Daglegt líf svo óendanlega flókið

29. nóvember, 2010

Bragi Ólafsson sendi frá sér bók með löngum titli á dögunum. Hún heitir Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson.

„Tilgangurinn er ekki að rugla lesendur en hugsanlega að veiða hann í einhvers konar net“ segir Bragi Ólafsson um nýjustu bók sína. Hún heitir hvorki meira né minna en: Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson

Bragi gaf út sína fyrstu skáldsögu, Hvíldardaga, árið 1999.  Bragi var tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsögurnar Hvíldardaga og Gæludýrin. Bókin Sendiherrann sem kom út  árið 2006 hlaut tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.  Hann hafði áður gefið út ljóðabækur sem hlutu mikla athygli, samhliða því að vera bassaleikari popphljómsveitarinnar Sykurmolarnir. Auk þess er Bragi Ólafsson afkastamikið leikskáld. Verk hans Hænuungarnir er sýnt um þessar mundir í Þjóðleikhúsinu.

Bragi Olafsson_handritid

- Titill nýju bókarinnar er býsna langur! Af titlinum að dæma eru fjórir höfundar á bakvið bókina: Þrír uppdiktaðir auk Braga Ólafssonar sjálfs. Er þetta of flókið?

„Ég held að þetta sé ekkert flókið, Þetta hefur algerlega komið af sjálfu sér; ég skrifaði fyrst Sendiherrann, og um leið og maður er byrjaður að fjalla um eina manneskju, tengist sú manneskja öðru fólki, og það fólk enn öðru fólki, og það vill svo til að manneskjan sem segir söguna í Handritinu er móðursystir Sturlu Jóns Jónssonar, ljóðskáldsins í Sendiherranum. Og hún, Jenný Alexson, veit ýmislegt um þetta fólk, umfram það sem ég þykist vita. Hins vegar þekkir hún ekki bókina Sendiherrann, og hefur því ekki mikla vitneskju um hvað gerðist fyrir frænda sinn Sturlu Jón þar, á ljóðahátíðinni sem hann sótti í Litháen, en svo er auðvitað daglegt líf okkar óendanlega flókið – það þarf ekki að nefna það.“

- Mega lesendur búast við framhaldi á tengslum á milli bóka þinna, svona eins og Sendiherrann og Handritið tengjast?

„Í augnablikinu sé ég fyrir mér fjórar bækur. Og ef það plan gengur eftir – sem er alls ekki víst – þá sé ég fyrir mér að ég muni kalla þetta Handritaseríuna eða Handritakvartettinn, því allar þessar fjórar bækur (eða hugmyndir) byggja á einhvers konar handritum, í mjög ólíkum merkingum þess orðs. Ég lít ekki á þessar bækur sem fjölskyldusögur; þær segja frá nokkrum manneskjum sem tengjast á einhvern hátt, og gerast á stuttu tímabili: þær þrjár fyrstu um haustið 2006, og sú síðasta væntanlega í sumarlok 2007. Þar fyrir utan eru þetta allt mjög sjálfstæðar sögur, og notast ekki við sama frásagnarháttinn.“

- Það er búið að selja kvikmyndaréttinn að Sendiherranum. Hvað um nýjustu bókina? Getum við farið að hlakka til að sjá  Kvikmyndina um Handritið að Kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson í leikgerð Óskars Jónassonar?

„Sú bók er síður fallin til að kvikmynda en Sendiherrann. En kvikmyndagerðarmenn og framleiðendur eru alveg örugglega flinkari en ég að sjá svoleiðis möguleika í bókum. Til dæmi shefur mér alltaf fundist skáldsagan mín Samkvæmisleikir mjög heppileg til að gera mynd eftir – í raun er hún byggð upp eins og kvikmynd – en samt er hún sú eina af skáldsögunum mínum sem enginn bíómaður hefur sýnt áhuga. En ég verð þó að segja að ég er dauðhræddur við  kvikmyndatúlkanir á skáldsögum mínum. Sá miðill, sem almennt hefur ekki nema 100 til 120 mínútur úr að spila, neyðist til að sleppa svo mörgu sem bókin býður upp á, og yfirleitt þarf að breyta svo miklu til að þóknast hinum krefjandi lögmálum kvikmyndarinnar. Það er í raun og veru mjög margt á dagskránni hjá mér í framhaldi af útkomu nýju bókinnar.  Ég er að fara að þýða leikrit úr ensku og skrifa leikgerð eftir eigin skáldsögu. Fyrst og fremst er ég samt að hugsa um leikrit sem ég ætla að skrifa, og næstu tvær skáldsögur. Sú fyrri af þeim er langt á veg komin.“

 

 


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir