Jórunn Sigurðardóttir hlýtur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Jórunn Sigurðardóttir hlýtur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2013 fyrir framúrskarandi umfjöllun um íslenskar og erlendar bókmenntir í Ríkisútvarpinu. 

18. nóvember, 2013

Jórunn Sigurðardóttir hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2013 fyrir framúrskarandi umfjöllun um íslenskar og erlendar bókmenntir í Ríkisútvarpinu.


Jórunn Sigurðardóttir hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2013 fyrir framúrskarandi umfjöllun um íslenskar og erlendar bókmenntir í Ríkisútvarpinu. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar um verðlaunahafa segir: Með fjölbreyttri þáttagerð um áratuga skeið hefur Jórunn Sigurðardóttir miðlað okkur fréttum og fróðleik af menningu og listum. Hún vílar ekki fyrir sér að snara heilu köflunum úr heimsbókmenntunum ef þörf er á, enda afbragðs þýðandi. Áheyrileg, blæbrigðarík og kjarnyrt íslenska einkenna tungutak Jórunnar.

Jórunn Sigurðardóttir er fædd 29. október árið 1954. Hún er alin upp í Reykjavík og Garðabæ en býr nú í vesturbæ Reykjavíkur. Jórunn er fjölmenntuð því eftir nám í Austurbæjarskóla, landspróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík og stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík flutti hún til Þýskalands þar sem hún lærði leikhúsfræði og sögu við Freie Universität í Vestur-Berlín. Að því loknu fangaði leiklistin Jórunni og lagði hún stund á hana við Hochschule für Musik und darstellende Kunst. Þá var hún einnig við nám í samanburðarbókmenntum við Freie Universität.

Jórunn hefur líka lokið námi við Leiðsöguskólann í Kópavogi og BA-prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Starfsferill Jórunnar hefur verið markaður áhuga hennar á menningu. Hún lék á sviði Þjóðleikhússins og Alþýðuleikhússins, auk þess sem hún var leikhússtjóri þess síðarnefnda um tíma ásamt Sigrúnu Valbergsdóttur. Árið 1979 tók Jórunn að sér umsjón unglingaþáttarins Gagns og gamans í Ríkisútvarpinu en frá árinu 1990 hefur hún verið fastráðinn dagskrárgerðarmaður á menningardeild.

Útvarpsþættir Jórunnar eru fleiri en tölu verður á komið en á meðal þeirra eru Aldarlok, þættir um erlendar samtímabókmenntir, Hjálmaklettur, þættir um og með íslenskum skáldum og rithöfundum, Seiður og hélog, þættir um samtímabókmenntir erlendar og íslenskar auk þess sem Jórunn hafði yfirumsjón með bókmenntaþættinum Skorningar sem hóf göngu sína árið 2010. Frá árinu 1995 hefur Jórunn, stundum ein og stundum með öðrum, annast þætti þar sem kynnt eru bókmenntaverk tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Frá haustinu 2012 hefur hún aðallega unnið að vikulegum þætti um bókmenntir, Orð um bækur.

Jórunn vílar ekki fyrir sér að snara heilu köflunum úr heimsbókmenntunum ef þörf er á, enda afbragðs þýðandi. Meðal vandaðra þýðinga hennar sem hafa komið út á bók eru Mómó og Sagan endalausa eftir Michael Ende og margar af sögum austuríska verðlaunahöfundarins Christine Nöstlinger um Frans.

Jórunn Sigurðardóttir hlýtur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framúrskarandi umfjöllun um íslenskar og erlendar bókmenntir í Ríkisútvarpinu, þar sem hún hefur um áratuga skeið miðlað fregnum og fróðleik af menningu og listum á áheyrilegri, blæbrigðaríkri og kjarnyrtri íslensku.“

Verðlaunahafi hlýtur í verðlaun 700 þúsund kr., skrautritað verðlaunaskjal og bókagjöf. Íslandsbanki veitti verðlaunaféð.

Í þakkarræðu sagðist Jórunn innilega þakklát en „þrátt fyrir þetta eru tilfinningar mínar á þessari stundu tvíbentari en ég hefði óskað, vegna þess að stofnunin, sem ég á þessari viðurkenningu að þakka, er í uppnámi, stjórnlaus, og hefur verið nokkuð lengi. Nú skorti fé, það verður að draga úr útgjöldum og forgangsraða. Samfélagið er flókið fyrirbæri og peningar eru hreyfiafl, en peningar búa ekki yfir neinu gildismati. Ákvarðanir um hvernig þeim er varið felur hins vegar í sér gildismat og það gildismat verður til út frá sýn okkar um það sem við notum þá til. Útvarpið stendur á tímamótum, tæknilega og samfélagslega. Það þarfnast sárlega skýrrar sýnar frá umboðsmönnum eigenda sinna, yfirstjórn mennta- og menningarmála og ráðamönnum útvarpsins sjálfs. Ég óska eftir slíkri sýn og lýsi mig reiðubúna til að taka þátt í opinni samræðu um hana. Rás 1 má ekki hverfa".


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir