Erótíkin vandmeðfarin

1. desember, 2010

Bergsveinn Birgisson hefur sent frá sér bréfasöguna Svar við bréfi Helgu. Hún hefur hlotið afbragðsdóma og góðar viðtökur.

„Við hugsum í raun með hjartanu“ segir rithöfundurinn Bergsveinn Birgisson. Hann sendi nýverið frá sér bókina Svar við bréfi Helgu. Bókin hefur hlotið fádæma góða dóma gagnrýnenda. Bergsveinn hefur áður sent frá sér skáldsögurnar Landslag er aldrei asnalegt (2003) sem hlaut tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna það sama ár og Handbók um hugarfar kúa (2009). Báðar skáldsögurnar hlutu góða dóma. Bergsveinn hefur auk þess gefið út ljóðabækurnar Íslendingurinn (1992) og Innrás liljanna (1997).

Svar við bréfi Helgu er örlaga- og ástarsaga úr sveit í bréfaformi. Bókin lætur fremur lítið yfir sér en á bakvið yfirvegaðan textann búa ólgandi ástríður og sagan segir af því sem hefði getað orðið en aldrei varð. Aldraður bóndi skrifar fyrrum ástkonu sinni bréf og rekur  bæði þeirra samdrátt og sambandsslit auk þess sem sveitalífinu er vel lýst í bókinni.

Bergsveinn

Bréfið er  ekki síst tilraun bóndans til að sannfæra sjálfan sig um að hann hafi breytt rétt í lífinu þrátt fyrir allt. En er þetta eitt langt bréf, eða skrifar bóndi þau á löngum tíma? 

„Bóndi skrifar að ég held nokkur bréf, en þau fara öll í sama bunkann. Þau eru aldrei send. Bréf Helgu, eða bréfið helga frá henni, hlýtur að vera gamalt. En eins og kognitív sálfræði hefur sýnt þá eru tilfinningar það sem situr lengst í minni fólks, þ.e. skynjanir og hugsanir sem eru þrungnar tilfinningu – allar aðrar abstraksjónir veðrast af okkur. Þessvegna held ég það sé rétt sem þeir sögðu á miðöldum að í raun hugsum við með hjartanu.“

Hverju er náð fram með þessu gamla formi á skáldsögunni, bréfaforminu?

Bergsveinn segir að Hollywood-ástarsögur séu fyrir augunum á okkur á hverjum degi og í þeim er allt sýnilegt á yfirborðinu. Hann  vildi hinsvegar kanna hvað gerist innra með manneskjunni í ástarsögu sem aldrei fær að koma upp á yfirborðið: „Hin „bælda“ ástarsaga er að mínu mati ekki endilega sjaldgæfari í mannlegum veruleika, en hún er meir óplægður akur og vekur sjálfsagt spurnir um hvort kærleikskenndin sem slík sé óskhyggju eða sjálfspyndingu blandin. Ástarsaga frá hinu innra plani þurfti 1. persónu frásögn, huglæga frásögn, og bréfformið var heppilegt til að ná fram nálægðinni milli elskendanna.“

Gömul sveitaorð eru áberandi í bókinni, einkum varðandi sauðfé, og lesandi sem er óvanur sveitalífi kemst í kynni við fornt málsnið sem óðum er að hverfa. Þurfti höfundurinn ekki að leggjast í mikla rannsóknarvinnu áður en hann hófst handa við ritun bókarinnar?

Bergsveinn---kapumynd

„Ég hef verið svo heppinn að fá að kynnast þeirri menningarstofnun sem einn íslenskur sveitabær er, og fólkinu á bænum. Svo segja má að ég hafi alla ævi verið að sanka að mér efni í þessa bók; sem ég byrjaði að festa niður á blað árið 2003. Ég þurfti sérstaklega að leita uppi tungumálið kringum fjárþuklun þar sem þetta málsnið hvarf úr vókabúlari bænda með tilkomu ómskoðunarinnar upp úr 1950. Hér er um að ræða geysifagra íslensku, ríkulegt og nákvæmt málsnið sem fáir virðast hafa reynt að halda til haga, og það var því dálítil leit. Fjárþuklarinn hlýtur að vera meir erótískur en sá sem stendur hjá ómskoðunartækinu, því sá fyrri er að þröngva vitund sinni inn í efnisveruleikann. Þetta snertir almennan þanka hugsuða eins og Slavoj Zizek um að í raun séum við „efnishyggjufólk“ tæknimenningarinnar að missa sambandið við efnisveruleikann.“

En hvað með erótíkina í bókinni, er hún andstæða sveitalífsins?

Bergsveinn segir svo ekki vera og erótíkin sé allra manna á öllum tímum. „Ástæða þess að maður lítur á sveitina sem and-erótíska er kannski sú staðreynd að okkur er ekki tamt að tengja erótík við þær „kurteisu“ frásagnir sem gjarna loða við sveitamenn. Ég tók ungur eftir því að bóndi í ræðu er ekki sá sami og bóndi í riti. En erótíkin er vandmeðfarin, einkum nú í dag. Ég er vanur að vísa til Kormáks ástarskálds sem uppi var á heiðnum tíma, og sem orti vísu um það er hann sá í gegnum hurðarifu ökklann á ástkonu sinni beran, og vissi að hann myndi brenna af þrá það sem af var ævinnar. Þetta er fyrir mér alvöru erótík sem sýnir okkur kröftugar tilfinningar og hvatir!“


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir