Aldrei fleiri þýðingar á erlend mál

75 styrkir til þýðinga á íslenskum verkum á 26 tungumál

3. október, 2013

Árangursrík bókmenntakynning erlendis á síðustu árum hefur skilað sér í mikilli aukningu á þýðingum íslenskra verka á erlend mál.

Samstillt átak opinberra aðila og íslenskra bókaútgefenda á síðustu árum við kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis hefur skilað sér í mikilli aukningu á þýðingum íslenskra verka. Þar er skemmst að minnast Frankfurtarverkefnisins, þegar Ísland var heiðursgestur á stærstu bókasýningu heims í Frankfurt í Þýskalandi árið 2011. Verkefnið skilaði útgáfum á 230 íslenskum verkum og bókum um Ísland á þýsku auk gríðalegrar fjölmiðlaumfjöllunar í Þýskalandi og víðar. Áhrifanna gætir um allan heim og aldrei hafa íslenskar bækur verið fáanlegar á fleiri tungumálum.

Síðustu styrkjum ársins 2013 til þýðinga á íslenskum verkum á erlend mál hefur nú verið úthlutað frá Miðstöð íslenskra bókmennta. Á árinu 2013 voru 89 umsóknir frá erlendum útgefendum til afgreiðslu, þar af 13 til þýðinga á norræn tungumál. Styrkir voru veittir til 75 þýðinga. Norræna ráðherranefndin leggur til fjármagn í þýðingar á milli norrænu tungumálanna.

Styrkir miðstöðvarinnar í ár voru veittir til þýðinga á 26 tungumál, þar á meðal sjö til þýðinga á hollensku og átta á þýsku. Um er að ræða skáldsögur, barnabækur, ljóð og bækur almenns efnis. Gaman er að segja frá því að væntanleg eru á kínversku skáldverk eftir Sjón og Gyrði Elíasson. Einnig eru væntanlegar á frönsku Leigjandinn og Saga handa börnum eftir Svövu Jakobsdóttur.

Það sem vekur eftirtekt þegar litið er yfir þýðingar á íslenskum verkum á allra síðustu árum, að þýska málsvæðinu slepptu, er sú mikla aukning sem orðið hefur á þýðingum yfir á frönsku og ensku. Hér fyrir neðan má finna bækling Miðstöðvar íslenskra bókmennta með yfirliti yfir nýlegar þýðingar á ensku sem og yfirlit yfir nýleg íslensk verk í franskri þýðingu.

Íslenskar bækur á frönsku

Íslenskar bækur á ensku


 


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir