Skáld í skólum: Mannætugeimverur og einræðisherrar á pissupottum

Rithöfundarnir Eiríkur Örn Norðdahl og Hildur Knútsdóttir heimsóttu grunnskóla á Vestfjörðum og Snæfellsnesi.

22. nóvember, 2013

Rithöfundarnir Eiríkur Örn Norðdahl og Hildur Knútsdóttir heimsóttu grunnskóla á Vestfjörðum og Snæfellsnesi.


Eiríkur Örn Norðdahl
Rithöfundasamband Íslands í samstarfi við Miðstöð íslenskra bókmennta stóðu að bókmenntadagskrá fyrr í haust með rithöfundunum Eiríki Erni Norðdahl og Hildi Knútsdóttur á Vestfjörðum og var það hluti af bókmenntaverkefninu Skáld í skólum, sem nú fór fram í fyrsta sinn á Vestfjörðum. Þau Hildur og Eiríkur fóru saman í sex grunnskóla og kynntu þar sig og verk sín á tveimur dögum fyrir samtals hátt í sjö hundruð nemendur. Í lok nóvember var svo stefnan tekin á Snæfellsnesið, þar sem Hildur og Eiríkur heimsóttu fimm skóla á einum degi!

Eiríkur og Hildur kalla dagskrána sína „Mannætugeimverur og einræðisherrar á pissupottum" og segir svo um dagskrána: „Útúrsnúningar, ádeilur, nýjasta hundatískan, bændur og búalið, óp og læti og afbökuð orð, geðsjúklingar og guð, samsæriskenningar, eðlufólk og megranir, mannætugeimverur og einræðisherrar á pissupottum, spádómar og skáldskapur sem stefnir að því að gera hið ómögulega mögulegt, hið ömurlega skemmtilegt og hið heimskulega gáfulegt. Og/eða öfugt. Rithöfundarnir Hildur Knútsdóttir og Eiríkur Örn Norðdahl stinga á kýlum og leika fyrir lærdómi, lesa ljóð og prósa, sýna teiknimyndir og leiknar stuttmyndir og ræða hvaða merkingu það hefur að vera skáld, verða skáld og þurfa alltaf að vera þetta andskotans skáld.

Hildur Knútsdóttir er höfundur bókanna Sláttur, Spádómurinn og Hola, Lovers eða Lífstíls- og megrunarbók Tískubloggsins eða Hvernig á að þóknast karlmönnum og vera betri en aðrar konur. Í verkum sínum hefur hún meðal annars kannað ranghala hlutverkaleikja – bæði með því að snúa upp á hefðbundin kynjahlutverk (eins og í Spádóminum) en líka með því að búa einfaldlega til heilan höfund (eins og í Hola, Lovers) sem tekur að sér að vera höfundur í Hildar stað. 

Eiríkur Örn Norðdahl hefur gefið út fimm ljóðabækur, fjórar skáldsögur og sitthvað fleira, síðast skáldsöguna Illsku, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012. Hann hefur unnið mikið með hljóðaljóð, hreyfiljóð og performans. Í rétt óútkominni ljóðabók, Hnefi eða vitstola orð, rífur Eiríkur íslenska tungu á hol, tætir hana í sundur, og gerir tilraun til þess að nærast á hræinu.“ 

Bókmenntaverkefnið Skáld í skólum hóf göngu sína haustið 2006 og allt frá upphafi tóku grunnskólar landsins því fagnandi, enda um margt nýstárlegt þar sem ólíkum höfundum er teflt saman og dagskárnar sem í boði hafa verið úr ýmum áttum. Þegar hafa nær 40 mismunandi dagskrár orðið til innan vébanda verkefnisins. Aðalstein Ásberg Sigurðsson hefur haft veg og vanda af verkefninu frá upphafi.

Hattur Eiríks Arnar Norðdahl. 
 Hildur Knútsdóttir og tískubloggarinn H.



Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir