Íslensku bókmenntaverðlaunin

Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2009

10. febrúar, 2010

Guðmundur Óskarsson og Helgi Björnsson hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin 2009.

Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir árið 2009 voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrr í dag. Þeir Guðmundur Óskarsson og Helgi Björnsson, jarðeðlisfræðingur, hlutu verðlaunin; Guðmundur í flokki fagurbókmennta fyrir bókina Bankster, sem Ormstunga gefur út, og Helgi í flokki fræðirita fyrir Jöklar á Íslandi, frá bókaútgáfunni Opnu.

Auk verðlaunabókanna hlutu alls átta bækur tilnefningu, fjórar í flokki fagurbókmennta og fjórar í flokki fræðirita. Í flokki fagurbókmennta voru eftirtaldar bækur tilnefndar:

  • Böðvar Guðmundsson: Enn er morgunn, sem Uppheimar gefa út,
  • Gyrðir Elíasson: Milli trjánna, Uppheimar gefa hana út,
  • Steinunn Sigurðardóttir: Góði elskhuginn, í útgáfu Bjarts,
  • Vilborg Davíðsdóttir: Auður, Mál og menning gefur út.

Í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis:

  • Kristín G. Guðnadóttir: Svavar Guðnason, í útgáfu Veraldar
  • Árni Heimir Ingólfsson: Jón Leifs – líf í tónum, Mál og menning gefur út,
  • Jón Karl Helgason: Mynd af Ragnari í Smára, Bjartur gefur út,
  • Þórdís Elva Þorvaldsdóttir: Á mannamáli. Ofbeldi á Íslandi, JPV gefur hana út.

Vinningsbækurnar: Íslenskt hrun og íslensk náttúra

Bankster var óformlega útnefnd sem ‚besta kreppubókin‘ fyrir áramót af gagnrýnanda Morgunblaðsins og þótti hún lýsa á næman og manneskjulegan hátt þeim afleiðingum sem efnahagshrunið hér á landi hafði fyrir venjulegt fólk. Þrátt fyrir það kom tilnefning hennar mörgum þónokkuð á óvart, en með verðlaununum stimplar Guðmundur Óskarsson sig rækilega inn í íslenskt bókmenntalíf.

Sagenhaftes-Island innti hann eftir viðbrögðum en niðurstaða dómnefndarinnar kom Guðmundi sjálfum á óvart. Hann vinnur enn í banka, en fékk að sjálfsögðu frí í dag, og spurður um það hvort verðlaunin staðfesti að Bankster hafi réttilega verið útnefnd sem ‚besta kreppubókin‘ svaraði hann því að hann væri ekki hrifinn af slíkri flokkun; hann vonar að bókin lifi kreppuna af og kjarni hennar öðlist einhverja víðari merkingu eftir að þessu tímabili í sögu þjóðarinnar lýkur. Guðmundur er núverandi Höfundur mánaðarins hér á síðunni, þar sem finna má umfjöllun um verkið og ritferil hans til þessa, ásamt þremur gagnlegum ábendingum frá honum sjálfum um hvernig bregðast eigi við þegar maður vinnur bókmenntaverðlaun.

Helgi Björnsson er á meðal fremstu fræðimanna á sviði jöklarannsókna hér á landi. Í hér um bil fjóra áratugi hefur hann unnið að rannsóknum á Íslandi og hefur framlag hans í fyrirlestrum, fræðigreinum og nú í þessari bók, veitt ómetanlega þekkingu á þessu mikla náttúruafli sem hefur mótað bæði náttúru og mannlíf hér á landi í gegnum aldirnar. Jöklar á Íslandi hefur að geyma allt það helsta sem komið hefur fram í sögu jöklarannsókna frá því að þær hófust hér á landi og fram til nútímarannsókna. Guðni Einarsson, gagnrýnandi hjá Morgunblaðinu, sagði bókina vera stórvirki: „Hún opnar augu allra sem hafa unun af að lesa í landið fyrir undrum náttúruaflanna. Þeir munu líta landið öðrum augum eftir lesturinn.“


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir