Atómljóð á þýsku

2. ágúst, 2011

Nýlega kom út í Þýskalandi metnaðarfullt bindi þýska bókmenntatímaritsins die horen helgað atómskáldunum íslensku.

Nýlega kom út í Þýskalandi metnaðarfullt bindi þýska bókmenntatímaritsins die horen helgað atómskáldunum íslensku. Nýja bindið ber yfirskriftina Bei betagten Schiffen, sem vísar til ljóðs Stefáns Harðar Grímssonar „Hjá hrumum skipum“, og hefur það að geyma gnægð atómljóða í þýskum þýðingum. Um merkisviðburð er að ræða þar sem flest ljóðanna birtast þar í fyrsta sinn á þýsku. Auk ljóðaþýðinga er í bindinu að finna fjölda ljósmynda, myndskreytinga og greinaskrifa frá þessu mikla umrótaskeiði íslenskra bókmennta, ásamt nýjum greinum og endurminningum núlifandi skálda.

atom---islRitstjórar bindisins eru rithöfundurinn og þýðandinn Wolfgang Schiffer og Eysteinn Þorvaldsson, einn helsti sérfræðingur Íslendinga á sviði atómljóðlistar. Wolfgang Schiffer hefur verið einn ötulasti talsmaður íslensks skáldskapar í Þýskalandi undanfarinn aldarfjórðung og er nýjasta bindi die horen verkefni sem er honum sérlega kært. „Bókmennta- og menningartímaritið die horen hefur gefið út íslenskar bókmenntir í þýskum þýðingum, einkum ljóðlist, allt frá miðjum níunda áratugnum, sem varð til þess að við komumst í tæri við ýmis verk atómskáldanna,“ segir Schiffer, inntur eftir því hvað réði því að ákveðið var að gefa út heilt bindi tileinkað atómskáldunum. „Þegar ljóst var að Ísland yrði heiðursgestur á Bókasýningunni í Frankfurt spurði aðalritstjóri die horen, Johann P. Tammen, mig samstundis hvort ég vildi gefa út eitthvað sérstakt af því tilefni. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um og stakk upp á bindi um atómskáldin. Menningardeilan sem spratt af fyrstu ljóðum þeirra, og áhrifin sem þau höfðu á íslenskar bókmenntir, hefur mér lengi þótt vera einkar spennandi og mikilvægt umfjöllunarefni.

Ég fann kjörinn samstarfsmann fyrir verkefnið, Eystein Þorvaldsson, sem er einstakur fróðleiksbrunnur um íslenska ljóðlist, og þökk sé stuðningi Sögueyjunnar Íslands og annarra styrktaraðila var líka leyst úr spurningunni varðandi kostnað, sem forlög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni þurfa að kljást við.“

42-die_horen-Bei_betagten_SchiffenÍ bindinu er samankominn gríðarmikill fróðleikur um mikilvægt tímabil í íslenskum bókmenntum. Það stendur jafnvel til að gefa það út á íslensku?

Þegar rætt er um að gefa slíka bók út á Íslandi, sem verður líklegast engin metsölubók, skiptir kostnaðurinn líka máli. Einn íslenskur útgefandi hefur lýst yfir áhuga, þó ég geti auðvitað lítið sagt um hvernig það fer. En þrátt fyrir margbreytileika bindisins – með öllum þeim ólíku röddum og umræðuflötum sem það hefur að geyma – hefði íslensk útgáfa þann kost að ekki þyrfti að þýða textana; þeir eru vitanlega langflestir á íslensku til að byrja með.

Hvað er það sem heillar þig við atómljóðin?

Fyrir utan það að þetta eru góð ljóð, þá finnst mér þau opinbera djúpa og knýjandi þörf fyrir nýjar og skáldlegar tjáningarleiðir, sem gerðu einstaklingum fært að takast á við breyttan veruleika – þann veruleika sem fylgdi í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, Hiroshima og Nagasaki. Að sjálfsögðu eru gæði annars vegar og hins vegar viðleitni til þess að uppgötva nýjar tjáningarleiðir ekki mótsagnir. Þvert á móti eru þessar hliðar skáldskaparins háðar hver annarri innbyrðis.


Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir útgáfustyrki til nýrra íslenskra ritverka - 3. maí, 2024 Fréttir

Í ár var úthlutað tæplega 21 milljón króna í útgáfustyrki til 41 verks. Alls bárust 66 umsóknir og sótt var um heildarupphæð rúmlega 74 milljónir króna.

Nánar

Úthlutun úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði; 25 spennandi verk hljóta styrki - 6. maí, 2024 Fréttir

8 milljónum var veitt úr sjóðnum til 25 barna- og ungmennaverka sem koma út á næstunni.

Nánar

Úthlutun til þýðinga á íslensku; 27 styrkir veittir í fyrri úthlutun ársins - 3. maí, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins 2024 bárust 37 umsóknir til þýðinga á íslensku. Veittir voru 27 styrkir að upphæð 8,8 millj. kr. Seinni úthlutun ársins fer fram í nóvember. 

Nánar

Allar fréttir