenhaftes Island. Spurð að því hvaða merkingu það hafi fyrir íslenska menningu þegar lagt er í svo umfangsmikla útbreiðslu íslenskra bókmennta sagðist hún líta svo á að þetta væri gjöf þjóðarinnar til heimsins.  „Ég er nú svo hreykin af okkar bókmenntum, og af því sem við höfum fram að færa, að ég tel það vera sjálfsagðan hlut. Ég lít á þetta sem svo að við komum færandi hendi og aukum með því bæði skilning og gleði annarra en aðeins okkar sjálfra með því að opna ekki bara okkar huga, heldur líka annarra.“

Ævisaga Vigdísar, Kona verður forseti, sem kom út um síðustu jól hér á landi, er væntanleg á þýsku. Bókin kemur út á vegum bókaforlagsins Orlanda í aðdraganda bókasýningarinnar 2011.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir