Nýræktarstyrki í ár hljóta þau Birgitta Björg Guðmarsdóttir og Sölvi Halldórsson

6. júní, 2024

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra afhenti Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta í Gunnarshúsi fimmtudaginn 6. júní og var það í 17. sinn sem styrkirnir voru veittir.

  • Á myndinni eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Sölvi Halldórsson og Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað tveimur Nýræktarstyrkjum til nýrra höfunda og nemur hvor styrkur 500 þúsund krónum. 62 umsóknir bárust um Nýræktarstyrki í ár.

Fimmtudaginn 6. júní veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tveimur nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra, en hvor styrkur nemur hálfri milljón króna. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra afhenti styrkina í Gunnarshúsi.

Valið úr innsendum handritum

Árlega veitir Miðstöð íslenskra bókmennta Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira. Nýræktarstyrkir hafa verið veittir frá árinu 2008 en valið er úr innsendum handritum. Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, með samþykki stjórnar. Í ár eru ráðgjafar þau Guðrún Steinþórsdóttir og Jóhannes Ólafsson.

Verkin sem hljóta viðurkenninguna í ár eru ólík; ljóðabók og skáldsaga. Yrkisefni verkanna eru margslungin, þau fjalla meðal annars um listsköpun, missi og sorg og tilfinningar tengdar hversdagslegum samskiptum og fjölskylduböndum.

62 umsóknir

Í ár bárust 62 umsóknir um Nýræktarstyrki sem er svipaður fjöldi og undanfarin ár. 

Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2024 hljóta eftirtalin verk og höfundar:

Moldin heit

Höfundur: Birgitta Björg Guðmarsdóttir

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur er forvitnileg og vel skrifuð skáldsaga um listsköpun, sorg og missi. Með ljóðrænum stíl eru dregnar upp sterkar og áhrifaríkar myndir um leið og leikið er skemmtilega með form textans þannig að hann minnir einum þræði á dans – eina af þeim listgreinunum sem eru í brennidepli sögunnar. Á áreynslulausan hátt flakkar frásögnin fram og aftur í tíma þannig að lesendur kynnast aðalpersónum verksins mæta vel og fá aukinn skilning á flóknum samskiptum þeirra við aðra.

Höfundur: Birgitta Björg Guðmarsdóttir (f.1998) hefur lokið BA prófi í íslenskum fræðum og lýkur nú meistaranámi í Ritlist við Háskóla Íslands. Birgitta er stofnmeðlimur hljómsveitarinnar Ólafur Kram sem sigraði Músíktilraunir árið 2021. Hún hefur birt sögur og ljóð í TMM og tímaritinu Leirburði en skáldsagan Skotheld kom út árið 2018. Hún er meðlimur í þverfaglega listahópnum Heysahorn og í ljóðakollektívinu MÚKK. Birgitta starfar sem bóksali.

IMG_2818

Þegar við vorum hellisbúar

Höfundur: Sölvi Halldórsson

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Þegar við vorum hellisbúar eftir Sölva Halldórsson er hugmyndarík ljóðabók, full af leikgleði þar sem myndmáli er beitt á snjallan og óvenjulegan hátt. Ljóðin mynda sterka heild sem fanga vel tilfinningar tengdar hversdagslegum samskiptum og fjölskylduböndum. Sölvi dregur einnig fram á athyglisverðan hátt flókin og óræð tengsl við minningar úr æsku og gerir tilraun til að afhjúpa nostalgíu og einfaldanir á fortíðinni.

Höfundur: Sölvi Halldórsson (f. 1999) er fæddur og uppalinn á Akureyri. Hann lauk BA prófi í íslensku og dönsku frá Háskóla Íslands árið 2019, og meistaraprófi í ritlist frá sama skóla árið 2024. Sölvi hefur skrifað bókmenntarýni fyrir Víðsjá og birt ljóð í Pastel ritröð og ýmsum safnritum, nú síðast Munnbita Ástarsögufélagsins. Sölvi býr í Reykjavík og er meðlimur í ljóðakollektívinu Múkk.

IMG_2816_1717760018828

Sautjánda úthlutun Nýræktarstyrkja

Þetta er í sautjánda sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa um áttatíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi fyrir afar fjölbreytt verk. Meðal þeirra eru höfundarnir Pedro Gunnlaugur Garcia, Arndís Þórarinsdóttir, Fríða Ísberg, Sverrir Norland, Benný Sif Ísleifsdóttir, Hildur Knútsdóttir, Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Dagur Hjartarson, Júlía Margrét Einarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Jakub Stachowiak svo aðeins nokkur séu nefnd.

Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað jafnt og þétt frá því þeim var fyrst úthlutað árið 2008 hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr. Styrkupphæðin er nú 500.000 kr.

Hægt er að nálgast upplýsingar um styrkúthlutanir og styrkhafa fyrri ára hér


Allar fréttir

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2024 - 27. nóvember, 2024 Fréttir

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans 2024 voru kynntar 27. nóvember í Eddu, húsi íslenskunnar.

Nánar

Íslenskum bókmenntum fagnað í Osló - 5. desember, 2024 Fréttir

Sendiráð Íslands í Osló fagnaði íslenskri tungu og bókmenntum með hátíðlegri móttöku í embættisbústaðnum í Osló þann 13. nóvember. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Miðstöð íslenskra bókmennta, Miðstöð norskra bókmennta og Skapandi Ísland.

Nánar

Rúmur helmingur þjóðarinnar ver 30 mínútum eða meira í lestur á dag - 15. nóvember, 2024 Fréttir

Meðal niðurstaðna í nýrri lestrarkönnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta, í samstarfi við helstu aðila á bókmenntasviðinu, má sjá að að lestur er almennt mikill í flestum þjóðfélagshópum.

Nánar

Allar fréttir