Dulræn saga úr hversdagslífinu

3. maí, 2012

„Bónusstelpan er sprottin upp úr hversdagslífinu,“ segir Ragna Sigurðardóttir um skáldsögu sína, Bónusstelpuna. Bókin er byggð á ríkum grunni trúar á dulræn málefni hér á landi.

„Bónusstelpan er sprottin upp úr hversdagslífinu,“ segir Ragna Sigurðardóttir um skáldsögu sína, Bónusstelpuna, sem vakti þónokkra athygli þegar hún kom út fyrir jólin. Í bókinni segir frá Diljá sem velur sér það lokaverkefni í Listaháskólanum að vinna á kassa í Bónus. Fljótlega kemst orðrómur á kreik um að Bónusstelpan geri kraftaverk á kassanum og viðskiptavinir taka að streyma til hennar í von um að líf þeirra breytist til hins betra. Verslunarferðin hættir að vera hversdagsleg og röðin á kassanum fer að snúast um eitthvað allt annað og meira en að greiða fyrir matinn.

BónusstelpanRagna segir að lítil hugmynd um kassastelpu sem hafi hæfileika til að heila viðskiptavini sína hafi undið upp á sig. „Hið hversdagslega er, þegar betur er að gáð, aldrei eins einfalt og það sýnist. Röðin á kassanum er þverskurður samfélagsins og allt annað en hversdagsleg, því hvert og eitt eigum við okkur sögu, uppfulla af dramatík.“

Ragna setur hið dulræna í hversdagslegt en um leið óvænt samhengi. En hún bendir líka á sterk tengsl hins hversdagslega og hins dulræna hér áður fyrr. „Sagan um Bónusstelpuna byggir á ríkum grunni trúar á dulræn málefni hér á landi,“ segir Ragna. „Læknamiðlar voru óhemju vinsælir á Íslandi um miðja tuttugustu öld. Hér á landi var ekki mikil togstreita milli trúar á dulræn málefni og kristinnar trúar, kirkjunnar menn tóku til dæmis virkan þátt í starfsemi spíritista á Íslandi í upphafi tuttugustu aldar og læknamiðlar voru oft mjög kristnir. Trúin á álfa og huldufólk lifði góðu lífi samhliða kristinni trú. Þetta frjálsræði hefur án efa átt sinn þátt í því að gera læknamiðla sjálfsagðari valkost samhliða því að leitað var lækninga á hefðbundinn hátt.“

En hvað með hjátrú, huldufólk og læknamiðla í nútímanum? Er þetta kannski haldreipi okkar þegar öll sund lokast og önnur úrræði bregðast?

„Það er í eðli mannsins að leita allra leiða til að bjarga sér þegar eitthvað bjátar á og fólkið í röðinni í Bónus er þar engin undantekning. Að einhverju leyti má sjá trúna á dulræn málefni sem haldreipi í samtímanum á sama hátt og þjóðlegar hefðir, en í sögunni stendur þessi trú ekki síst fyrir sjálfsbjargarviðleitnina og hvað við erum tilbúin til þess að gera til að halda öllu gangandi, á hverjum degi, í röðinni við kassann.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir