Ríflega þriðjungur þjóðarinnar les daglega

Þjóðin les/hlustar að meðaltali á 2,4 bækur á mánuði. Sá hópur sem aldrei les bók stækkar og hópurinn sem hámles stækkar einnig. Um 65% landsmanna les eingöngu eða oftar á íslensku en öðru tungumáli.

16. nóvember, 2022

Miðstöð íslenskra bókmennta í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands kannaði nýlega lestrarvenjur þjóðarinnar.

 • Mynd-1_1668521173222

Miðstöð íslenskra bókmennta í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands kannaði nýlega viðhorf þjóðarinnar til bóklestrar.


Sambærileg rannsókn hefur verið framkvæmd árlega síðan árið 2017 og er því komin samanburður á niðurstöðum síðustu 6 ára.

Samkvæmt niðurstöðunum les/hlustar ríflega þriðjungur þjóðarinnar á bók daglega eða oftar. Marktækur munur er á milli kynja en konur lesa meira en karlmenn. Eldra fólk les frekar meira en það yngra og ekki er marktækur munur á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.

Helstu niðurstöður

 • Meðalfjöldi lesinna bóka var 2,4 bækur á mánuði í samanburði við 2,3 bækur að meðaltali í lestrarkönnun árið 2021. Þeim fjölgar sem lesa enga bók en þeim fjölgar einnig sem lesa fimm eða fleiri bækur á mánuði.
 • Konur lesa/hlusta á fleiri bækur að jafnaði en karlar og þau sem eru með háskólamenntum fleiri bækur en aðrir menntunarhópar. Yngsti aldurshópurinn, 18-24 ára les að jafnaði færri bækur en þau sem eldri eru.
 • 32% þjóðarinnar lesa einu sinni eða oftar á dag.
 • Um 65% landsmanna lesa einungis eða oftar á íslensku en öðru tungumáli og má greina örlitla breytingu frá því í fyrra en þá var hlutfallið 58%.
 • Um 18% lesa jafn oft á íslensku og öðru tungumáli, um 14% lesa oftar á öðru máli en íslensku og um 3% lesa einungis á öðru tungumáli.
 • 74% svarenda telja mikilvægt íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi, samanborið við 79% í fyrra.
 • 59% þjóðarinnar segist helst lesa skáldsögur og 52% velja helst glæpasögur þegar spurt er hverskonar tegund bóka lest þú helst/hlustar á.
 • 34 ára og yngri lesa oftar en þau sem eldri eru á öðru tungumáli en íslensku. 27% þeirra sem eru í framhaldsnámi í háskóla segjast lesa oftar á öðru tungumáli en íslensku.
 • Yfir helmingur eða 55% svarenda fær hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum, um 35% í umfjöllun í fjölmiðlum og um 31% í umfjöllun á samfélagsmiðlum.
 • Um 34% landsmanna hafa nýtt sér þjónustu bókasafna á síðastliðnum 12 mánuðum. Konur nýta sér þjónustu bókasafna oftar en karlar og þau sem eru með 2 eða fleiri börn á heimili oftar en aðrir.
 • Færri gefa bók/bækur í ár en fyrir ári.

Lestur / hlustun bóka síðastliðna 30 daga

 Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar höfðu tæplega 58% svarenda lesið eða hlustað á bók/bækur á síðastliðnum 30 dögum.

Mynd-1_1668521173222Mynd 1. „Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu og samanburð sl. 6 ár.

 Meðalfjöldi lesinna bóka á mánuði var 2,4 bækur í ár í samanburði við 2,3 bækur að meðaltali í lestrarkönnun í fyrra. Þeim fjölgar sem lesa enga bók en þeim fjölgar einnig sem lesa fimm eða fleiri bækur á mánuði.

 Konur lesa fleiri bækur en karlar, eða að jafnaði 3,0 bók og karlar 1,7 bók á mánuði. Bilið á milli kynja minnkar þó aðeins frá því í fyrra. Konur lesa og hlusta meira en karlar á allar tegundir bóka, hvort sem um er að ræða hefðbundnar bækur, rafbækur eða hljóðbækur.

Einungis 65 ára og eldri lesa meira en yngsti aldurshópurinn 18 til 24 ára og launþegar eru líklegri til að lesa fleiri bækur en sjálfstætt starfandi. Þau sem lokið höfðu framhaldsnámi í háskóla lásu fleiri bækur en aðrir menntunarhópar. Ekki var marktækur munur eftir hjúskaparstöðu.

Mynd-2_1668521274489

Mynd 2. „Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bók sl. 7 daga 

32% þjóðarinnar les einu sinni eða oftar á dag, þar af lesa rúmlega 6% 5 sinnum eða oftar á dag. 

 

Mynd-3_1668521375293

Mynd 3. Samanburður á milli ára á lestri/hlustun á hefðbundnar bækur og hljóðbækur. 

Um 71% höfðu lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, um 43% hlustað á hljóðbækur og um 29% lesið rafbækur. Lestur dregst saman í öllum flokkum en niðurstöður 2021 voru eftirfarandi: Um 78% höfðu lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, um 46% hlustað á hljóðbækur og um 31% lesið rafbækur. Lítill munur mælist á milli ára á lestri rafbóka. Yngsti aldurshópurinn, 18-24 ára les oftar rafbækur en aðrir aldurshópar.

Mynd-4_1668521509866

Mynd 4. „Hvers konar tegund bóka hlustar/lest þú helst. Hér máttu svarendur haka við fleiri en einn möguleika.


59% þjóðarinnar segist helst lesa skáldsögur og 52% velja helst glæpasögur þegar spurt er hvers konar tegund bóka hlustar/lest þú helst.

Les þjóðin á íslensku eða öðru tungumáli?


Um 65% landsmanna les einungis eða oftar á íslensku en öðru tungumáli og má því greina breytingu frá því í fyrra, en þá var hlutfallið 58%.

Um 18% les jafn oft á íslensku og öðru tungumáli, um 14% les oftar á öðru máli en íslensku og um 3% les einungis á öðru tungumáli.

Mynd-5_1668522602233

Mynd 5. „Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli? Samanburður á niðurstöðum síðustu ár.

Aldurshópurinn 18 til 34 ára les marktækt oftar á öðru tungumáli en íslensku, en aðrir aldurshópar, Ekki greinist marktækur munur á milli kynja en íbúar landsbyggðarinnar lesa frekar á íslensku en þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Einnig lesa þau sem eru með grunnskólapróf frekar á íslensku en aðrir hópar.

Er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku?


77% þjóðarinnar er sammála því að það sé mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku, 17% svara hvorki né og 6% eru því ósammála. 

Mynd-6_1668522695515

Mynd 6. „Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: „Það er mikilvæg að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku?”

Þjónusta bókasafna

Um 34% landsmanna hafa nýtt sér þjónustu bókasafna á síðastliðnum 12 mánuðum. Konur nýta sér þjónustu bókasafna oftar en karlar og þau sem eru með 2 eða fleiri börn á heimili oftar en aðrir.

Mynd-7

Mynd 7. „Niðurstöður fyrir spurninguna og samanburður á milli ára „Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi á sl. 12 mánuðum?”

 

Mikilvægi þess að bókmenntir njóti opinbers stuðnings

Meirihluti þjóðarinnar eða um 74% telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. Það er ívið minna en mældist í fyrra en þá var hlutfallið 79% sem taldi það mikilvægt.

Konur telja opinberan stuðning mikilvægari en karlar. Þau sem höfðu lokið grunnnámi eða framhaldsnámi í háskóla þótti það mikilvægara en öðrum menntunarhópum.

 

Mynd-8

Mynd 8. „Niðurstöður fyrir spurninguna og samanburður á milli ára „Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?”

Hvaðan koma hugmyndir að lesefni?


Yfir helmingur eða 55% svarenda fær hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum, um 35% í umfjöllun í fjölmiðlum, 17% í auglýsingum, 32% í umfjöllun á samfélagsmiðlum, 16% í bókabúðum og 18% í bókasöfnum.

Hefur þú gefið einhverjum bók/bækur sl 12 mánuði?


Færri gefa bók/bækur í ár en fyrir ári síðan. 59% viðmælenda segjast hafa gefið einhverjum bók á sl. 12 mánuðum á móti 41% sem hafa ekki gefið bók. Árið 2021 var þetta hlutfall 68% sem hafa gefið bók en 32% ekki.

Mynd-9

Mynd 9. Niðurstöður fyrir spurninguna „Hefur þú gefið einhverjum bók/bækur sl. 12 mánuði“

Hér má nálgast heildarniðurstöður könnunarinnar.

Eftirtaldar spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur í könnuninni:

 1. Hversu margar bækur hefur þú lesið og/eða hlustað á sl. 30 daga?
 2. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bók sl. 7 daga?
 3. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á sl. 12 mánuðum?
 4. Hvers konar tegund bóka hlustar/lest þú helst?
 5. Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?
 6. Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi á sl. 12 mánuðum?
 7. Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: „Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“
 8. Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?
 9. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?
 10. Hefur þú gefið einhverjum bók/bækur sl. 12 mánuði?


Um framkvæmd könnunar

Prósent
Rannsóknarfyrirtæki Prósent sá um framkvæmd könnunar og fór hún fram dagana 14. október til 8. nóvember 2022.
Send var könnun á könnunarhóp Prósents, 18 ára og eldri á Íslandi.
Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.
Úrtak: 2.800 (einstaklingar 18 ára og eldri).
Svarendur: 1409.
Svarhlutfall: 50%

 


Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir útgáfustyrki til nýrra íslenskra ritverka - 3. maí, 2024 Fréttir

Í ár var úthlutað tæplega 21 milljón króna í útgáfustyrki til 41 verks. Alls bárust 66 umsóknir og sótt var um heildarupphæð rúmlega 74 milljónir króna.

Nánar

Úthlutun úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði; 25 spennandi verk hljóta styrki - 6. maí, 2024 Fréttir

8 milljónum var veitt úr sjóðnum til 25 barna- og ungmennaverka sem koma út á næstunni.

Nánar

Úthlutun til þýðinga á íslensku; 27 styrkir veittir í fyrri úthlutun ársins - 3. maí, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins 2024 bárust 37 umsóknir til þýðinga á íslensku. Veittir voru 27 styrkir að upphæð 8,8 millj. kr. Seinni úthlutun ársins fer fram í nóvember. 

Nánar

Allar fréttir